Menning og samgöngur á Austurlandi
Styrkjum úthlutað úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar og sjálfstæðismenn á Austurlandi ráða ráðum sínum á Egilsstöðum.
Styrkjum var úthlutað í þriðja sinn úr Menningarsjóði Gunnarsstofnunar laugardaginn 19. maí, sjá hér . Sjóðurinn var stofnaður árið 2013 af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Tilgangur hans er annars vegar að renna stoðum undir starfsemi Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri með árlegum framlögum til hennar; hins vegar að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar.
Myndin er tekin á Skriðuklaustri 19. maí og sýnir styrkhafa og stjórn Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar með fjármálaráðherra.
Heildarframlag stofnfjár var lagt fram af ríkissjóði kr. 43.412.013.- sem samsvarar þeim fallbótum sem Landsvirkjun greiddi íslenska ríkinu fyrir vatnsréttindi Skriðuklausturs við Jökulsá á Dal vegna lands Brattagerðis.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var viðstaddur úthlutunina á Skriðuklaustri á laugardaginn. Ríkisstjórn og alþingi samþykktu í desember að auka við stofnfé sjóðsins um 16,5 m.kr. og eru nú rúmar 60 m.kr. í sjóðnum.
Þess var minnst 9. desember 2017 að 20 ár voru liðin frá því að Gunnarsstofnun kom til sögunnar á Skriðuklaustri. Flutti ég þá ræðu þar um sögu þess máls og má lesa hana hér .
Daginn áður en Bjarni Benediktsson var á Skriðuklaustri tók hann þátt í fundi á vegum Sjálfstæðisflokksins á Fljótsdalshéraði um draumalandið Austurland. Þar lýstu frambjóðendur flokksins í fjórum sveitarfélögum framtíðarsýn fyrir Austurland og lögðu áherslu á það sem sameinar þau.
Frá fundi á vegum Sjálfstæðisflokksins á Egilsstöðum 18. maí. Anna Alexandersdóttir, Bjarni Benediktsson og Ívar Ingimarsson.
Fleiri en frambjóðendur fluttu ræður því að þar var einnig Ívar Ingimarsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, frumkvöðull og öflugur forsvarsmaður ferðaþjónustunnar. Í máli sínu lagði hann áherslu á gildi raunverulegs átaks í samgöngumálum. Ívar er í hópi þeirra sem hafa hvatt til umræðu um að innanlandsflug beri að skilgreina sem almenningssamgöngur, oft kennt við „skosku“ leiðina. Er í raun undarlegt að þessi leið skuli ekki könnuð til hlítar og unnið að viðurkenningu á henni í ljósi allra skrefanna til að skilgreina og sameina grunnþjónustu á mörgum sviðum á einum stað á landinu.
Anna Alexandersdóttir, oddviti sjálfstæðismanna á Fljótsdalshéraði stýrði fundinum. Hún leiðir lista Sjálfstæðismanna og óháðra á Fljótsdalshéraði. Í öðru sæti hans er Gunnar Jónsson, bóndi á Egilsstöðum, formaður bæjarráðs.
Egilsstaðir eru langöflugasti kjarni Austurlands, með tæplega 3.000 íbúa. Egilsstaðaflugvöllur er alþjóðaflugvöllur með sólarhringsvakt og gegnir lykilhlutverki fyrir sjálfbæra þróun á Austurlandi.