14.9.2008 14:29

Sunnudagur, 14. 09. 08.

Langt er síðan ég gaf mér síðast tíma til að horfa á Silfur Egils en gerði það í dag, enda ræddi Egill lengi við Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Geir býr yfir yfirburðaþekkingu á gangverki efnahags- og atvinnulifs auk margra ára reynslu sinnar af stjórn fjármála ríkisins. Egill setti hann heldur hvergi út af laginu í samtali þeirra og atti honum ekki heldur í illdeilur við neinn. Öll forysta Geirs einkennist af öðru en reiðilestri í garð andstæðinga sinna, hann skiptir mestu að sinna ábyrgðarmiklu starfi sínu af heilindum gagnvart eigin flokksmönnum og samstarfsflokki í ríkisstjórn.

Í samtalinu vék Egill að vandræðum innan breska Verkmannaflokksins og veikri stöðu Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, mátti skilja hann svo, að hann vilid bera stöðu Geirs saman við óvinsældir Gordons. Eitt er, hve straumar frá Bretlandi hafa oft áhrif á stjórnmálaumræður hér, þótt ólíku sé saman að jafna, en má rekja til þess, hve margir fylgjast með breskum stjórnmálum í blöðum og sjónvarpi. Hitt er, að staða Geirs er mun sterkari í eigin flokki og meðal þjóðarinnar en Gordons í Bretlandi. Er raunar með ólíkindum, hve hratt fjarar undan Gordon og hve ólaginn hann virðist við að ná sér aftur á strik - líklegt er, að það sé vegna þungra strauma gegn honum innan eigin flokks, þótt þeir hafi ekki enn verið virkjaðir í þágu nýs leiðtoga.

Fráleitt er eins og skilja mátti á orðum Egils, að Evrópuvaktnefndin sé að fara til Brussel til þess eins að ræða það, sem nefnt hefur verið hugmynd mín um tvíhliða samning við Evrópusambandið um evruna. Ég sat fund nefndarinnar sl. miðvikudag og ræddi ýmsar hliðar hugmyndarinnar við nefndarmenn. Augljóst er, að hlutverk nefndarinnar er að ræða þetta mál eins og önnur en ekki leggja það fyrir neinn sem úrlausnarefni til að fá svar af eða á.

Sigurður Kári Kristjánsson, samflokksmaður minn og þingmaður, var í fyrri hluta þáttar Egils og gagnrýndi Ögmund Jónasson harðlega og réttilega fyrir að nota BSRB, þar sem hann er formaður, í þágu málstaðar vinstri/grænna, þar sem Ögmundur er þingflokksformaður. Svör Ögmundar voru veik, enda blasir þetta samkrull milli BSRB og v/g við öllum. Vinstri/græn eru í þessu sambandi dæmigerður róttækur vinstriflokkur, sem bindur trúss sitt við stéttarfélag en hefur dagað uppi í varðstöðu um úrelt sjónarmið - þótt þeim takist annað veifið að finna úti í heimi prófessora eða aðra fræðimenn, sem eru sama sinnis.

Í dag skrifaði ég pistil á síðuna mína til varnar lögreglu.