19.1.2026 11:49

Duttlungar Ingu ofar lögum

Enn einu sinni birtist sama mynstrið í stjórnarsamstarfinu: Inga Sæland nær að setja forsætisráðherra í þá stöðu að teygja lög og stjórnskipulega túlkun til að þóknast eigin pólitískum duttlungum.

Enn einu sinni birtist sama mynstrið í stjórnarsamstarfinu: Inga Sæland nær að setja forsætisráðherra í þá stöðu að teygja lög og stjórnskipulega túlkun til að þóknast eigin pólitískum duttlungum.

Í upphafi stjórnarsamstarfsins bar Daði Már Kristófersson því við að samkvæmt lögfræðilegri ráðgjöf bæri að afhenda Flokki fólksins hundruð milljóna króna. Nú gengur Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra svo langt að sniðganga stjórnarráðslögin sjálf svo að Inga Sæland geti sinnt sérstöku gæluverkefni.

1592537Ráðherrarnir Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland (mynd: mbl.is/Karítas).

Í 15. grein stjórnarskrárinnar er kveðið skýrt á um skipan ráðherra og ábyrgð forsætisráðherra á ríkisstjórninni. Ákvæðið er útfært í stjórnarráðslögunum frá 2011, sem sett voru til að tryggja skýrleika, ábyrgð og fyrirsjáanleika í störfum framkvæmdarvaldsins.

Samkvæmt 4. grein stjórnarráðslaganna falla stjórnarmálefni undir ráðuneyti samkvæmt forsetaúrskurði og í 8. grein er forsætisráðherra beinlínis gert skylt að tryggja að verkaskipting ráðherra sé „eins skýr og kostur er“. Þar er engin heimild til að beita þeirri aðferð sem kynnt var með forsetaúrskurði 16. janúar 2026, að málaflokki sé haldið á ábyrgð eins ráðherra en framkvæmd hans falin öðrum.

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins 17. janúar segir að Inga Sæland, mennta- og barnamálaráðherra, fari með stjórnarmálefni um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða fyrir eldra fólk. Ábyrgðin á stjórnarmálefninu muni þó áfram liggja hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu. Málaflokkurinn sé þar með enn í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, en Inga Sæland fari fyrir honum. Um þessa skipan sömdu flokkssystkinin Inga Sæland og Ragnar Þór Ingólfsson, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Þetta samkomulag samrýmist einfaldlega ekki landslögum. Í íslenskum stjórnskipunarrétti er ekki gert ráð fyrir verkaskiptingu af þessum toga. Fyrirsvar ráðherra á málaflokki og ábyrgðin á afgreiðslu hans eru óaðskiljanleg. Ráðherra sem fer með málaflokk ber ábyrgð á honum gagnvart alþingi.

Aðferðin sem gripið var til í forsætisráðuneytinu fólst í því að breyta forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra, án þess að breyta forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Með því var efnisleg breyting gerð á meðferð framkvæmdarvaldsins án þess að lagastoð væri fyrir hendi og án aðkomu alþingis.

Þetta nýmæli, sem framkvæmt er á ábyrgð Kristrúnar Frostadóttur, samræmist ekki 8. grein stjórnarráðslaganna, þar sem forsætisráðherra er gert skylt að tryggja skýra verkaskiptingu milli ráðherra. Með því að teygja túlkun á 15. grein stjórnarskrárinnar út fyrir skynsamleg mörk og hunsa skýr ákvæði stjórnarráðslaganna grefur forsætisráðherra undan trausti á æðstu stjórn ríkisins.

Landsdómur komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra hefði gerst sekur um vanrækslu með því að tryggja ekki að umræður um hættur í fjármálakerfinu væru skráðar í fundargerðabók ríkisstjórnarinnar, var þó ekki refsingu beitt. Hve langt verður gengið vegna duttlunga Ingu Sæland áður en reynir á ábyrgð forsætisráðherra?