17.11.2012

Nauðasamningar, ráðleysi og seðlabankinn

Forvitnilegar umræður urðu á alþingi fimmtudaginn 15. nóvember þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, við Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, um  seðlabankann og nauðasamninga við kröfuhafa Kaupþings og Glitnis.

Bjarni Benediktsson taldi að voðinn væri vís ef ekki yrði staðið vel að verki við afnám gjaldeyrishaftanna og stjórn á útstreymi gjaldeyris. Vék hann að nauðasamningum um slit Kauþings og Glitnis sem eru á lokastigi en að þeim koma erlendir kröfuhafar, vogunarsjóðir (hedge funds) og hrægammasjóðir (vulture funds). Vildi Bjarni að alþingi yrði haft með í ráðum.  Hann benti á að óvarlegt væri að treysta mati Seðlabanka Íslands í þessu efni. Árið 2009 hefði bankinn spáð að án Icesave-skuldbindinganna stefndi hrein skuldastaða við útlönd í 700 milljarða króna á árinu 2012, nýjustu tölur sýndu að hún yrði 1.400 til 1.600 milljarðar króna.

Jóhanna Sigurðardóttir taldi „okkur“  hafa „öll tök á málinu“ og bætti við:

 „Seðlabankinn er með reglugerðarvaldið varðandi útstreymi og ætti því að geta stjórnað því hvernig útstreymi vegna uppgjörs bankanna verður háttað. Hann setur reglurnar og við höfum fjallað um málið í ráðherranefnd um efnahagsmál síðast í gær [14. nóvember]. Seðlabankinn bíður eftir því að nauðasamningar klárist áður en nokkuð gerist í því máli. Seðlabankinn mun ekki setja reglur um útstreymi fyrr en það liggur fyrir. Ég held því að seðlabankinn hafi fullt vald á stöðunni og muni gæta þess að útstreymið hafi ekki neikvæð áhrif á stöðugleika og gæta þjóðhagsvarúðar.

Nú er unnið að því á vegum fjármálaráðuneytisins að meta áhrifin af því að greiða út úr þrotabúum, þ.e. hvaða áhrif það hefur á fjármálastöðugleikann, svo dæmi séu tekin og auðvitað metur Seðlabankinn það líka. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að hv. efnahagsnefnd sé upplýst um stöðu mála og fái reglulegar upplýsingar um hver staða þeirra er. Ég get því vel tekið undir það.

Það er mikilvægt að fara varlega í þessu máli, ekki síst þegar talað er um að krónuvæða erlendar eignir sem gætu haft alvarleg áhrif á efnahagsmálin og á traust umheimsins á Íslandi.“

Bjarni taldi varasamt að treysta jafnmikið á seðlabankann og forsætisráðherra vildi gera. Hann hefði misreiknað sig um 800 milljarða króna við mat á erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins 2009. Bjarni áréttaði skoðun sína um aðild alþingis hann sætti sig ekki við að „einum manni“ [Má Guðmundssyni seðlabankastjóra]  treyst fyrir ákvörðunum í þessum máli.

Jóhanna sagðist hafa fullt traust á áð seðlabankinn héldi „ vel utan um málið“. Það yrði ekki einn maður sem gerði það heldur fylgdust ráðuneytin, „ekki síst efnahagsráðuneytið og fjármálaráðuneytið, mjög vel með þessum málum og eins ráðuneyti bankamála“.  Þetta er skrýtin setning, ráðuneyti efnahagsmála og fjármála hafa verið sameinum undir einum hatti Katrínar Júlíusdóttur en Steingrímur J. Sigfússon fer með bankamálin.  Þau eiga sem sagt að axla pólitíska ábyrgð á ákvörðunum Más Guðmundssonar í málinu.

Sigmundur Davíð spyr Katrínu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tók þráðinn upp eftir að orðaskiptum Bjarna og Jóhönnu lauk og beindi spurningum til Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsmálaráðherra. Hann spurði Katrínu beint: „Hefur seðlabankinn umboð til að semja við kröfuhafa gömlu bankanna og á bankinn í slíkum viðræðum við kröfuhafana nú? [...]hefur hæstv. fjármálaráðherra eða fulltrúar hæstv. ráðherra komið að þeim viðræðum?“ Þá spurði hann hvort viðræðunum lyki til dæmis fyrir 1. maí 2013.

Katrín Júlíusdóttir svaraði að seðlabankinn hefði enga aðkomu að nauðasamningum  vegna þrotabúa bankanna nema sem kröfuhafi í búin. Framkvæmd nauðasamninga eftir gerð þeirra færi að lögum og þeir yrðu að taka mið af ákvæðum laga um gjaldeyrismál og reglum seðlabankans um fjármagnshöft, það er gjaldeyrishöft. Þess vegna hefði bankinn  „mjög mikið um það að segja með hvaða hætti útgreiðslur úr þrotabúum fara fram vegna þess að það er verkefni hans að tryggja fjármálastöðugleika í landinu. Það er líka verkefni hans að tryggja gjaldeyrisgreiðslujöfnuð þannig að það er algerlega klárt að sá hluti nauðasamninganna lýtur algjörlega reglum seðlabankans og seðlabankinn hefur á því fulla stjórn,“ sagði fjármálaráðherra.

Í ljósi þess svars að seðlabankinn eða fulltrúar hans hefðu ekki umboð til að koma að gerð nauðasamninga nema sem körfuhafi vildi Sigmundur Davíð vita hverjir ættu í viðræðum við kröfuhafa bankanna og hvernig þær viðræður stæðu. Hvort þingið ætti ekki að koma að þeim viðræðum, það er fylgjast með þeim áður en þær yrðu leiddar til lykta?  „Þó að ríkisstjórnin hafi tröllatrú á seðlabankastjóra hefur reynslan því miður sýnt, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á áðan, að mat seðlabankans á einmitt þessum málum hefur ekki reynst rétt. Þar hefur skeikað mörg hundruð milljörðum kr. Þar af leiðandi er það skylda hæstv. ráðherra og þingsins að fylgjast með gangi þessara mála,“ sagði Sigmundur Davíð.

Katrín Júlíusdóttir áréttaði að „seðlabankinn hefði fullt umboð til að tryggja fjármálastöðugleika í landinu og einnig greiðslujöfnuð. En ekki til samninga? spurði Sigmundur Davíð í frammíkalli. Ráðherrann sagði að  seðlabankinn kæmi „mjög mikið að þessum málum“ vegna skyldu sinnar í þágu fjármálastöðugleikans og bætti við:  „Þar af leiðandi geri ég ráð fyrir því að seðlabankinn sé í sambandi við þá sem sjá um þessi mál varðandi með hvaða hætti þessir þættir verði tryggðir í tengslum við nauðasamningana þó að hann komi ekki að samningunum sjálfum samkvæmt lögum.“

Máli sínu lauk fjármála- og efnahagsmálaráðherra á þeim orðum að „ferlið allt“ væri í „ágætisfarvegi“. Í ráðuneyti hennar væri mjög vel fylgst með málinu. Hún sagðist fús til að ræða málið frekar á þingi síðar. „Ég býð mig fram ef einhver vill eiga við mig sérstaka umræðu um málið,“ sagði Katrín.

Undarleg staða seðlabanka

Formenn stjórnarandstöðuflokkana vilja að þingmönnum verði gerð grein fyrir gangi þessara mála. Að sjálfsögðu ber stjórnvöldum skylda til þess.

Hitt er alvarlegast í málinu að því hefur verið ýtt inn á grátt svæði innan stjórnsýslunnar og svo er látið eins og treysta verði dómgreind eins manns þegar að því kemur að leggja mat á hvort framkvæma eigi nauðsamninga sem ráðherrar segja að aðrir geri en þó ekki. Samninga sem snerta mjög afkomu þjóðarbúsins og geta valdið kollsteypu sé ekki rétt að málum staðið.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur lagt sig í líma við að gera minna úr hættunni af þessu en aðrir. Hann lýsir aðkomu seðlabankans að gerð nauðasamninganna hins vegar á skarpari hátt en ráðherrarnir tveir.  Már sagði á ruv.is föstudaginn 16. nóvember, daginn eftir að Jóhanna og Katrín  höfðu sagt á alþingi að seðlabankinn kæmi ekki að nauðasamningum við Kaupþing og Glitni nema sem kröfuhafi þótt hann fylgdist náið með þeim:

„Nei nei það getur ekkert sett krónuna á hliðina og við munum sjá til þess að það geri að ekki. Við munum ekki samþykkja neina nauðasamninga sem setja krónuna á hliðina þvert á móti munum við í samvinnu við þessa aðila reyna að útbúa þetta þannig að áhrifin á fjármálastöðuleika, neikvæð áhrif, séu engin.“

Þarna talar Már eins og það sé í sínum verkahring að „samþykkja“ nauðasamninga. Forsætisráðherra telur hann hins vegar hafa „reglugerðarvald“ til að stjórna útstreymi á fé í krafti gjaldeyrislaga og fjármála- og efnahagsmálaráðherra talar óljósum orðum um vald seðlabanka í ljósi ákvæða um „fjármálastöðugleika“.

Hér eins og endranær hafa ráðherrar og embættismaður hliðhollur þeim haft algjör endaskipti á hlutunum þegar litið er til sjálfstæðis seðlabanka og stöðu hans utan stjórnmálaátaka. Áður hefur verið fullyrt hér að betra sé að hafa fyrrverandi stjórnmálamenn í brú seðlabankans en tæknimann sem lýtur á sig sem stjórnmálamann og verður í raun eins og varadekk fyrir stjórnarherra þegar þeir hafa engin tök á málum. Hvaða umboð hefur seðlabankastjóri til þess? Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði fyrir tveimur mánuðum þegar þýski seðlabankastjórinn stóð ekki að ákvörðun í bankaráði Seðlabanka Evrópu um kaup á ríkisskuldabréfum að hann sem ráðherra mætti aldrei segja neitt um störf eða stefnu seðlabankans. Annað gildir hér eins og ræður Jóhönnu og Katrínar sýna.

Dregið skal í efa að nokkur staðar á byggðu bóli sé seðlabanki á kafi í uppgjörsmálum gjaldþrota banka á þann veg sem ráðherrar og seðlabankastjóri lýsa hér að ofan. Engum ráðherra hefur verið jafntíðrætt um siðareglur og ábyrgð og Jóhönnu Sigurðardóttur. Svör hennar og Katrínar á þingi sýna að ábyrgðar- og siðareglur eru að engu hafðar. Már Guðmundsson fer sínu fram í þessu máli eins og eigin launamálum. Ráðherrarnir eru ráðalausir og hann fer inn í tómarúm og brýtur þar með allar meginreglur sem eiga að gilda um starfshætti seðlabanka. Hvar er lögmæti hans til að tala um nauðsamningana og afskiptarétt sinn á þann veg sem hann gerir?

Má treysta Helga Hjörvar?

Formenn stjórnarandstöðuflokkana benda á gilda ástæðu fyrir að ekki sé unnt að treysta mati seðlabankans. Hann fór með rangt mál þegar hann lagði mat á skuldastöðu þjóðarbúsins svo skeikaði mörg hundruð milljörðum.

Full ástæða er hins vegar til að efast um að alþingi sé betur treystandi í þessu efni á meðan Helgi Hjörvar (Sf) fer þar með formennsku í efnahags- og viðskiptanefnd. Hinn 12. mars sl. lagði seðlabankinn ríkisstjórninni til frumvarp til laga sem hann taldi styrkja stöðu sína gagnvart erlendum kröfuhöfum. Helgi Hjörvar beitti sér fyrir breytingu á frumvarpinu kröfuhöfunum í vil. Sögusagnir eru um að hann hafi beitt sér í september á þessu ári til að seðlabankinn heimilaði útgreiðslu á fé uppi nauðasamningaskuld erlendra kröfuhafa.

Umræður síðustu vikna um væntanlega nauðasamninga vegna Kaupþings og Glitnis hafa sýnt að ríkisstjórnin skilar auðu í málinu, leggur það í hendur Más Guðmundssonar sem segir umræðurnar styrkja sig (til hvers?). Málið verður að ræða fyrir opnum tjöldum og á alþingi en varasamt er að treysta á niðurstöðu þar á meðan Helgi Hjörvar kann að ráða henni.

Haldi einhver að erlendir kröfuhafar fylgist ekki með þessum hræringum öllum, fer hann villur vega. Þeir láta þýða allt sem þeir telja skýra stöðuna og leitast við að lesa í orð manna til að átta sig á hvar á berja að dyrum til að ná sem mestu fram. Af orðum ráðherranna má ráða að það sé hjá Má Guðmundssyni. Hann opni og loki peningaleiðslum til útlanda – einn manna. Í eyrum útlendinga hljómar það stórundarlega þegar frá þessari skipan mála er skýrt. Er engin bankastjórn í Seðlabanka Íslands? er spurt. Nei, fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar var að reka þrjá seðlabankastjóra með því að breyta lögum, er svarið. Efasemdir um að allt sé hér sem skyldi aukast við svör af þessu tagi.

Þetta sérkennilega ástand er enn rökstutt með því að hér hafi bankar farið á hausinn haustið 2008. Hve lengi halda menn að neyðarástand vegna hrunsins haldi sem skýring á stjórnarháttum sem brjóta í bága við allar viðteknar leikreglur samkvæmt samningum sem Ísland hefur gert? Ástæðan fyrir hinn slæmu stöðu nú er einföld: Íslandi hefur verið hörmulega stjórnað af Jóhönnu og Steingrími J. Þau vilja ekki afnema gjaldeyrishöftin. Jóhanna telur þau þjóna ESB-málstaðnum og Steingrímur J. sér í þeim stjórntæki í anda áætlunarbúskapar sósíalista.

Stjórnarandstöðunni ber skylda til að leggja fram aðra leið. Hún verður að móta stefnu  frá höftunum og skýra hana á trúverðugan hátt til að kjósendur hafi skýran kost þegar gengið verður til kosninga vorið 2013. Tíminn er naumur, þess vegna ber að láta hendur standa fram úr ermum og taka af skarið sem fyrst.