13.12.2019

Íslendingar studdu Finna í vetrarstríðinu fyrir 80 árum

Morgunblaðið, föstudagur 13. desember 2019.

Þess var minnst laug­ar­dag­inn 30. nóv­em­ber að 80 ár voru liðin frá því að vetr­ar­stríðið svo­nefnda hófst milli Sov­ét­manna og Finna. Þann dag árið 1939 sendi Jósep Stalín, ein­ræðis­herra í Rússlandi, alls 450.000 menn í 21 her­deild inn yfir aust­ur­landa­mæri Finn­lands. Skömmu síðar hóf­ust loft­árás­ir sov­éska flug­hers­ins á Hels­inki. Alls var bar­ist í 105 daga.

Við upp­haf átak­anna voru um 300.000 vopnaðir Finn­ar til varn­ar landi sínu. Þeir bjuggu við mik­inn skort á öll­um sviðum, skot­færi, sprengj­ur og eldsneyti í land­inu var talið duga í allt að tvo mánuði. Finn­ar áttu aðeins 32 skriðdreka og af þeim nýtt­ust ekki fleiri en 10 til átaka þegar stríðið hófst. Orr­ustuflug­vél­ar þeirra voru 114 og flest­ar úr sér gengn­ar.

Sov­ét­menn höfðu með leynd lagt vegi að finnsku landa­mær­un­um. Eft­ir þeim gátu þeir flutt 2.514 skriðdreka og 718 bryn­v­arða bíla.

Í krafti alls þessa töldu áætlana­smiðir sov­éska hers­ins að hann mundi sækja fram af mikl­um hraða strax á fyrsta degi átak­anna. Reynd­in var þó önn­ur því að Finn­ar sner­ust til varn­ar af mik­illi hörku. Þeir töfðu fyr­ir Rauða hern­um með dýna­mít­sprengj­um og Molotov-kokkteil­um auk þess að brenna allt sem kynni að verða sov­ésku her­mönn­un­um að gagni.

Sov­ét­menn notuðu flug­velli í Eistlandi til árása á Hel­skini rétt hand­an Finnska fló­ans. Þeir sögu Finna fara með rangt mál þegar þeir lýstu mannskaða og tjóni á mann­virkj­um vegna loft­árás­anna. Sov­ésk­ir fals­frétta­smiðir þess tíma sögðu að brauði hefði verið varpað úr sov­ésk­um vél­um yfir Hels­inki til að létta á hung­urs­neyðinni þar.

Í frá­sögn finnska rík­is­út­varps­ins, YLE, af vetr­ar­stríðinu er minnt á að það hafi verið hluti af valdatafli þess tíma þegar Stalín vildi auka vald sitt í miðhluta Evr­ópu. Rauðliðar töpuðu í blóðugri borg­ara­styrj­öld í Finn­landi eft­ir að þjóðin varð sjálf­stæð 1917. Árið 1931 var Komm­ún­ista­flokk­ur­inn bannaður með lög­um í Finn­landi.

Und­ir lok fjórða ára­tug­ar­ins kynnti Stalín áform um að end­ur­heimta landsvæði rúss­neska keis­ara­dæm­is­ins. Auk þess óttaðist hann að ráðist yrði inn í Sov­ét­rík­in frá Finn­landi eða Finn­ar lokuðu sigl­inga­leið til Sov­ét­ríkj­anna um Eystra­salt. Leníngrad (St. Pét­urs­borg) var aðeins 32 km frá finnsku landa­mær­un­um.

Stalín gerði griðasátt­mál­ann al­ræmda við Ad­olf Hitler í ág­úst 1939. Þar voru leyni­leg ákvæði um áhrifa­svæði ein­ræðis­herr­anna í aust­ur­hluta Evr­ópu. Stalín fékk Finn­land sem veitti hon­um svig­rúm til hernaðar eft­ir að nas­ista­her Hitlers réðst inn í Pól­land 1. sept­em­ber 1939. Stalín sendi her sinn inn í Pól­land 17. sept­em­ber 1939 og lagði svo Eist­land, Lett­land og Lit­há­en und­ir sig.

Í októ­ber 1939 krafðist Stalín þess að finnsku landa­mær­in á Karel­íu­eiðinu yrðu færð til vest­urs og finnsk varn­ar­virki þar eyðilögð. Þá vildi hann einnig ráða yfir finnsk­um eyj­um á Finnska flóa, landsvæði á Kóla­skaga við Bar­ents­haf og 30 ára her­stöðvar­leigu­samn­ingi um Han­koskaga um 120 km fyr­ir vest­an Hels­inki. Í staðinn fengju Finn­ar land í Aust­ur-Karel­íu. Finn­ar höfnuðu og gerðu gagn­til­boð sem Stalín hafði að engu.

Finn_ski_troops-56e6c2fb5f9b5854a9f9462bFinnar snerust til varnar þegar sovéski herinn sótti inn í land þeirra.

Stalín og hers­höfðingj­ar hans héldu að Finn­ar gæf­ust upp á fáum vik­um. Þess í stað neydd­ust þeir til að senda á vett­vang meira en 750.000 her­menn og ógrynni vígtóla áður en gerður var friðarsamn­ing­ur 12. mars 1940. Finn­ar misstu 11% af landi sínu og 30% af þeim efna­hags­lega styrk sem þeir höfðu í stríðsbyrj­un. Sov­ét­menn fengu samn­ing­inn til 30 ára um Han­koskaga. Finn­ar héldu sjálf­stæði sínu.

 

Fjöld­astuðning­ur Íslend­inga

Andri Jóns­son sagn­fræðing­ur birti rit­gerð um samúð Íslend­inga með Finn­um í vetr­ar­stríðinu í tíma­rit­inu Sögn­um 1. tbl. 2013 og seg­ir: „Viðbrögð Íslend­inga við inn­rás sov­ét­manna í Finn­land eiga sér fáar hliðstæður.“ Fá dæmi séu „um að Íslend­ing­ar hafi sýnt slík­an sam­hug með er­lendri þjóð og þeir gerðu með Finn­um vet­ur­inn 1939-1940. Samúð með Finn­um og aðdáun á þeim birt­ist skýrt í orðræðunni um stríðið en afstaða al­menn­ings lýsti sér þó best í þátt­töku hans í fjöldaaðgerðum sem gengu út á að sýna sam­hug með finnsku þjóðinni“.

Strax dag­inn eft­ir inn­rás rauða hers­ins í Finn­land, full­veld­is­dag­inn 1. des­em­ber 1939, lýstu Íslend­ing­ar stuðningi sín­um við Finna með meiri fjöldaþátt­töku í hátíðar­höld­um dags­ins en áður höfðu sést. Efnt var til sér­staks Finn­lands­dags 10. des­em­ber 1939 og Finn­lands­söfn­un­ar. „Þrátt fyr­ir erfiðar aðstæður í efna­hags­lífi varð Finn­lands­söfn­un­in [...] bæði um­fangs­mesta og víðtæk­asta fjár­söfn­un sem hald­in hafði verið á Íslandi,“ seg­ir Andri.

Íslend­ing­ar litu á Finna sem sér­staka vinaþjóð af því að þeir voru Norður­landaþjóð. „Þessi staðreynd ber þess einnig vitni að Íslend­ing­ar sáu sjálfa sig sem hluta af bræðralagi Norður­landa. Samúðar­hreyf­ing­in teng­ist enn frem­ur sjálfs­mynd Íslend­inga sem smáþjóðar sem lifði og­hrærðist í orðræðu sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar,“ seg­ir Andri Jóns­son.

 

Afstaða komm­ún­ista

Óhjá­kvæmi­lega hafði vetr­ar­stríðið póli­tísk áhrif hér á landi. Komm­ún­ist­ar sem fylgdu Stalín að mál­um kölluðu stríðið „Finnagald­ur“. Vísuðu þeir þar til þess að hart og af rang­læti væri að þeim og öðrum komm­ún­ist­um sótt vegna inn­rás­ar Stalíns, ákvörðun hans mætti rétt­læta. Hef­ur orðið verið flokkað með öðrum tugg­um sem komm­ún­ist­ar nota sér til varn­ar eins og „Mogga­lygi“ og „Rússa­grýla“. Inni­halds­leysi þess­ara upp­hróp­ana hef­ur skýrst í ár­anna rás.

Upp­gjör inn­an Sósí­al­ista­flokks­ins vegna inn­rás­ar­inn­ar í Finn­land varð til þess að Héðinn Valdi­mars­son, formaður flokks­ins, hrökklaðist úr hon­um þegar komm­ún­ist­ar neituðu að for­dæma inn­rás­ina.

Í bók­inni Sov­ét-Ísland óskalandið seg­ir dr. Þór Whitehead að hér hefðu menn ótt­ast að inn­rás­in sýndi að Stalín og Hitler hefðu skipt með sér öll­um Norður­lönd­un­um. „Vinstri jafnaðar­menn í Sósí­al­ista­flokkn­um urðu þess reynd­ar var­ir að Brynj­ólf­ur Bjarna­son og aðrir for­ingj­ar komm­ún­ista vonuðust til að Stalín hreppti Ísland í landa­skipt­um við Hitler. Komm­ún­ist­ar lýstu líka inn­rás­um Rauða hers­ins í Pól­land, Finn­land og síðar Eystra­salts­rík­in sem frels­un und­an auðvald­soki,“ seg­ir Þór.

 

Afstaða alþing­is­manna

Sjálf­stæðismaður­inn Pét­ur Ottesen stjórnaði fundi sam­einaðs þings 4. des­em­ber 1939 og til­kynnti að sér hefði borist svo­felld yf­ir­lýs­ing, sem hann las upp:

„Vegna þeirr­ar af­stöðu, er komm­ún­ista­flokk­ur­inn, sem hér starfar und­ir nafn­inu Sam­ein­ing­ar­flokk­ur alþýðu – sósí­al­ista­flokk­ur­inn –, þing­menn þess flokks og mál­gögn hafa markað sér til frels­is, rétt­inda og lýðræðis smáþjóðanna síðustu vik­urn­ar, og al­veg sér­stak­lega viðvíkj­andi mál­efn­um Finn­lands, lýsa und­ir­ritaðir alþing­is­menn yfir því, að þeir telja virðingu Alþing­is mis­boðið með þing­setu full­trúa slíks flokks.“

Und­ir yf­ir­lýs­ing­una rituðu aðrir þing­menn en komm­ún­ista­flokks­ins og þegar nöfn þeirra höfðu verið les­in bað komm­ún­ist­inn Ein­ar Ol­geirs­son um orðið en þing­for­seti sagði: „Umræður verða ekki nein­ar um þessa yf­ir­lýs­ingu, og þar sem fund­ar­efn­inu er lokið segi ég fundi slitið.“