9.12.2017

Gunnarsstofnun 20 ára

Athöfn á Skriðuklaustri 9. desember 2017.

Sumarið 1995 voru 100 ár liðin frá því að Seyðisfjörður hlaut kaupstaðarréttindi og tókum við Rut, kona mín, með börnum okkar þátt í hátíðahöldum þar. Að þeim loknum ókum við að Skriðuklaustri, hittum húsráðendur og fengum að skoða bæinn.

Ég var nýorðinn menntamálaráðherra en hafði oft verið með Agli Jónssyni alþingismanni á Seljavöllum á fundum hér fyrir austan og vissi að taka yrði ákvarðanir um framtíð Skriðuklausturs í samræmi við vilja hjónanna frú Franzisku og Gunnars Gunnarssonar skálds.

Þau gáfu íslenska ríkinu jarðeign sína hér til „ævarandi eignar“ enda yrði hún „hagnýtt á þann hátt að til menningarauka horfi“ eins og segir í gjafabréfinu sem dagsett er 11. desember 1948.

Gunnarshús á Skriðuklaustri 9. desember 2017.

Með vísan til gjafabréfsins og hagnýta þörf þess tíma var hér um árabil tilraunabú bæði í sauðfjárrækt og við jarðvegsræktun.

Yfirstjórn innan stjórnarráðsins var ekki endilega einföld. Í október 1978 rituðu til dæmis þáverandi menntamálaráðherra, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra undir samning um að framkvæmd gjafabréfsins yrði undir stjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Þá hafði ríkið átt Skriðuklaustur í 30 ár og ber samningur ráðherranna með sér að ekki hafði enn verið farið að öllum ákvæðum gjafabréfsins um framkvæmdir á staðnum.

Ráðherrarnir áréttuðu að í húsinu skyldi vera herbergi eða sérstök deild er sérstaklega yrði helguð minningu gefenda jarðeignarinnar og yrðu nánari ákvarðanir um það teknar í samráði við þjóðminjavörð.

Allt er þetta til marks um að stjórnsýslan var flókin þegar kom að ákvörðunum um húsið en undir lok aldarinnar festist nafnið Gunnarshús við það í opinberum skjölum.

Þess var minnst árið 1989 að 100 ár voru liðin frá fæðingu Gunnars skálds. Þá var kynnt ákvörðun um að framvegis yrði starfrækt gestaíbúð í Gunnarshúsi yfir sumartímann til ókeypis dvalar fyrir lista- og fræðimenn. Til þess yrði nýtt íbúð með sérinngangi í útenda hússins.

Landbúnaðarráðuneytið afhenti í ársbyrjun 1993 menntamálaráðuneytinu Gunnarshús. Þá bjuggu hér hjónin Guðborg Jónsdóttir og Þórarinn Lárusson, fyrrverandi tilraunastjóri. Hafði húsið verið embættisbústaður á vegum tilraunastofnunar landbúnaðarins.

Staða hjónanna og hússins var næsta óljós þegar ég kom hingað sumarið 1995. Var ástandinu lýst þannig í minnisblaði í menntamálaráðuneytinu í árslok 1996 að rekstur Gunnarshúss og gestaíbúðarinnar hefði verið „hálfpartinn í lausu lofti“ eins og það var orðað.

Úr þessu varð að bæta og á árinu 1996 var skipulega hafist handa við að koma starfseminni í viðunandi framtíðarhorf. Sneri það bæði að nýtingu hússins og brýnum viðgerðum á því, reyndust til dæmis allar skolplagnir undir húsinu gjörónýtar.

Frá upphafi afskipta minna af málefnum Skriðuklausturs lagði ég áherslu á samstarf við heimamenn við að móta starfinu nýja umgjörð í stað þess að fjarstýra stóru og smáu úr ráðuneytinu.

Gekk þetta eftir og var formlega stofnað til þessa samstarfs þegar menntamálaráðuneytið skipaði þrjá heimamenn í stjórn Gunnarshúss 1. apríl 1997. Formaður var Helgi Gíslason framkvæmdastjóri á Helgafelli og með honum sátu í stjórn Guttormur Þormar, bóndi í Geitagerði, og Sigríður Sigmundsdóttir, kennari Hallormsstað. Hefur hún setið í stjórn hér allt til þessa dags í rúm 22 ár.

Takið eftir að þarna var um stjórn Gunnarshúss að ræða en hún samdi síðan drög að reglum um Gunnarsstofnun. Tillagan um reglurnar var staðfest 9. desember 1997 og þess vegna erum við hér í dag, 20 árum síðar. Með reglunum var lagður grunnur að starfinu sem síðan hefur blómstrað hér.

Stjórn Gunnarshúss var skipuð til tveggja ára. Að loknum skipunartíma hennar   árið 1999 var síðan fyrsta stjórn Gunnarsstofnunar skipuð í samræmi við fyrrnefndar reglur. Tilnefndu þá Safnastofnun Austurlands og Atvinnuþróunarfélag Austurlands hvor sinn fulltrúa í stjórn en Helgi Gíslason starfaði áfram sem formaður fyrir hönd ráðuneytisins.

Loka skipulagsáfangi upphafsáranna náðist síðan sumarið 1999 þegar stjórnin réð Skúla Björn Gunnarsson forstöðumann stofnunarinnar.

Allt voru þetta mikil gæfuspor.

Árið 1999 markaði ekki aðeins ofangreind þáttaskil. Sama ár rituðum við Guðmundur Bjarnason landbúnaðarráðherra undir samning um að Gunnarsstofnun fengi til fullra umráða og afnota íbúðarhúsið Skriðu sem reist var á jörðinni árið 1967. Var jafnframt ákveðið að 15 hektara landskiki félli undir Gunnarsstofnun. Að öðru leyti var jörðin leigð til Brekku í Fljótsdal.

Nýr kafli hófst í sögu Skriðuklausturs þegar forstöðumaður tók til starfa og honum hafði verið tryggð búseta utan Gunnarshúss. Bjó Skúli Björn í Skriðu með fjölskyldu sinni til ársins 2006 þegar þau fluttu í eigið hús á Hallormsstað.

Gunnarsstofnun opnaði Gunnarshús með hátíðlegri athöfn 18. júní árið 2000. Síðan hefur húsið verið opið almenningi til sýnis og fyrir hvers konar menningarstarfsemi sem fellur að markmiðum stofnunarinnar. Í útenda hússins er enn íbúð fyrir lista- eða vísindamenn.

Allt ferlið við þessa framkvæmd gjafabréfsins tók hálfa öld. Miklu lengri tíma en að reisa húsið sjálft. Vorið 1939 var byrjað að byggja það. Í júní 1939 flutti Gunnar skáld með fjölskyldu sína í timburhús sem fyrir var á staðnum. Hann fylgdist með vinnu um 30 manns sem komu að smíði hússins um sumarið. Húsið varð fokhelt um haustið, og gat fjölskyldan flutt inn í það fyrir jól árið 1939.

Áfanginn frá 1995 til 2000 sem hér hefur verið lýst er dæmi um hvernig sigla verður milli skers og báru að settu marki án þess að missa sjónar á því. – Þar skiptir einfaldleikinn mestu, að fækka flækjustigum, treysta og veita þeim gott svigrúm sem taka að sér að vinna verkið og hafa burði til þess.

Gunnarsstofnun hefur laðað að sér góða stjórnendur sem standa undir háleitum markmiðum frú Franzisku og Gunnars skálds. Gott samstarf við Franzisku, barnabarn skáldsins, og Gunnar Björn Gunnarsson, son hennar, núverandi stjórnarformann Gunnarsstofnunar, hefur ráðið miklu um hve farsæla stefnu málið tók.

Þjóðkunnar klausturrannsóknir Steinunnar J. Kristjánsdóttur prófessors hér á staðnum hafa enn orðið til að auka veg hans og virðingu. Þegar litið er yfir klaustursvæðið og hve vel var þar frá öllu gengið gestum og gangandi til fróðleiks fæst enn staðfesting á að hér er vandað til allra verka.

Staðurinn er einnig góður heim að sækja og er mér að lokum ljúft að nefna að oft þegar ég heyri kaffihlaðborðið á Skriðuklaustri auglýst í útvarpinu leitar hugurinn hingað til góðra veitinga.

Sá draumur rætist í dag, kærar þakkir fyrir boðið og til hamingju með daginn.