15.7.2025 9:48

Lýðskrum vegna strandveiða

Enginn greip þessa tillögu utanríkisráðherra á lofti. Þetta var lýðskrum í sinni tærustu mynd. Það endurspeglaði taugatitringinn í stjórnarherbúðunum. 

Áður en gengið er til atkvæða um mál á alþingi geta þingmenn kvatt sér hljóðs um atkvæðagreiðsluna. Þetta gerðist á milli 13.00 og 14.00 mánudaginn 14. júlí, áður en atkvæðagreiðsla um veiðigjaldsfrumvarpið hófst.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Flokki fólksins, nýtti sér mínútuna sína með því að minnast á strandveiðifrumvarpið sem stjórnarflokkarnir skyldu eftir óafgreitt. Sakaði Lilja Rafney stjórnarandstöðuna um hræsni þegar hún segðist styðja brothættar byggðir og landsbyggðina en legði sig „í líma við það að stöðva strandveiðifrumvarpið“.

Þessu andmæltu þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki, og Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokki.

Sigmundur Davíð sagði að ekki væri unnt að kenna stjórnarandstöðunni um klúðrið í strandveiðimálinu. Þar væri um frumvarp ríkisstjórnarinnar að ræða og hefði verið varað við að það „myndi ekki virka“, þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu reynt að ýta málinu ofar á dagskrá þingsins en ríkisstjórnin hefði „fórnað strandveiðimálinu“.

Við þessi orð heyrðust óp á ráðherrabekkjunum á hægri og vinstri hönd forseta þingsins. Inga Sæland hrópaði: „Við gætum klárað það í dag, hv. þingmaður, ef þú vildir.“ Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hrópaði: „Eigum við að klára þetta bara?“

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti reis á fætur og bandaði handleggjum í átt að ráðherrunum (sjá mynd) og sagði höstuglega eins og við óþekka krakka: „Forseti biður um hljóð í salnum og biður hæstv. ráðherra að hafa hemil á sér, báðum megin. Hljóð í salnum!“

Screenshot-2025-07-15-at-09.44.47

Hljóð í salnum! sagði þingforseti við ráðherrana sem hrópuðu úr sætum sínum um strandveiðarnar (skjámynd).

Þegar Njáll Trausti tók til máls sakaði Lilja Rafney hann með ítrekuðu frammíkalli um að uppnefna sig með því að segja Rafneyju í stað Rafneyjar.

Í máli sínu benti Njáll Trausti á að strandveiðifrumvarpið hefði komið úr atvinnuveganefnd 26. júní en ekki á dagskrá þingsins fyrr en 12 dögum síðar og þá hefði því verið „kippt af dagskrá eftir örfáar klukkustundir“. Allt væri þetta á ábyrgð stjórnarliða.

Þá sést Þorgerður Katrín ganga snúðug fram hjá ræðustólnum að ráðherrabekknum þingforseta á hægri hönd. Hún biður síðan um orðið í annað skipti um atkvæðagreiðsluna til að benda á að í umræðunum um strandveiðar hafi nú myndast „samhljómur“ um málið: „Eigum við ekki að nýta þennan samhljóm í þágu strandveiða og klára málið annaðhvort í dag eða á morgun?“ spurði utanríkisráðherra og einhver hrópaði Heyr! Heyr! Ráðherrann notaði slagorð BYKO og sagði: „Gerum þetta saman.“ Ríkisstjórnarflokkarnir væru tilbúnir til að klára málið þennan sama dag eða koma til þingfundar 15. júlí til að gera það.

Enginn greip þessa tillögu á lofti. Þetta var lýðskrum í sinni tærustu mynd. Það endurspeglaði taugatitringinn í stjórnarherbúðunum. Forseti alþingis hafði tilkynnt að þingi lyki þennan dag með afgreiðslu þriggja mála auk laga um ríkisborgararétt. Forsetavaldið var lítilsvirt. Við blasti sektarkennd yfir ótrúlegum vandræðagangi og stjórnleysi samkvæmt plani verkstjórnarinnar.