17.11.2012 22:41

Laugardagur 17. 11. 12

Í dag skrifaði ég pistil um nauðasamninga við kröfuhafa á hendur þrotabúum Kaupþings og Glitnis og má lesa hann hér. Þá setti ég einnig inn á síðuna fimm greinar sem ég skrifaði á Evrópuvaktina um ríkisfjármál og ESB.

Samfylkingin valdi frambjóðendur í þremur kjördæmum í dag: Suðurkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.

Í Suðurkjördæmi fór Oddný Harðardóttir upp fyrir Björgvin G. Sigurðsson – það er sitjandi þingmenn skiptu um sæti. Róbert Marshall sem var í þriðja sæti síðast fór í Bjarta framtíð og því kom nýr í hans stað: Arna Ír Gunnarsdóttir. Björgvin G. fjarlægist forystuhlutverk í Samfylkingunni.

Í Reykjavík röðuðu sitjandi þingmenn sér í fimm efstu sætin: Össur Skarphéðinsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir og Skúli Helgason. Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi komst ofar á listann en Mörður Árnason og Anna Margreit Guðjónsdóttir, eldheitur ESB-aðildarsinni, hlaut 8. sæti.

Ríkisútvarpið segir að litlu hafi munað á fylgi Össurar og Sigríðar Ingibjargar. Össur hlaut 972 atkvæði - 6.669 voru á kjörskrá en  2514 kusu, 38%. Össur hlaut því 39% atkvæða þeirra sem kusu. Telst það ekki mikið fylgi á mælikvarða Össurar og ekki neinn óskabyr vilji hann stefna að formennsku í Samfylkingunni. Líklegra er að úrslitin verði til þess að ýta undir stuðning við Sigríði Ingibjörgu sem formannsframbjóðanda, hún hlaut 1322 atkvæði í 1.-2. sæti.

Teitur Atlason fór mikinn á netinu sem frambjóðandi. Hann kemst hins vegar ekki á blað þegar úrslitin eru kynnt og hefur greinilega goldið afhroð miðað við eigin væntingar. Framboð hans er næsta dapurleg uppákoma miðað við yfirlæti hans í garð annarra. Sömu sögu er að segja um fylgisleysi Marðar Árnasonar. Verður forvitnilegt að fylgjast með því á hverju hann skeytir skapi sínu eftir að hafa fallið sæti neðar en aðrir sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar.

Heildarmyndin af Samfylkingunni hefur skýrst eftir að listar hafa verið valdir í þessum fjórum kjördæmum i dag: engin marktæk endurnýjun og léleg niðurstaða fyrir sjálfskipaðan leiðtoga flokksins í stjórnarmyndunarviðræðum, Össur. Líkur eru á formannskosningu milli Árna Páls Árnasonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur.

Í fimmta kjördæminu, NA-kjördæmi, var flokksval hjá Samfylkingunni fyrir viku. Þar féll Sigmundur Ernir Rúnarsson langt niður eftir listanum en Erna Indriðadóttir náið kjöri í hans stað í 2. sæti á eftir Kristjáni L. Möller þingmanni.