13.12.2011

Þriðjudagur 13. 12. 11

Ég skrifaði í dag pistil um uppnámið innan ESB og Ísland sem lesa má hér.

Nokkrar umræður hafa orðið um trjátoppa í Öskuhlíðinni og að þeir trufli flugumferð um Reykjavíkurflugvöll. Á sínum tíma var flugmálastjórn með aðsetur í bröggum á svæðinu sem Háskólinn í Reykjavík hefur lagt undir sig með byggingum og bílastæðum. Starfsfólkið í þessum bröggum hóf trjárækt í Öskjuhlíð undur forystu Agnars Kofoed Hansens flugmálastjóra.

Ég leit stundum inn í þessa bragga þegar ég lék mér þarna sem strákur og man eftir áhuganum á trjáræktinni. Það hefur áreiðanlega ekki vakað fyrir neinum af starfsmönnum flugmálastjórnar að loka Reykjavíkurflugvelli með of háum trjám.

Víða um lönd gera menn geilar í skóga svo að trjágróðurinn skapi ekki hættu fyrir flugumferð. Hvað er á móti því að gera það þarna? Að minnsta kosti er einkennilegt að þeir leggist gegn því sem samþykktu hinar miklu framkvæmdir milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur. Þar grær aldrei um heilt en skógur vex á ný vilji menn leyfa honum það.  Verði skógurinn í Öskjuhlíð grisjaður mun það aðeins ýta undir mannaferðir um hlíðina.

Áhugamenn um velferð Öskjuhlíðar ættu að huga að því að setja keðju eða hlið á veginn við Fossvogskirkjugarð. Bílaumferð niður eftir hlíðinni á þessum slóðum kallar á sóðaskap auk þess sem sumir reyna greinilega að aka þessa leið niður að Háskólanum í Reykjavík.