14.9.2008

Til varnar lögreglu.

Skrif fólks og upphrópanir á blogginu um lögreglu og störf hennar eru með miklum ólíkindum. Sömu sögu er að segja um hróp að lögreglu, þegar hún er að sinna skyldum sínum, svo að ekki sé talað um líkamsárásir á lögregluþjóna. Hótanir í þeirra garð og fjölskyldna þeirra.  

Ég lagði fram skýrslu á alþingi nú í september um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007.  Vinstri græn, sem óskuðu eftir skýrslunni, báðu ekki um neina umræðu um hana á þingi og ekki var nein fyrirspurn lögð fyrir mig á þingi vegna hennar.

Arnar Guðmundsson, lögreglustjóri og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, samdi skýrsluna með samstarfsmönnum sínum. Þegar ég tók við skýrslubeiðninni og öllum spurningum, sem henni fylgdu og byggðust á augljósu vantrausti vinstri/grænna í garð lögreglu, sá ég, að miklu skipti að fá sérfróða menn, sem nytu óskoraðs trausts innan og utan lögreglunnar , til að leita svara við spurningunum og setja saman skýrsluna. Ég met þögnina, eftir að skýrslan birtist, á þann veg, að skýrslubeiðendur sjáí, að þeir hafi engan pólitískan hag af því að fylgja málinu eftir með umræðum við mig eða á opinberum vettvangi almennt.

Í ágúst 2006 sendi flokksstjórn vinstri/grænna frá sér ályktun þar sem sagði meðal annars: 

„Flokksstjórnin lýsir þungum áhyggjum af þeim fréttum sem nú berast af hörkulegri framgöngu og aðgerðum lögreglunnar gegn mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar, ferðalöngum og náttúruunnendum sem fara um hálendið....

Flokksstjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs krefst þess að þegar í stað fari fram rannsókn á framferði lögreglunnar og meintu harðræði af hennar hálfu og aðgerðum sem falið hafa í sér óþarfa og jafnvel ólögmæta hindrun á ferðum fólks um öræfi landsins. Einnig þarf að kanna sannleiksgildi þess þráláta orðróms að lögreglan hafi stundað umfangsmikla tilefnislausa og óheimila söfnun persónuupplýsinga, myndatökur og fleiri athafnir sem brjóti gegn friðhelgi einkalífs manna og ferðafrelsi.

Lýsingar fólks af vettvangi á harkalegum aðgerðum lögreglu sem birst hafa í fjölmiðlum gefa fullt tilefni til tafalausrar hlutlausrar rannsóknar. Þarf ekki síður að hafa í huga orðstír lögreglumanna en mannréttindi og frelsi hins almenna borgara í þessu sambandi. Komi í ljós að lögreglan hafi farið offari, hvað þá gerst sek um ólögmætt athæfi, þarf þegar í stað að grípa til aðgerða svo slíkt endurtaki sig ekki og þeir sem bera ábyrgð svari síðan til saka fyrir dómstólum.“

Þannig ályktaði sem sagt flokkurinn, sem vorið 2008 óskaði eftir skýrslu frá mér um framgöngu lögreglunnar.  Í ályktuninni er alið á tortryggni í garð lögreglu með því að enduróma rakalausan málflutning þeirra, sem töldu sig vera að verja hagsmuni Íslands með framgöngu sinni við Kárahnjúka, á Reyðarfirði og víðar.

Í niðurstöðum skýrslu minnar til alþingis segir, að ekki hafi verið um neinar hleranir á símum eða skoðun á tölvupósti að ræða. Í einstaka tilvikum hafi lögregla tekið myndir á vettvangi og dæmi séu um, að teknar hafi verið myndir af sakborningum. Slík gögn hafi fylgt málum til að hægt væri að tengja sakborninga á óyggjandi hátt  við atburði og staði. Í málum vegna mótmælanna höfðu 83 einstaklingar réttarstöðu sakborninga, 14 eða 16,9% voru Íslendingar en 69 eða 83,1% með erlent ríkisfang. Í Lögreglukerfið, það er málaskrá lögreglu, hafi verið skráð 40 mál eða verkefni, sem á einn eða annan hátt tengdust mótmælum gegn Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuframkvæmdum árin 2005, 2006 og 2007. Að þessum málum komu alls 219 lögreglumenn, sumir lögreglumenn komu að fleiri en einu af þessum málum.

Lögregla var tvímælalaust borin röngum sökum vegna afskipta hennar af þessum mótmælendum. Það var liður í mótmælunum að úthrópa lögregluna og grafa undan trausti í hennar garð. Slíkt þjónaði tilgangi mótmælenda og vinstri/græn gengu einfaldlega erinda mótmælendanna í þessu efni eins og öðrum.  Flokksstjórnarsamþykktin frá 2006 sýnir það og sannar.

Markmið þeirra, sem vildu draga úr trausti til lögreglunnar með dylgjum og ósönnuðum áburði í tilefni af framgöngu Íslandsvina og Saving Iceland, var að sjálfsögðu að afla sér og málstað sínum samúðar á kostnað lögreglu. Hér rifja ég ekki meira upp af óhróðri um lögreglu af þessu tilefni. Nærtækara dæmi um sambærilegar árásir á lögreglu eru ummæli, sem féllu vegna aðgerða vöruflutningabílstjóra fyrr á þessu ári, svo að ekki sé minnst á framgönguna, sem náði hámarki með árás á lögreglumann á Kirkjusandi, en hún hefur oft verið sýnd í sjónvarpi. Það er til marks um skilvirkni í málum sem þessum, að árásarmaðurinn hefur þegar hlotið dóm.

Í Morgunblaðinu 14. september birtist grein eftir Ragnhildi Sverrisdóttur um vaxandi dónaskap og hörku gagnvart lögreglunni. Þar segir meðal annars:

„Brotum gegn lögreglumenn (svo!) hefur fjölgað á undanförnum árum. En þær tölur segja samt ekki alla söguna. Núna eru árásirnar miklu fólskulegri en áður og hnífum er oftar brugðið á loft. Um áramót verður lögreglan á höfuðborgarsvæðinu búin að fá skot- og hnífheld vesti.

Hver er skýringin á þessari auknu hörku? Lögreglumenn nefna ofsóknarbrjálæði fíkniefnaheimsins sem eina skýringuna, þar sjá menn óvin í hverju horni og raunar oft ekki að ástæðulausu. Þá séu fyrstu viðbrögð að bera hníf. Það heitir oftast að menn verði að bera hníf til að verjast, af því að „hinir“ eru líka með hnífa. Þetta vígbúnaðarkapphlaup undirheimanna þýðir að þegar lögreglan mætir á staðinn er nærtækast að grípa til hnífsins.

Önnur skýring á aukinni hörku er lögreglumönnum þó ofarlega í huga, en það er fjölgun erlendra misindismanna hér á landi. Greiningardeild ríkislögreglustjóra tíundaði aukna aðkomu erlendra brotamanna í áhættumati, sem deildin sendi frá sér í sumar. Hér leita erlendar glæpaklíkur fótfestu og sumir telja raunar að þær hafi þegar náð að hreiðra um sig. „Þessir menn koma úr miklu harðara umhverfi en við eigum að venjast,“ segir lögreglumaður. „Þeir stinga fyrst og spyrja svo. Þeir hafa lítil sem engin tengsl við samfélagið og virðingarleysið gagnvart lögreglunni er því algjört. Þetta er veruleikinn, við búum ekki lengur í Kardimommubæ, þar sem allir þekkja bæjarfógetann Bastían og verða góðir og gegnir þorpsbúar ef slegið er á puttana á þeim.“ “

Í sama tölublaði og þessi frásögn birtist í Morgunblaðinu sér blaðið ástæðu til þess í leiðara að gagnrýna húsleit lögreglu hjá hælisleitendum í Reykjanesbæ fimmtudaginn 11. september. Látið er í veðri vaka, að óeðlilegu harðræði hafi verið beitt og dómari hafi veitt lögreglu húsleitarheimild á veikum forsendum, af því að ekki fundust þar fíkniefni.

Hælisleitendur eru í stöðu sinni, af því að þeir upplýsa ekki stjórnvöld um hagi sína á þann veg, að unnt sé að taka afstöðu til óska þeirra með vísan til laga og reglna um dvalarleyfi eða atvinnuleyfi. Þeir dveljast hér á framfæri og kostnað skattgreiðenda og lengd dvalar þeirra ræðst af,  hve erfitt getur verið að komast að hinu sanna um hagi þeirra.  Um dvöl þeirra og réttarstöðu gilda lög og reglur, friðhelgi einkalífs þeirra er virt og lögregla leitaði að sjálfsögðu heimildar dómara til aðgerða sinna 11. september.

Morgunblaðið þeirrar skoðunar, að lögregla skuli ekki fá heimild til húsleitar hjá dómara, nema víst sé, að það finnist, sem hana grunar, vill blaðið þrengri skilyrði um það efni en sett eru í lög.

Bæði lögmaður fyrir hælisleitendurna og túlkur voru í för  með lögreglu í Reykjanesbæ.. Lögreglu var heimilt samkvæmt úrskurði dómara að leita að peningum, fíkniefnum og gögnum. Haukur Guðmundsson, forstjóri útlendingastofnunar,  segir í Morgunblaðinu 13. september, að í aðgerðunum hafi safnast gögn sem muni varpa ljósi á aðstæður rúmlega 10 hælisleitenda. Hann býst við að ýmsum haldlögðum munum, þar á meðal peningum, verði skilað aftur til hælisleitenda. Útlendingastofnun muni hins vegar taka fyrir mál þeirra hælisleitenda sem fúlgur fjár fundust hjá, og tjá þeim, að frá og með 12. september sé stofnunin hætt að greiða fyrir þá uppihald. Þeir geti gert það sjálfir. Kostnaður verði dreginn af hinum haldlögðu peningum. „Þegar um er að ræða verulegar fjárhæðir hjá fólki kviknar auðvitað grunur um að það séu í gangi skrítnir hlutir sem þarf að rannsaka. Í þessum haldlagningum felst ekki að það sé verið að svipta fólk sínu fé. Lagt er hald á peninga meðan verið er að rannsaka málið.“

Þegar rætt er um störf lögreglu þarf að horfa á heildarmyndina og leitast við að skapa henni þann starfsramma í öllu tilliti, sem er í samræmi við kröfur til löggæslu. Í Danmörku sætir lögregla gagnrýni fyrir að halda að sér höndum, leyfa glæpaklíkum að gera út um mál sín á milli og halda ekki uppi neinu eftirliti í Kristjaníu, svo að dæmi séu tekin. Ríkislögreglustjórinn þar ræðir um hina „tænksomme“ eða íhugulu lögreglu, sem leggi meiri áherslu á strategískar aðgerðir og greiningu en valdbeitingu. Þar hefur stækkun lögregluumdæma leitt til fækkunar fanga og standa fleiri fangaklefar nú auðir en áður hefur þekkst. Hér hafði sameining lögregluumdæma á höfuðborgarsvæðinu hið gagnstæða í för með sér, skilvirkni við að upplýsa mál og fá menn dæmda fyrir brot sín hefur stóraukist, enda eru fangelsi hér þéttsetin.

Í grein Ragnhildar Sverrisdóttur í Morgunblaðinu 14. september er vikið að valdbeitingartækjum lögreglu og sagt frá því, að á næstu mánuðum fái höfuðborgarlögreglan hnífa- og skotvesti. Piparúði, eins og sá, sem beitt var á Norðlingaholti, er eitt öflugasta almenna valdbeitingartækið í höndum íslensku lögreglunnar núna. Undanfarið hafa farið fram athuganir og tilraunir hér eins og víða annars staðar með rafstuðstæki, sem þótt hafa gefið góða raun víða um lönd. Sé litið til Norðurlanda, þá hefur finnska lögreglan slík tæki undir höndum.

Á forsíðu Fréttablaðsins 13. september var helsta fyrirsögnin þessi: Lögreglumönnum fækkar á meðan íbúum fjölgar. Í árslok 1990 voru lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu 327 en nú eru þeir 311. Á sama tíma hefur íbúum á svæðinu fjölgað um rúmlega 40 þúsund. Ekki tókst að ráða í 25 lögreglustörf sem auglýst voru í sumar.

Haft er eftir Herði Jóhannessyni, aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, að hugsanlegt sé, að aukin harka í ofbeldismálum dragi úr áhuga á að leggja lögreglustörf fyrir sig. Þá kemur fram hjá Snorra Magnússyni, formanni Landssambands lögreglumanna, að álag á menn á höfuðborgarsvæðinu sé svo mikið, að menn vilji ekki vinna við það miðað við þau laun, sem eru í boði og hann telur of lág.

Á þessu ári verða 78 nemar brautskráðir úr Lögregluskóla ríkisins, ef áætlanir standast, og hafa aldrei verið fleiri. Vissulega er þess vænst,  að við brautskráningu fari nemarnir til starfa í lögregluliðum landsins.

Engin ein og algild regla er um, hve margir íbúar eigi að vera að baki hvers lögreglumanns. Er sú tala mjög mismunandi eftir löndum. Mestu skiptir að störf lögreglu og markmið séu í samræmi við þróun þjóðfélaga og við stefnumörkun í lögreglumálum ríki næg framsýni til að störf  lögreglu standist eðlilega og málefnalega gagnrýni.

Skýrslan um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007 staðfestir, að þar hefur allt starf lögreglu verið í samræmi við heimildir hennar. Þannig gekk hún einnig fram gagnvart hælisleitendum í Reykjanesbæ.

Að slá sig sem mannréttindariddara á kostnað lögreglu á opinberum vettvangi getur ekki síður verið ámælisvert en hróp að henni á götum úti eða ögranir af öðru tagi.