Íslendingar studdu Finna í vetrarstríðinu fyrir 80 árum
Morgunblaðið, föstudagur 13. desember 2019.
Þess var minnst laugardaginn 30. nóvember að 80 ár voru liðin frá því að vetrarstríðið svonefnda hófst milli Sovétmanna og Finna. Þann dag árið 1939 sendi Jósep Stalín, einræðisherra í Rússlandi, alls 450.000 menn í 21 herdeild inn yfir austurlandamæri Finnlands. Skömmu síðar hófust loftárásir sovéska flughersins á Helsinki. Alls var barist í 105 daga.
Við upphaf átakanna voru um 300.000 vopnaðir Finnar til varnar landi sínu. Þeir bjuggu við mikinn skort á öllum sviðum, skotfæri, sprengjur og eldsneyti í landinu var talið duga í allt að tvo mánuði. Finnar áttu aðeins 32 skriðdreka og af þeim nýttust ekki fleiri en 10 til átaka þegar stríðið hófst. Orrustuflugvélar þeirra voru 114 og flestar úr sér gengnar.
Sovétmenn höfðu með leynd lagt vegi að finnsku landamærunum. Eftir þeim gátu þeir flutt 2.514 skriðdreka og 718 brynvarða bíla.
Í krafti alls þessa töldu áætlanasmiðir sovéska hersins að hann mundi sækja fram af miklum hraða strax á fyrsta degi átakanna. Reyndin var þó önnur því að Finnar snerust til varnar af mikilli hörku. Þeir töfðu fyrir Rauða hernum með dýnamítsprengjum og Molotov-kokkteilum auk þess að brenna allt sem kynni að verða sovésku hermönnunum að gagni.
Sovétmenn notuðu flugvelli í Eistlandi til árása á Helskini rétt handan Finnska flóans. Þeir sögu Finna fara með rangt mál þegar þeir lýstu mannskaða og tjóni á mannvirkjum vegna loftárásanna. Sovéskir falsfréttasmiðir þess tíma sögðu að brauði hefði verið varpað úr sovéskum vélum yfir Helsinki til að létta á hungursneyðinni þar.
Í frásögn finnska ríkisútvarpsins, YLE, af vetrarstríðinu er minnt á að það hafi verið hluti af valdatafli þess tíma þegar Stalín vildi auka vald sitt í miðhluta Evrópu. Rauðliðar töpuðu í blóðugri borgarastyrjöld í Finnlandi eftir að þjóðin varð sjálfstæð 1917. Árið 1931 var Kommúnistaflokkurinn bannaður með lögum í Finnlandi.
Undir lok fjórða áratugarins kynnti Stalín áform um að endurheimta landsvæði rússneska keisaradæmisins. Auk þess óttaðist hann að ráðist yrði inn í Sovétríkin frá Finnlandi eða Finnar lokuðu siglingaleið til Sovétríkjanna um Eystrasalt. Leníngrad (St. Pétursborg) var aðeins 32 km frá finnsku landamærunum.
Stalín gerði griðasáttmálann alræmda við Adolf Hitler í ágúst 1939. Þar voru leynileg ákvæði um áhrifasvæði einræðisherranna í austurhluta Evrópu. Stalín fékk Finnland sem veitti honum svigrúm til hernaðar eftir að nasistaher Hitlers réðst inn í Pólland 1. september 1939. Stalín sendi her sinn inn í Pólland 17. september 1939 og lagði svo Eistland, Lettland og Litháen undir sig.
Í október 1939 krafðist Stalín þess að finnsku landamærin á Karelíueiðinu yrðu færð til vesturs og finnsk varnarvirki þar eyðilögð. Þá vildi hann einnig ráða yfir finnskum eyjum á Finnska flóa, landsvæði á Kólaskaga við Barentshaf og 30 ára herstöðvarleigusamningi um Hankoskaga um 120 km fyrir vestan Helsinki. Í staðinn fengju Finnar land í Austur-Karelíu. Finnar höfnuðu og gerðu gagntilboð sem Stalín hafði að engu.
Finnar snerust til varnar þegar sovéski herinn sótti inn í land þeirra.
Stalín og hershöfðingjar hans héldu að Finnar gæfust upp á fáum vikum. Þess í stað neyddust þeir til að senda á vettvang meira en 750.000 hermenn og ógrynni vígtóla áður en gerður var friðarsamningur 12. mars 1940. Finnar misstu 11% af landi sínu og 30% af þeim efnahagslega styrk sem þeir höfðu í stríðsbyrjun. Sovétmenn fengu samninginn til 30 ára um Hankoskaga. Finnar héldu sjálfstæði sínu.
Fjöldastuðningur Íslendinga
Andri Jónsson sagnfræðingur birti ritgerð um samúð Íslendinga með Finnum í vetrarstríðinu í tímaritinu Sögnum 1. tbl. 2013 og segir: „Viðbrögð Íslendinga við innrás sovétmanna í Finnland eiga sér fáar hliðstæður.“ Fá dæmi séu „um að Íslendingar hafi sýnt slíkan samhug með erlendri þjóð og þeir gerðu með Finnum veturinn 1939-1940. Samúð með Finnum og aðdáun á þeim birtist skýrt í orðræðunni um stríðið en afstaða almennings lýsti sér þó best í þátttöku hans í fjöldaaðgerðum sem gengu út á að sýna samhug með finnsku þjóðinni“.
Strax daginn eftir innrás rauða hersins í Finnland, fullveldisdaginn 1. desember 1939, lýstu Íslendingar stuðningi sínum við Finna með meiri fjöldaþátttöku í hátíðarhöldum dagsins en áður höfðu sést. Efnt var til sérstaks Finnlandsdags 10. desember 1939 og Finnlandssöfnunar. „Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í efnahagslífi varð Finnlandssöfnunin [...] bæði umfangsmesta og víðtækasta fjársöfnun sem haldin hafði verið á Íslandi,“ segir Andri.
Íslendingar litu á Finna sem sérstaka vinaþjóð af því að þeir voru Norðurlandaþjóð. „Þessi staðreynd ber þess einnig vitni að Íslendingar sáu sjálfa sig sem hluta af bræðralagi Norðurlanda. Samúðarhreyfingin tengist enn fremur sjálfsmynd Íslendinga sem smáþjóðar sem lifði oghrærðist í orðræðu sjálfstæðisbaráttunnar,“ segir Andri Jónsson.
Afstaða kommúnista
Óhjákvæmilega hafði vetrarstríðið pólitísk áhrif hér á landi. Kommúnistar sem fylgdu Stalín að málum kölluðu stríðið „Finnagaldur“. Vísuðu þeir þar til þess að hart og af ranglæti væri að þeim og öðrum kommúnistum sótt vegna innrásar Stalíns, ákvörðun hans mætti réttlæta. Hefur orðið verið flokkað með öðrum tuggum sem kommúnistar nota sér til varnar eins og „Moggalygi“ og „Rússagrýla“. Innihaldsleysi þessara upphrópana hefur skýrst í áranna rás.
Uppgjör innan Sósíalistaflokksins vegna innrásarinnar í Finnland varð til þess að Héðinn Valdimarsson, formaður flokksins, hrökklaðist úr honum þegar kommúnistar neituðu að fordæma innrásina.
Í bókinni Sovét-Ísland óskalandið segir dr. Þór Whitehead að hér hefðu menn óttast að innrásin sýndi að Stalín og Hitler hefðu skipt með sér öllum Norðurlöndunum. „Vinstri jafnaðarmenn í Sósíalistaflokknum urðu þess reyndar varir að Brynjólfur Bjarnason og aðrir foringjar kommúnista vonuðust til að Stalín hreppti Ísland í landaskiptum við Hitler. Kommúnistar lýstu líka innrásum Rauða hersins í Pólland, Finnland og síðar Eystrasaltsríkin sem frelsun undan auðvaldsoki,“ segir Þór.
Afstaða alþingismanna
Sjálfstæðismaðurinn Pétur Ottesen stjórnaði fundi sameinaðs þings 4. desember 1939 og tilkynnti að sér hefði borist svofelld yfirlýsing, sem hann las upp:
„Vegna þeirrar afstöðu, er kommúnistaflokkurinn, sem hér starfar undir nafninu Sameiningarflokkur alþýðu – sósíalistaflokkurinn –, þingmenn þess flokks og málgögn hafa markað sér til frelsis, réttinda og lýðræðis smáþjóðanna síðustu vikurnar, og alveg sérstaklega viðvíkjandi málefnum Finnlands, lýsa undirritaðir alþingismenn yfir því, að þeir telja virðingu Alþingis misboðið með þingsetu fulltrúa slíks flokks.“
Undir yfirlýsinguna rituðu aðrir þingmenn en kommúnistaflokksins og þegar nöfn þeirra höfðu verið lesin bað kommúnistinn Einar Olgeirsson um orðið en þingforseti sagði: „Umræður verða ekki neinar um þessa yfirlýsingu, og þar sem fundarefninu er lokið segi ég fundi slitið.“