Lög í þágu lýðræðis
Fram komu upplýsandi og að nokkru uggvekjandi sjónarmið um áfallaþol okkar samfélags í samanburði við það hvernig um þessi mál er rætt til dæmis í háskólasamfélögum og á æðstu stöðum stjórnsýslunnar annars staðar á Norðurlöndunum.
Lagadagurinn - stærsta ráðstefna lögfræðingasamfélagsins 2025 - var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 10. október.
Fyrir hádegi stjórnaði Birgir Ármannsson, fyrrv. forseti alþingis, aðalmálstofu dagsins þar sem rætt var um spurninguna: Lýðræði á tímamótum? Viðfangsefninu er lýst þannig í dagskrá:
„Andstaða við grundvallarþætti lýðræðisins, eins og við þekkjum það, fer vaxandi og hugmyndafræði lýðræðis á víða undir högg að sækja. Hvaða áhrif hefur lýðræðisþróun í Evrópu og Bandaríkjunum á Ísland og er hætta á að við drögumst með í kjölsoginu? Hvaða óveðursský eru á lofti og hvað veldur? Hvernig tæki Stjórnarskrá Íslands á málum og hverjir eru öryggisventlarnir? Sjónum verður beint að samspili lýðræðis og réttarríkisins, þrískiptingu ríkisvaldsins, valddreifingu og temprun valds. Jafnframt verður fjallað um neyðarrétt og viðbragðshæfni íslenskrar löggjafar á óróatímum, hlutverk dómstóla við viðhald lýðræðislegra stofnana og getu þeirra til að spyrna við fótum.“
Framsögumenn voru dr. Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands, dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og dr. Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Auk þeirra sátu í pallborði:
Pawel Bartoszek alþingismaður, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Erindin og umræðurnar vöktu margar spurningar hjá þátttakendum. Fram komu upplýsandi og að nokkru uggvekjandi sjónarmið um áfallaþol okkar samfélags í samanburði við það hvernig um þessi mál er rætt til dæmis í háskólasamfélögum og á æðstu stöðum stjórnsýslunnar annars staðar á Norðurlöndunum.
Viðbúnaður á þessum sviðum snýst alls ekki að öllu leyti um að gripið sé til aðgerða eða æfinga sem snúa að valdbeitingu. Hann snýr einnig að því að í stjórnlögum og löggjöf almennt sé um stjórnarfarslega brjóstvörn að ræða í þágu lýðræðislegra stjórnarhátta.
Stjórnskipulegur neyðarréttur var nefndur í þessu tilliti. Viðurkennt er að hann sé fyrir hendi hér á landi en á hinn bóginn skorti viðmið í stjórnarskrá um við hvaða aðstæður hann komi til álita. Sama á við um 26. gr. stjórnarskrárinnar, það er synjun forseta á lögum. Þar skortir viðmið í stað geðþótta forseta.
Eins og hér sést tók ég þátt í málstofu um þrítugan EES-samninginn. Þar hefði verið kjörið tækifæri fyrir áhugamenn um bókun 35 í hópi lögfræðinga til að láta ljós sitt skína og kynna sjónarmið sín fyrir rúmlega 150 lögfræðingum. Engin gagnrýnisrödd í þá veru heyrðist.
Á dögunum undraðist ég hvernig Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, skrifaði í Morgunblaðið um breytingu á EES-lögunum og taldi þar um innleiðingu á bókun 35 að ræða, sem hún væri á móti. Hún var þó ráðherra í ríkisstjórninni sem stóð að lagabreytingunni með stjórnarfrumvarpi. Eyjólfur Ármannsson var á móti frumvarpinu í stjórnarandstöðu en styður það sem ráðherra. Þessu er öfugt farið með Lilju Dögg. Töfrar EES-samningsins birtast í ýmsum myndum eftir því hvar stjórnmálamenn standa.