Njótum augnabliksins - gleðilegt ár!
Þessi röð atvika er hugstæð á fyrsta degi nýs árs. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Ein lítil áminning eða ábending getur leitt okkur inn áður ókunnar slóðir.
Gleðilegt ár!
Laugardaginn 30. nóvember 2019 sátum við þrír félagar síðdegisstund á kaffistað. Gengur þá að borði okkar maður sem við þekktum og minnist þess að þennan dag fyrir 80 árum hefði vetrarstríðið hafist þegar Stalín sendi sovéska herinn til að leggja undir sig Finnland.
Áminningin um þennan merka viðburð varð til þess að ég skrifaði grein um vetrarstríðið og einstök viðbrögð Íslendinga í Morgunblaðið föstudaginn 13. desember 2019.
Skömmu síðar sagði kunningjakona mín að Finnlandsgreinin hefði minnt sig á atvik frá miðjum áttunda áratugnum. Hún hefði farið með vinkonu sinni á markaðstorg í Helsinki. Þær skiptust á orðum fyrir framan eitt borðið og vakti samtal þeirra áhuga sölukonunnar. Hún vildi vita hvaða mál þær töluðu. Þegar hún heyrði að það væri íslenska gekk konan fram fyrir borðið og faðmaði Íslendingana. Vildi þakka þeim stuðninginn í vetrarstríðinu.
Enn varð greinin til þess að sama kunningjakona mín benti mér á bókina Hin hljóðu tár sem hún ætti en hefði greinilega lánað. Þar mætti lesa um íslenska konu í Finnlandi.
Ég varð mér úti um bókina á safni. Hún heitir Hin hljóðu tár – Ævisaga Ástu Sigurbrandsdóttur. Sigurbjörg Árnadóttir skráði (181 bls.) og gaf Vaka-Helgafell bókina út árið 1995.
Þarna kynntist ég ótrúlegri ævi og lífsreynslu
Ástu (f. 1918, d. 2000) sem bjó í Finnlandi frá 1946 til æviloka.
Þessi röð atvika er hugstæð á fyrsta degi nýs árs. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Ein lítil áminning eða ábending getur leitt okkur inn áður ókunnar slóðir.
Lífið ræðst af því hvernig við verjum hverjum degi. Séum við alltaf í leit að einhverju öðrum hvað verður þá um augnablikið sem við lifum einmitt núna? Gefum okkur tíma til að njóta stundarinnar, hér og nú.
Lesendum síðu minnar óska ég farsældar á nýju ári!