20.1.2026 15:12

Léleg réttlæting Kristrúnar

Þessi röksemdafærsla sjálfs forsætisráðherra er alvarlegt áhyggjuefni. Í réttarríki gildir einföld regla: árangur opinberrar valdbeitingar ræðst af lögmæti hennar, ekki afleiðingum.

Þingflokksformenn tveggja stjórnarandstöðuflokka, Sigríður Á. Andersen Miðflokki og Ólafur Adolfsson Sjálfstæðisflokki, spurðu Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra mánudaginn 19. janúar á alþingi um þá óvenjulegu ákvörðun að fela mennta- og barnamálaráðherra uppbyggingu hjúkrunar- og þjónustuíbúða fyrir eldra fólk þótt málaflokkurinn heyri samkvæmt forsetaúrskurði undir félags- og húsnæðismálaráðuneytið.

Því var haldið fram hér að þessi ráðstöfun bryti í bága við stjórnarráðslögin frá 2011 og fæli í sér of víðtæka og hættulega túlkun á 15. gr. stjórnarskrárinnar.

Forsætisráðherra hafnaði gagnrýni þingflokksformannanna og studdi mál sitt einkum við árangur undir stjórn Ingu Sæland: að á liðnu ári hefðu hafist framkvæmdir við um 460 ný hjúkrunarrými. Af orðum hennar mátti ráða að þessi árangur réttlætti „óvenjulega“ aðferð í stjórnarháttum og þar með lögfræðilega vafasama verkaskiptingu.

Þessi röksemdafærsla sjálfs forsætisráðherra er alvarlegt áhyggjuefni. Hvorki stjórnarskráin né stjórnarráðslögin gera ráð fyrir því að ólögmætt eða vafasamt umboð verði lögmætt eftir á vegna góðs árangurs ráðherra við að taka skóflustungur vegna hjúkrunarheimila. Í réttarríki gildir einföld regla: árangur opinberrar valdbeitingar ræðst af lögmæti hennar, ekki afleiðingum.

_MG_3929-2Inga Sæland tekur skóflustungu að hjúkjrunarheimili í Ási í Hveragerði í maí 2025 (mynd: Stjónarráðið/Kjartan Örn Júlíusson).

Forsætisráðherra fór jafnframt þá leið að vísa til samkomulags flokkssystkinanna Ingu Sæland og Ragnars Þórs Ingólfssonar. Taldi hún það réttlæta að mennta- og barnamálaráðherra færi með málaflokk sem væri áfram vistaður í öðru ráðuneyti sem stjórnarmálefni á ábyrgð annars ráðherra. Samkomulag ráðherra, hversu þægilegt sem það kann að vera pólitískt, jafngildir ekki lögum. Ráðslag milli einstakra ráðherra, hvort sem þeir eru í sama flokki eða ekki, um hvernig skiptingu mála skuli háttað á milli þeirra kemur ekki í stað laga eða forsetaúrskurða samkvæmt stjórnarskrá.

Stjórnarráðslögin eiga að tryggja skýra ábyrgð, fyrirsjáanleika og að vald og ábyrgð fari saman. Þau gera ráð fyrir hlutlægu skipulagi, ekki persónubundnum lausnum eða pólitískum duttlungum. Þegar forsætisráðherra réttlætir frávik frá þeim reglum með vísan til árangurs eða samkomulags innan flokks er hún í reynd að færa stjórnskipunina frá grunnreglum réttarríkisins.

Að forsætisráðherra stigi slíkt skref bendir til þess að ráðherrann sem krefst sérlausnar fyrir sig hvað sem líður lögum hafi lagt meira undir en aðeins umhyggju fyrir fjölda rýma á hjúkrunarheimilum eldri borgara. Allt frá fyrsta degi ríkisstjórnarinnar hefur Inga Sæland krafist sérlausna fyrir sig og forsætisráðherra gert það sem fyrir hana var lagt.

Það kann að vera pólitískt þægilegt að afgreiða „góð mál“ með óvenjulegum hætti. Slíkir starfshættir eru hins vegar stjórnskipulega varhugaverðir. Þeir eru reistir á þeirri hættulegu forsendu að tilgangurinn helgi meðalið og því sé réttlætanlegt að fara út fyrir skýran lagaramma.

Í réttarríki gildir einföld og ófrávíkjanleg regla: réttmæti opinberrar ákvörðunar ræðst ekki af því hve mörgum hjúkrunarrýmum hún skilar, heldur af því hvort ákvörðunin er reist á lögmætri heimild. Hvorki Kristrún Frostadóttir né Inga Sæland geta með samkomulagi við Ragnar Þór Ingólfsson breytt þeirri staðreynd.

Forsætisráðherra ber þá lykilábyrgð á að standa vörð um þessa reglu. Þegar reynir á stjórnskipunina ber henni að taka afdráttarlausa afstöðu með réttarríkinu.