17.5.2010

Vinstri-grænir ögra Jóhönnu

 

 


 

Í svari Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta alþingis, við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, formanns þingflokks Hreyfingarinnar, vegna ákæru á hendur níu manns, sem réðust á alþingishúsið 8. desember 2008, segir:

 „Það er grundvallarregla í réttarríki að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi sæti ákæru og séu beittir lögmæltum viðurlögum. Að því vinna lögregla, handhafar ákæruvalds og dómstólar hér á landi sem starfa sjálfstætt og af hlutlægni. Mikilvægt er að þessir aðilar fái svigrúm til að meta atvik í réttu ljósi og án utanaðkomandi þrýstings.

Orðin, sem ég hef feitletrað í þessum texta, segja allt, sem segja þarf, um stöðu þessa máls, eftir að lögregla hefur rannsakað það og ákæruvaldið vísað því til dómstóla. Hitt er jafnframt ljóst, að leitast er við að beita dómsvaldið þrýstingi í málinu, eins best kemur fram í tilraunum utanaðkomandi til að trufla réttarhöldin.

Í sjálfu sér kemur ekki á óvart, að Ragnar Aðalsteinsson, hrl., hallmæli íslenska réttarkerfinu og saki um mannréttindabrot. Hann er þjóðkunnur fyrir upphrópanir af þessu tagi. Ég kynntist þeim oftar en einu sinni sem dómsmálaráðherra og sneru þær bæði að málflutningi fyrir skjólstæðinga Ragnars og óhróðri hans um látna menn. Söngur hans í máli níu menningana er því ekki nýr.

Hitt er nýmæli, að fram komi á alþingi tillaga, sem felur í sér bein afskipti af störfum lögreglu, handhöfum ákæruvalds og dómstólum. Þessi tillaga er flutt af Birni Vali Gíslasyni, þingmanni vinstri-grænna. Hann hef ég nefnt brúðu búktalarans Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri-grænna. Þetta geri ég með vísan til þess, hvernig Björn Valur gekk fram fyrir skjöldu í Icesave-málinu og varði alla vitleysuna, sem Steingrímur J. taldi þjóðinni helst til heilla en var hafnað á eftirminnilegan hátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars sl.

Tillaga Björns Vals til þingsályktunar hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela skrifstofustjóra Alþingis að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur níu mótmælendum fyrir að hafa 8. desember 2008 rofið friðhelgi og fundarfrið Alþingis, sbr. 1. mgr. 100. gr. og 1. og 2. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, verði dregin til baka og einnig ákæra um húsbrot, sbr. 231. gr. sömu laga.“

Miðað við það, sem segir í ofangreindu svari forseta alþingis til Birgittu Jónsdóttur verður ekki séð, að forseti þingsins geti talið þessa tillögu þinglega. Ásta Ragnheiður sagði um þann þátt málsins, þegar hún var spurð beint í umræðum í tilefni af tillögu Björns, að forseti tæki ekki afstöðu til efnisatriða máls, þegar hann samþykkti framlagningu þeirra. Á það reynir við efnislega meðferð málsins, hvort meirihluti þingmanna er í raun þeirrar skoðunar, að þingið sé til þess bært í fyrsta lagi að gefa skrifstofustjóra þingsins fyrirmæli af þessum toga og í öðru lagi að taka mál á þennan hátt úr höndum réttvísinnar.

Frægt er, að Álfheiður Ingadóttir, núverandi heilbrigðisráðherra vinstri-grænna og þáverandi þingmaður þeirra, fór hamförum innan dyra í þinghúsinu 8. desember 2008 og lét orð falla á þann veg, að sín vegna mættu árásarmennirnir brjóta allt og bramla í þinghúsinu, svo að vitnað sé til orða Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í þingræðu 14 maí.

Í mínum huga var aldrei neinn vafi á því þessa daga í kringum áramótin 2008/09, að mótmælin við alþingishúsið voru runnin undan rifjum vinstri-grænna. Skýrasta sönnun þess er raunar, að öll mótmæli hafa verið næsta bitlítil, frá því að vinstri-grænir settust í ríkisstjórn.

Ég minnist þess að hafa einu sinni komið að þinghúsinu, þegar slegin hafði verið um það keðja fólks, sem hélst í hendur. Birtist, ef ég man rétt, mynd  af því í blaði, þar sem ég beygi mig undir handleggi tveggja mótmælenda á leið til þinghússins. Í þeim hópi, sem ég sá þarna, var Katrín Jakobsdóttir, varaformaður vinstri-grænna, núverandi menntamálaráðherra, sem hefur lýst yfir stuðningi við tillögu Björns Vals.

Tillaga Björns Vals, sem er flutt með velþóknun og stuðningi forystu flokks hans, brýtur í bága við stjórnskipunina. Með henni er alþingi að seilast inn á valdsvið dómsvaldsins og þar með rjúfa stjórnarskrárbundna þrískiptingu valdsins. Hvers vegna er tillagan flutt? Svarið er einfalt. Forystumenn vinstri grænna sögðu þeim, sem unnu með þeim að mótmælaaðgerðum við þinghúsið, að enginn yrði sóttur til saka vegna mótmælanna. Þeir trúðu því þá og trúa því enn, að ákvarðanir um saksókn af málum sem þessum séu undir ákvörðunum stjórnmálamanna komnar. Þetta endurspeglast í greinargerðinni með tillögu Björns Vals. Þar segir meðal annars:

„Í máli nímenninganna sem nú eru kærðir fyrir að ráðast gegn Alþingi hefur t.d. verið bent á að allmörg dæmi séu um að efnt hafi verið til mótmælaaðgerða í og við þingpalla án þess að slíkum aðgerðum hafi fylgt sérstök eftirmál. Má þar nefna mótmæli ýmissa hagsmunasamtaka, svo sem verkalýðs- og stúdentahreyfinga, þar sem störf þingsins voru trufluð. Einn núverandi ráðherra tók meira að segja þátt í slíkum aðgerðum á háskólaárum sínum. [Hér er vísað til Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra.]

Þegar EES-samningurinn var formlega samþykktur á Alþingi mættu fulltrúar ungliðahreyfingar eins stjórnmálaflokksins meira að segja á þingpalla með eftirlíkingar af hríðskotabyssum og lýstu því yfir að um valdatöku væri að ræða án þess að nokkrum kæmi til hugar að kæra hópinn fyrir árás á þingið. Misræmi sem þetta er til þess fallið að grafa undan tiltrú á réttarkerfinu....    

Í dómsmálinu sem hér um ræðir er kært fyrir árás á Alþingi. Það er ákvæði sem hefur aðeins einu sinni verið virkjað – í kjölfar mótmæla vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 30. mars 1949. Þann dag kröfðust mótmælendur og verkalýðsfélögin í Reykjavík þess að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Til átaka kom við Alþingishúsið og í kjölfarið var hópur manna dæmdur til harðra refsinga á óljósum grundvelli. Menn í hópnum misstu til að mynda kosningarétt og kjörgengi svo árum skipti, auk þess sem margir hlutu fangelsisdóma.

Dómarnir yfir mótmælendunum 30. mars 1949 voru slæmir að öllu leyti. Þeir voru almennt álitnir pólitískir og gerðu því það eitt að draga úr tiltrú hluta fólks á réttarkerfinu sem hlutlausri stofnun. Þá, líkt og nú, leit enginn mótmælenda svo á að um væri að ræða árás á þingið – þvert á móti töldu báðir hópar sig vera að verja þingið.“

 

Samkvæmt þessum texta var Álfheiður Ingadóttir að verja þingið, þegar hún lét orðin falla, sem að ofan er getið. Hvað gerðist 8. desember 2008? Hér verður stuðst við lýsingu í svari forseta alþingis til Birgittu Jónsdóttur:

 „Þegar þingfundur hófst á Alþingi kl. 3 síðdegis mánudaginn 8. desember 2008 opnuðu þingverðir bakdyr Alþingishússins til þess að gestir, sem þess óskuðu og fylgdu almennum reglum, kæmust á þingpalla. Þegar fyrstu pallagestir voru komnir í húsið kom hópur manna í kjölfarið og ruddi sér leið fram hjá þingvörðum, sumir með klúta fyrir andliti, og komst upp í stigagang Alþingishússins. Sex þingverðir og lögreglumaður, sem var á vakt í þinghúsinu, lentu í átökum við hópinn þegar hann var stöðvaður. Ýmsir þeirra hlutu meiðsl í átökunum sem kunna að vera varanleg.

Strax í kjölfarið var farið nákvæmlega yfir myndbandsupptöku sem sýndi hvernig hópurinn þröngvaði sér inn í þinghúsið. Þá áttu aðallögfræðingur Alþingis og forstöðumaður rekstrar- og þjónustusviðs samtöl við þingverðina og lögreglumanninn um atvikið.

Myndbandsupptakan sýnir að þingvörður, sem átti að gæta inngangsins, var yfirbugaður til að tryggja að mannsöfnuðurinn kæmist óhindraður inn í húsið. Því mátti ætla að hann væri ekki kominn í friðsamlegum tilgangi. Af samtölunum við þingverði og lögreglumanninn varð enn fremur ráðið að hópurinn skirrðist ekki við að beita líkamlegu valdi til að komast í tæri við þingmenn sem sátu í þingsalnum á fundi. Það var því mat aðallögfræðings Alþingis að rík ástæða væri til að málið yrði rannsakað af lögreglu með tilliti til þess hvort ákvæði almennra hegningarlaga, einkum 106. gr. þeirra, hefðu verið brotin. Þar sem ekki var ljóst hvort lögreglan mundi eiga frumkvæði að rannsókn málsins ákvað skrifstofustjóri Alþingis að óska eftir því bréflega fyrir hönd skrifstofu Alþingis og þeirra starfsmanna, sem í átökunum lentu, að málið yrði tekið til lögreglurannsóknar. Áður hafði málið verið borið undir starfsmennina sem hlut áttu að máli.“


Menn þurfa að vera vinstri-grænir til að telja þessa lýsingu benda til þess, að fyrir því fólki, sem þarna er lýst, hafi vakað að „verja þingið“. Fullyrðingar í þá veru sanna enn frekar hinn flokkspólitíska tilgang tillögu Björns Vals. 

Í síðasta pistli lýsti ég því, hvernig Jóhanna Sigurðardóttir umgengst sannleikann, þegar hún er spurð um loforð um laun, sem Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra,  var gefið, þegar Jóhanna réð hann í seðlabankastjóraembættið. Jóhanna vill, að því sé trúað, að einhver annar en hún hafi lofað Má launum, sem eru um 400 þúsund krónum lægri en hann þiggur um þessar mundir samkvæmt úrskurði kjaradóms.

Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs seðlabankans, gætir leyndarmálsins mikla um loforðið til Más með Jóhönnu. Hin sama Lára V. Júlíusdóttir var sett til að gegna embætti ríkissaksóknara við gerð ákærunnar gegn níu menningunum, sem réðust á alþingishúsið, eftir að Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari, sagði sig frá málinu sökum vanhæfis.

Þingsályktunartillaga Björns Vals, sem er flutti með fulltingi ráðherra vinstri-grænna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, er bein árás á ákvörðun Láru V. Júlíusdóttur um, að níu menningarnir skuli sóttir til saka.

Það sýnir ekki mikið þakklæti af hálfu Jóhönnu í garð Láru V. fyrir aðstoð hennar við að gæta launaleyndarmálsins mikla, að hún sem forsætisráðherra skuli ekki setja vinstri-grænum þá kosti, að annað hvort fari þeir að stjórnlögum og dragi ályktun Björns Vals til baka, eða tillöguflutningurinn dragi pólitískan dilk á eftir sér.

Í stjórnarandstöðu stóð Steingrímur J. oftar en einu sinni í ræðustólnum á alþingi og hrópaði á rannsókn á því, hvort pólitísku valdi hefði ekki verið beitt, þegar dómarar samþykktu beiðni lögregluyfirvalda um leyfi til hlerana á þeim, sem líklegir voru taldir til að skipuleggja aðför að alþingishúsinu eða rjúfa almannafrið í pólitískum tilgangi. Átti hann ekki nógu sterk orð til að lýsa skömm sinni á því, að svo hefði verið gert, sem hann taldi víst.

Nú stendur flokkur Steingríms J. að því undir formennsku hans, að flytja tillögu um, að pólitísku valdi sé beitt til að taka sakamál úr höndum dómara.  Það er von, að stjórnmálamenn, sem umgangast réttarkerfið á þennan hátt, skilji ekki, að aðrir virða stöðu þess að stjórnlögum.  

Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin hafa ekki þrek til að standa gegn þessum pólitíska yfirgangi – málið stendur og fellur með Jóhönnu Sigurðardóttur. Hana skortir hins vegar þrek, þegar á hólminn er komið og þegir  þunnu hljóði, jafnvel þótt vegið sé persónulega að Láru V. Júlíusdóttur.