17.8.2014

Lekamálið er í eðli sínu pólitískt þótt saksóknari velji dómstólaleiðina


Fréttastofa ríkisútvarpsins leitaði til Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, laugardaginn 16. ágúst vegna ákvörðunar ríkissaksóknara að ákæra Gísla Freyr Valdórsson, aðstoðarmann innanríkisráðherra, í „lekamálinu“ svonefnda.

Prófessorinn fellir þann dóm að það standist ekki hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra að um ljótan pólitískan leik sé að ræða úr því að ákært hafi verið í málinu. Vissulega á ríkissaksóknari að reisa ákæru sína á lögfræðilegu mati en ekki pólitísku. Þetta átti einnig við í landsdómsmálinu þar sem leikinn var ljótur pólitískur leikur þótt ákært væri.

Saksóknari hafði þann kost að hefja ekki rannsókn lekamálsins þrátt fyrir þrýsting að undirlagi DV og samtakanna No Borders sem berjast gegn gildandi lagareglum um meðferð hælisumsókna. Saksóknari tók kæru að undirlagi þessara aðila til meðferðar. Að baki lekamálinu hafa alla tíð búið pólitísk sjónarmið og leikurinn hefur verið ljótur hvernig sem á hann er litið.

Að lokinni rannsókn átti saksóknari um þrjár leiðir að velja: óska frekari rannsóknar, fella málið niður eða ákæra.

Með því að óska eftir frekari rannsókn hefði saksóknarinn gefið til kynna að lögregla hefði ekki staðið rétt að málum, ef til vill vegna þrýstings frá innanríkisráðherra. Saksóknari telur ekki neina meinbugi á rannsókninni og bíður ekki einu sinni eftir áliti umboðsmanns sem hefur þráspurt innanríkisráðherra um samtöl hans við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.

Með því að fella málið niður hefði saksóknari kallað yfir sig ofsareiðina og óbilgirnina sem einkennt hefur málflutning DV. Innan dyra á blaðinu ríkir upplausnar- og óttaástand vegna þess að blaðamenn telja að eigendur blaðsins muni ekki greiða kostnað af meiðyrðamálum sem þeir eigi yfir höfði sér.

Með því að ákæra Gísla Frey sem frá fyrsta degi hefur haldið fram sakleysi sínu í málinu velur saksóknari þann kost að láta dómara eiga síðasta orðið.

Að ákvörðun saksóknarans sanni að ekki sé pólitík og það ljót pólitík í þessu máli stenst einfaldlega ekki.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor endurtekur gamalkunnar fullyrðingar um að annars staðar hefðu ráðherrar sagt af sér: „Stjórnsýslubrot af þessu tagi hafa leitt til fjölmargra afsagnar ráðherra hérna í nágrannalöndunum,“ segir Ólafur. Hann nefnir ekki eitt dæmi máli sínu til stuðnings.

Undir þau orð prófessorsins skal tekið að staða ráðherrans er erfið og hefur verið allt frá 18. nóvember 2013 þegar tekin var ákvörðun um það innan samtakanna No Borders og á ritstjórn DV að berjast fyrir rétti ólöglega innflytjandans Tonys Omos til að dveljast í landinu með vísan til þess að hann ætti von á barni sem fætt yrði hér snemma árs 2014. Einnig er rétt hjá prófessornum að ráðherrann og ráðuneyti hans hefðu átt að leggja allar upplýsingar um mál Tonys Omos fram opinberlega strax á fyrstu stigum málsins. Skortur á upplýsingum um alla efnisþætti málsins hefur skaðað ráðherrann og ráðuneytið.

Að ráðherra víki úr embætti vegna þess að starfsmaður sem starfar á hans ábyrgð er ákærður er langsótt og þarf að færa sterkari rök fyrir kröfunni um afsögn ráðherrans en fyrir því að ráðherrann sitji áfram. Í þessu tilviki hefur innanríkisráðherra auk þess sagt sig frá ábyrgð á dómstólum og saksóknara á meðan málið er rekið gegn aðstoðarmanninum. Þar er um varúðarráðstöfun að ræða.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra, sagði í grein í Fréttablaðinu laugardaginn 9. ágúst að innanríkisráðherra hefði átt „að óska eftir því við forsætisráðherra að forseti Íslands skipaði annan ráðherra í ríkisstjórninni til þess að fara með yfirstjórn lögreglunnar að því er varðaði þessa tilteknu rannsókn“ þegar ráðherrann taldi nauðsynlegt að ræða við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Þorsteinn segir réttilega í grein sinni:

„Setning ráðherra til meðferðar einstaks máls er vel þekkt eftir gildistöku stjórnsýslulaga fyrir tuttugu árum. Hún veikir ekki stöðu viðkomandi ráðherra, hvorki lagalega né pólitískt, en eyðir tortryggni.“

Þegar prófessorar í stjórnmálafræði eða í öðrum greinum leita fordæma í útlöndum ættu fréttamenn að biðja þá að nefna dæmi. Að ráðherra segi af sér vegna saksóknar á hendur öðrum er svo sérstakt tilvik að óhjákvæmilegt er að efnisratriðum þess sé lýst nánar af þeim sem nota það sem fordæmi í lekamálinu.

Að stjórnmálamenn telji mál pólitísk í eðli sínu þótt saksóknarar komi að þeim er til dæmis svo algengt í Frakklandi að annað heyrir næstum til undantekninga. Eitt slíkt mál er á döfinni um þessar mundir í Frakklandi, að þessu sinni gegn Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta. Þar eru tveir rannsóknardómarar með mál gegn Sarkozy í höndunum og segir hann þá láta stjórnast af pólitískum sjónarmiðum, annar sé beinlínis pólitískur andstæðingur sinn.

Í Bandaríkjunum beinist athygli um þessar mundir að Rick Perry, ríkisstjóra í Texas, vegna ákæru á hendur honum sem hann segist ætla að verjast, hún verði ekki til að hrekja sig úr embætti. Hann er sakaður um valdníðslu þar sem hann hafi skrúfað fyrir fjárveitingu til héraðssakóknara vegna pólitískrar óvildar í garð þess sem gegnir saksóknaraembættinu. Perry sagði á blaðamannafundi að um „fáránlegan“ pólitískan leik væri að ræða og hann mundi vinna sigur á þeim sem vildu grafa undan stjórnarskrá og lögum Texas-ríkis í pólitískum tilgangi.

Demókratar um öll Bandaríkin krefjast afsagnar Perrys sem er einn af forystumönnum repúblíkana í Bandaríkjunum og hugsanlegur forsetaframbjóðandi árið 2016.

Í sjálfu sér telja menn ekki fréttnæmt að demókratar vilji bola Perry úr embætti, þeir hafa aldrei stutt hann frekar en stjórnarandstæðingar hér á landi hafa aldrei stutt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til að gegna embætti innanríkisráðherra og leggjast því af þunga á þá sveif núna að henni verði vikið úr embætti.

Fréttir berast um að þingmenn flokks pírata ætli að flytja tillögu á alþingi um vantraust á Hönnu Birnu vegna lekamálsins. Flokkurinn er stofnaður á grundvelli þeirrar hugsjónar að menn séu ekki sóttir til saka fyrir að miðla upplýsingum til almennings á netinu hvort sem það er almennt talið löglegt eða ekki!