Lýðskrumstaktar Þorgerðar Katrínar
Sérhagsmunagæslan sem birtist í ítrekuðum en misheppnuðum upphlaupum utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar vekur ekki aðeins athygli innan lands.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, sýndi sömu lýðskrumstaktana á síðasta þingfundadegi fyrir jólahlé, 18. desember, og hún gerði 14. júlí, daginn sem þingi lauk fyrir sumarleyfi.
Þá lá fyrir að ríkisstjórnin, verkstjórnin, hafði fórnað frumvarpi sínu vegna strandveiða. Þegar stjórnarandstaðan vakti máls á þeim vandræðum ríkisstjórnarinnar heyrðust hróp frá ráðherrabekkjunum í þingsalnum: Inga Sæland hrópaði: „Við gætum klárað það í dag.“ og Þorgerður Katrín hrópaði: „Eigum við að klára þetta bara?“
Þorgerður Katrín bað um orðið og spurði: „Eigum við ekki að nýta þennan samhljóm í þágu strandveiða og klára málið annaðhvort í dag eða á morgun?“ Einhver hrópaði Heyr! Heyr! Ráðherrann notaði slagorð BYKO og sagði: „Gerum þetta saman.“ Ríkisstjórnarflokkarnir væru tilbúnir til að klára málið þennan sama dag eða koma til þingfundar 15. júlí til að gera það.
Enginn greip þessa tillögu á lofti. Þetta var lýðskrum í sinni tærustu mynd. Það endurspeglaði taugatitringinn í stjórnarherbúðunum ( sjá nánari lýsingu hér ).
Í frétt Andreu Sigurðardóttur í Morgunblaðinu um þingfundinn 18. desember segir að mikill titringur hafi verið innan Viðreisnar í aðdraganda þinghlés „vegna rýrrar uppskeru flokksins á haustþingi í bland við ýmsar skatta- og gjaldahækkanir sem falla mönnum æði misjafnlega í geð“.
Titringurinn hafi leitt til þess að Þorgerður Katrín formaður Viðreisnar hafi krafist þess að frumvarp Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra um brottfararstöð hælisleitenda „færi í gegn fyrir þingfrestun“.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þingforseti hafði gert samkomulag við flokksformenn um afgreiðslu mála og var þetta mál ekki á þeim lista. Þarna lék Þorgerður Katrín einfaldlega sama leikinn og 14. júlí. Hún vissi að kröfu hennar yrði hafnað en að hætti lýðskrumara vildi hún samt „skapa sér stöðu“ undir slagorðinu: Gerum þetta saman!
Sérhagsmunagæslan sem birtist í ítrekuðum en misheppnuðum upphlaupum utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar vekur ekki aðeins athygli innan lands. Framganga hennar sýnir einnig þeim sem eiga samskipti við ráðherrann á erlendum vettvangi hve erfitt er að henda reiður á hvenær málum er lokið í samskiptum við hana. Titringur vegna máls getur sett hana úr skorðum.
Duttlungafullir forystumenn stórvelda hafa svigrúm til að segja eitt í dag og annað á morgun eins og dæmin sanna. Tiltrú til þeirra og traust veikist hins vegar jafnt og þétt á heimavelli og alþjóðavettvangi.
Fulltrúar smáþjóða hafa ekkert svigrúm til lýðskrumstakta í samskiptum við aðrar þjóðir frekar en Þorgerði Katrínu sé veitt slíkt svigrúm við afgreiðslu mála á alþingi. Ítrekaðir tilburðir hennar til að slá ryki í augu einhverra, líklega eigin flokksmanna, verða augljósir þegar litið er til dæmanna sem hér eru nefnd. Þeir leynast hins vegar víðar og eru ekki síður varasamir þar.