Óvild ræður vonlausum ESB-leiðangri
Erfiðara verður með hverjum deginum sem líður að skilja efnislegar ástæður þess að ríkisstjórn Íslands kýs að láta eins og ekkert hafi í skorist innan Evrópusambandsins þótt það logi stafna á milli. Að sjálfsögðu er eðlilegt að hætta viðræðum um aðild að ESB á meðan stjórnendur ESB átta sig á því í hvaða ESB þeir eru og hvernig stjórn þess og evrunnar sé háttað. Hinni sameiginlegu mynt er lýst sem hjarta ESB. Nú hefur verið ákveðið að flytja evruna í nýjan klúbb en óvíst er um aðild að honum eða hvaða skilyrði eru sett vegna hennar.
Engu er líkara en ríkisstjórn Íslands viti ekki af þessu og utanríkisráðherra segir að það muni skaða orðspor Íslands ef hún dragi réttar ályktanir af þróun mála innan ESB og geri hlé á viðræðum sínum um aðild. Sýni eitthvað þekkingarleysi á því sem er að gerast innan ESB og dómgreindarleysi á eigin stöðu gagnvart þeim atburðum er að halda aðildarviðræðunum áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Þegar grannt er skoðað eru menn ekki lengi að komast að því að fyrir ríkisstjórninni vakir fyrst og fremst að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn með aðildarbrölti sínu. Var það enn og aftur staðfest á alþingi 13. desember 2011 í ræðu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra.
Skoðanakönnun vekur falskar vonir
Engu er líkara en ESB-aðildarsinnar á Íslandi líti á það sem viðurkenningu fyrir eigin málstað að 65,3% aðspurðra svari játandi spurningu um hvort þeir vilji að aðildarviðræðum við ESB verði lokið og málið lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagt var frá þessu í Fréttblaðinu mánudaginn 12. desember og jafnframt að 34,7% vildu draga aðildarumsóknina til baka. Þá sagði blaðið að 56,4% sjálfstæðismanna vildu ljúka viðræðunum og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þetta háa hlutfall sjálfstæðismanna staðfestir að menn vilja ljúka þessu viðræðuferli ríkisstjórnarinnar sem fyrst til að geta kastað ESB-málinu út af borðinu í eitt skipti fyrir öll. Margir vona einnig að verði ESB-málinu ýtt til hliðar jafngildi það því að ríkisstjórnin sigli sinn sjó og Samfylkingin átti sig á því að hún eigi að falla frá frekju sinni í ESB-málinu. Við öllum blasir að viðræðunum er aðeins haldið til streitu vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson skynja ekki hvað er að gerast innan Evrópusambandsins og Steingrímur J. Sigfússon lætur þau teyma sig áfram með ráðherrastólinn sem gulrót og af óvild í garð sjálfstæðismanna.
Hvarvetna í næstu nágrannaríkjum Íslands vex þeirri skoðun fylgi meðal almennings að hann sé annað hvort betur settur utan Evrópusambandsins eða að minnsta minnsta kosti án evrunnar. Í Noregi vilja nú um 80% manna ekkert með ESB-aðild hafa. Andstaða við upptöku evru hefur aldrei verið meiri, 80%, í Svíþjóð og sömu sögu er að segja um Danmörku þar sem meirihlutinn vill einnig að hugsanleg aðild Dana að evru-samningnum verði borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Í Bretlandi styður meirihluti manna þá afstöðu Davids Camerons forsætisráðherra að andmæla þátttöku í evru-sambandinu vegna andstöðu ESB við sérlausn fyrir Breta vegna fjármálafyrirtækja í London. Meira að segja í Þýskalandi telja 46% að þjóðin væri betur sett utan ESB.
Að nokkrum manni detti í hug að meirihluti Íslendinga vilji ljúka aðildarviðræðum við ESB sem fyrst til að samþykkja aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu er í ætt við þá blekkingu sem einkennir allan málflutning ESB-aðildarsinna hér á landi. Meirihlutinn vill fá að greiða atkvæði um málið til að losna við það í eitt skipti fyrir öll.
Leikrit í Brussel
Skoðanakönnunin kann að hafa verið gerð af Fréttablaðinu til að veita Össuri Skarphéðinssyni veganesti og sjálfstraust í Brussel mánudaginn 12. desember þegar hann hitti Štefan Füle, stækkunarstjóra ESB, á ríkjaráðstefnu í Brussel. Þar var enn einu sinni sett á svið athöfn til að opna og loka köflum í viðræðuferli Íslendinga, það er að segja köflum sem ekki þurfti að ræða af því að íslensk stjórnvöld hafa tileinkað sér efni þeirra með aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Við þessar broslegu athafnir er alltaf látið eins og þeir sem taka þátt í þeim séu undrandi yfir því hve auðveldlega gengur að að samhæfa afstöðu fulltrúa Íslands og ESB til einhvers sem þegar hefur verið samhæft með EES-samningnum.
Í dreifibréfi sem Stefán Haukur Jóhannesson, formaður viðræðunefndar Íslands, sendi frá sér fyrir ríkjaráðstefnuna sagði meðal annars:
„Það sem er merkilegt við ráðstefnuna á mánudaginn er að þá verður í fyrsta skipti opnaður kafli sem er ekki hluti af EES-samningnum en það er kaflinn um réttarvörslu og grundvallarréttindi (23). Við munum loka honum samdægurs sem helgast m.a. af því að Ísland er aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu og öðrum alþjóðasáttmálum á sviði mannréttinda, og þannig er okkar löggjöf og framkvæmd sambærileg evrópsku regluverki. Þess má geta að 23. kafli hefur reynst öðrum umsóknarríkjum, nú síðast Króatíu, þungur fyrir fæti og mikið reynt á. Að við skulum ljúka þessum kafla svo fljótt í ferlinu, og á sama degi og hann er opnaður, endurspeglar því hve nærri Ísland stendur Evrópu í mörgu tilliti.“
Þessi orð eru til marks um hvernig fulltrúar Íslands nálgast viðfangsefnið. Hvort sem Króatar hafa lögfest mannréttindasáttmála Evrópu eins og hér hefur verið gert eða ekki er hitt víst að eitt af helstu vandamálunum við ESB-aðild Króatíu var einmitt að ESB vildi sjá til þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að leiða þá fyrir dómstóla sem talið er að hefðu framið stríðsglæpi í stríði Króata og Serba eftir upplausn Júgóslavíu. Að nefna í sömu andrá stöðu mannréttindamála hér og í Króatíu og telja þann samanburð okkur til tekna gagnvart viðræðunefnd ESB gefur varla tilefni til að setja sig á háan hest.
Uppnámið innan ESB
Aðildarviðræðurnar fá á sig æ meiri óraunveruleikablæ eftir því sem þeim er lengur haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist þó Evrópusambandið leiki á reiðiskjálfi og leiðtogar ríkja þessi ræði opinberlega um klofning þess.
Öllum ætti að vera ljóst að Bretar hafa sagt skilið við evru-hluta ESB og menn ræða nú um ESB II. Hvernig er staðan í ESB II þegar litið er yfir völlinn 13. desember 2011:
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði ESB-þingmönnum að kröfur Breta á leiðtogafundi ESB í Brussel 8. og 9. desember ógnuðu „samheldni innri markaðarins“ og bætti við að niðurstaða fundarins hefði ekki verið „samningur 17 plús heldur samningur 27 mínus“.
Villy Søvndal, utanríkisráðherra Dana og formaður sósíalíska vinstriflokksins, hefur sagt að það kunni að verða erfitt fyrir ríkisstjórnina að hrinda efnahagsstefnu sinni í framkvæmd ef hún þurfi að beygja sig undir ákvæði evru-samningsins. Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra hefur sett ofan í við utanríkisráðherrann með þeim orðum að of snemmt sé að segja nokkuð um efni væntanlegs samnings á þessu stigi eða aðild Dana að honum eða öllum ákvæðum hans. 22% Dana telja að samningurinn leysi ekki evru-vandann.
Óljóst er hvort sænsku ríkisstjórninni tekst að fá nægan stuðning á þingi við evru-samninginn. Ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta á þinginu auk þess er hún klofin í afstöðu til málsins. Þjóðarflokkurinn er hlynntur samningnum en Fredrik Reinfeldt forsætisráðherra, formaður hægrimanna, hefur sagt: „Það kann að virðast undarlegt að gerast aðili að einhverju sem kann að líta út eins og upptaka evru.“ Rúmlega 80% Svía segja nú að þeir mundu hafna evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu, þessi tala var 42% fyrir tveimur árum. Þá hefur stuðningur við ESB-aðild fallið úr 55% í 47% á einu ári.
Í Póllandi hafa stjórnarandstöðuflokkarnir, Lýðræðislega vinstra bandalagið og Flokkur laga og réttar sagt að samkvæmt pólsku stjórnarskránni krefjist allt framsal á fullveldi samkvæmt alþjóðasamningum stuðnings 2/3 þingmanna í báðum deildum þingsins. Ríkisstjórn landsins nýtur ekki þess fylgis meðal þingmanna. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa einnig gagnrýnt að Pólverjar leggi Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til fjármagn í því skyni að bjarga evrunni.
Í Finnlandi hefur stóra þingnefndin svokallaða gagnrýnt Jyrki Katainen forsætisráðherra fyrir að hafa hugsanlega farið út fyrir umboð sitt á leiðtogafundinum í Brussel um evru-samninginn. Nefndin hefur farið þess á leit við sérfræðinga að skýra hvaða áhrif samningurinn hefði fyrir Finnland. Óvíst er hvort meirihluti sé fyrir samningnum á finnska þinginu eða hvort almennt megi bera hann upp á þinginu þar sem ákvæði hans um að meirihluti ríkja geti staðið að ákvörðun um greiðslu úr björgunarsjóði evrunnar kunni að brjóta í bága við finnsku stjórnarskrána.
Óvissa ríkir einnig í Tékklandi. Petr Necas forsætisráðherra sagði á fundinum í Brussel að hann mundi leita eftir samþykki þingsins. Við tékkneska fjölmiðla sagði hann hins vegar: „Það var ekki unnt að skrifa undir þennan alþjóðasamning af ýmsum ástæðum en einkum vegna þess að enginn veit hvað felst í honum.“ Miroslav Kalousek, fjármálaráðherra Tékklands, hefur lýst áhyggjum af því fé sem Tékkum er ætlað að láta renna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann segir að það sé kannski óskynsamlegt að hafna óskinni um fjárstuðning en fjárhæðin sé „gífurlega há“. Seðlabanki Tékklands segir að hún nemi um 10% af opinberum peningaforða Tékklands. Vaclav Klaus, forseti Tékklands, hefur einnig gefið til kynna að Tékkar hafi ekki efni á því að leggja þetta af mörkum.
François Fillon, forsætisráðherra Frakklands, sagði mánudaginn 12. desember að yfirlýsing François Hollandes, forsetaframbjóðanda franskra sósíalista, um að hann mundi endursemja evru-samninginn ynni hann forsetakosningarnar vorið 2012 sýndi „algjört ábyrgðarleysi“. Kannanir benda til þess að Hollande sigri Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum.
Írar munu ákveða í mars 2012 þegar evru-samningurinn á að sjá dagsins ljós í endanlegri gerð hvort þeir muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hann.
Hér hefur aðeins verið farið yfir nokkur atriði úr fréttum undanfarna daga og stuðst við samantekt á vefsíðunni Open Europe. Þetta yfirlit sýnir að ekki er allt sem sýnist þegar rætt er um að ESB-ríkin eða evru-ríkin séu samstiga og því síður að það sé gulltryggt að evru-samningurinn nái fram að ganga í þeirri mynd sem hann var kynntur í síðustu viku. Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni að í matsfyrirtækjum, á fjármálamörkuðum og annars staðar eru menn síður en svo sannfærðir um að þetta skref sem stigið hefur verið dugi til þess að leysa skuldavandann á evru-svæðinu.
Andúð á Sjálfstæðisflokknum ræður för
ESB-aðildarumsóknin var samþykkt á alþingi 16. júlí 2009 á neikvæðum forsendum. Fyrir stjórnarflokkunum vakti að ná sér niðri á Sjálfstæðisflokknum og kljúfa hann eins og lá í augum uppi að yrði eftir að ESB-aðildarmálin voru rædd í flokknum veturinn 2008 til 2009. Von stjórnarflokkanna var að aðildarviðræðurnar mundu ganga svo hratt fyrir sig að jafnvel yrði unnt að veita Sjálfstæðisflokknum náðarhöggið með ESB-aðildinni og Icesave-málinu sem var á döfinni á sama tíma undir forystu Svavars Gestssonar og Steingríms J. Sigfússonar.
Við Össur sátum saman í Evrópunefnd sem fór til Brussel í lok maí 2005. Við hittum þá meðal annarra Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB. Hann talaði eins og ekki mundi taka nema nokkra mánuði að semja um aðild Íslands að ESB. Hinn skammi tími sem hann nefndi er ekki nefndur í skýrslu nefndarinnar frá mars 2007 en þar segir hins vegar:
„Á fundi sem nefndin átti með Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn ESB, kom fram að samningaviðræður við lítil ríki hefðu ekki kallað á mikinn mannafla og líklega þyrfti ekki fleiri en 4-5 starfsmenn til að hefja aðildarviðræður við Ísland. Það væri því væntanlega auðvelt að fara í slíkar viðræður án tillits til annarra ríkja sem hefðu sótt um aðild, það væri engin biðröð sem Ísland þyrfti að fara í og það ætti ekki að skipta máli hvernig staðan væri í samningaviðræðum við önnur umsóknarríki.“
Margt af því sem Össur sagði sumarið 2009 benti til þess að hann teldi að þessi orð Rehns lýstu því sem mundi gerast sendu Íslendingar inn aðildarumsókn til ESB. Allt annað hefur komið á daginn enda flutti Rehn þennan boðskap yfir okkur áður en ESB setti á árinu 2006 strangari mælikvarða á verðandi aðildarríki ESB og mótaði strangar aðlögunarkröfur.
Ekkert hefur gengið eftir varðandi tímasetningar í aðildarviðræðunum. Það hefur ekki tekist að opna helming viðræðukafla á þessu ári eins og að var stefnt. Jóhanna Sigurðardóttir og Össur binda miklar vonir við að skriður komist á viðræðurnar á fyrstu mánuðum ársins 2012 þegar Danir verða í forsæti innan ESB. Allt bendir til þess að meiri og alvarlegri mál verði þá á dagskrá formennskulandsins en aðild Íslands, jafnvel framtíð Evrópusambandsins sjálf.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra var spurður að því á alþingi þriðjudaginn 13. desember hvort ekki væri rétt að staldra við í viðræðunum við Evrópusambandið í ljósi þess sem þar væri að gerast. Af því sem segir á mbls.is má ráða að Steingrímur J. sé enn á því að ræða við ESB til að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Á vefsíðunni segir:
„Steingrímur sagði, að sér sýndist að Illugi [Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins] væri að reyna að fá hann til að viðurkenna að björgun Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans í Evrópumálum hefði verið rétt: að slá málinu á frest í óákveðinn tíma til að fresta uppgjöri innan flokksins og kjósa síðan um það í framtíðinni.“
Þarna leyna sér ekki vonbrigði Steingríms J. yfir því að sátt náðist í ESB-málinu á landsfundi sjálfstæðismanna 17. til 20. nóvember. Þar með hafði stjórnarflokkunum mistekist að ná fyrsta markmiði sínu með aðildarumsókninni, að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Um að stöðva ESB-viðræðurnar sagði Steingrímur J.:
„Ég sé ekki hverju við Íslendingar værum þá nær. Þá væri til lítils á sig lagður þessi leiðangur, sem vissulega hefur verið erfiður og okkur ekki öllum sérstakt fagnaðarefni, ef við værum bókstaflega engu nær þegar við allt í einu hættum eða slægjum málinu á frest. Ég vil fá út úr þessu, með einhverjum hætti, einhverja efnislega niðurstöðu, sem þjóðin og við getum notað til að móta stefnu okkar um það hvernig þessum tengslum verði háttað til einhverrar frambúðar," sagði Steingrímur.
Hann sagðist ekki telja það sjálfgefið, að breytingar hjá Evrópusambandinu hefðu áhrif á stöðu einstakra ríkja gagnvart evrunni. „Eftir því sem mér skilst, þótt þau í orði kveðnu eigi að taka (evruna) upp, þá hafa menn um leið mikið svigrúm til að skilgreina og meta hvenær þeir óska eftir því að fara inn í þann feril," sagði Steingrímur.“
Í þessum orðum segist Steingríms J. treysta Össuri til að kanna eitthvað í Brussel sem öllum er ljóst sem til þekkja: Evrópusambandið veitir ekki sérlausnir, Bretar kynntust því síðast í leiðtogaráði ESB í síðustu viku. Úr hverju vill Steingrímur J. fá skorið varðandi framtíðina hjá viðmælanda sem veit ekki sjálfur neitt um eigin framtíð?
Í svari sínu á alþingi 13. desember sagði Steingrímur J. jafnframt að ekki væri sjálfgefið að þau Evrópusambandslönd, sem ekki notuðu evru nú, mundu nokkurn tímann taka hana upp. Þá sagði fjármálaráðherra:
„Mér er ekki kunnugt um annað en að Svíar telji sig geta haft sína krónu eins lengi og þeim sýnist. Þeir komast upp með það og felldu það í þjóðaratkvæðagreiðslu [að taka upp evru]. Danir höfðu áform um að fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu en um það ræðir enginn maður lengur í Danmörku. Auðvitað boðar síðan afstaða Breta í þessum efnum ákveðin tímamót og það verður fróðlegt að fylgjast með hvaða áhrif hún hefur.“
Til skýringar skal þess getið að Svíum er skylt að taka upp evru samkvæmt skuldbindingum sínum gagnvart ESB. Þeir ákveða hins vegar sjálfir hvenær þeir hefja gjaldmiðlasamstarf undir merkjum ERM 2 en slíkt samstarf í tvö ár er forsenda upptöku evru. Vafalaust þurfa þeir að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu að nýju um evruna ef þeir ætla að taka hana upp. Dönum og Bretum er hins vegar ekki skylt að taka upp evru af því að þeir settu fyrirvara við evru-samstarfið þegar það hófst. Það er rétt hjá Steingrími J. að meðal ýmissa danskra stjórnmálamanna hafa verið hugmyndir um að láta kjósa um afnám dönsku fyrirvaranna gagnvart ESB en þeir hafa þó hræðst að láta reyna á evru-samstarf í slíkri atkvæðagreiðslu.
Undir áramót 2011 þegar ekkert hefur gengið eftir varðandi ESB-viðræðurnar eins og ætlað var í upphafi og aðeins hafa verið opnaðir samningskaflar sem allir vissu að mætti loka strax auk þess Evrópusambandið sjálft er í uppnámi ræður óvildin ein í garð Sjálfstæðiflokksins því að stjórnarflokkarnir segja sjálfsagt að ræða við ESB eins og ekkert hafi í skorist. Þeim sé ekkert annað mikilvægara en að fá einhverja „efnislega niðurstöðu“ frá Evrópusambandinu þegar hún liggur ljós fyrir í öllu regluverki þess annars vegar og upplausn þess hins vegar.
Ábending til þingmanna
Hitt er síðan annað mál sem þingmenn allra flokka ættu að íhuga að verði ESB II til með aðild evru-ríkja og vinaríkja þeirra dugar ekki að semja við ESB I til að taka upp evru. Þá er ESB II milliríkjabandalag en ekki yfirþjóðlegt eins og ESB I. Hvernig væri að þingið léti skoða þennan þátt málsins áður en lengra er haldið?