17.5.2010

Mánudagur, 17. 05. 10.

Þegar ég kom til Kaupmannahafnar frá Zürich blasti við, að vélin til Íslands færi ekki í dag vegna öskufalls. Ég gekk í að útvega mér hótel og fékk það úti á Amager, skammt frá flugvellinum. Brottför er boðuð klukkan 06.00 í fyrramálið.
Skrapp inn á Kongens Nytorv og gekk einn hring í miðborginni. Það var heldur svalt í skugganum en fólk sat úti sólarmegin, þó loguðu gaskyndlar víða á veitungastöðum til að hlýja þeim, sem úti sátu.


Ég notaði tímann á flugvellinum í Zürich og síðan hér úti á Amager til að skrifa pistil hér á síðuna. Það er alveg dæmalaust, hve langt er gengið í því að brjóta niður allt, sem hafa ber í heiðri í nafni góðra stjórnarhátta af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Það er til marks um ástandið, sem skapast hefur undir pólitískri forystu þeirra Jóhönnu og Steingríms J., að Besti flokkurinn mælist stærstur í skoðanakönnun, sem Stöð 2 birti í kvöld um úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík eftir tæpar tvær vikur.