15.12.2023 9:52

Klofningur opinberast

Innan Samfylkingarinnar hefur þar til nú tekist að skrúfa fyrir alla málefnalega gagnrýni með þeim rökum að hún spilli gengi flokksins í skoðanakönnunum.

Sé vakið máls á því utan Samfylkingarinnar hve undarlegt ástand hefur skapast innan hennar við valdatöku Kristrúnar Frostadóttur er svarið að slíkt tal sýni ekkert annað en „ofsahræðslu“ við gott gengi hennar í skoðanakönnunum.

Innan Samfylkingarinnar hefur þar til nú tekist að skrúfa fyrir alla málefnalega gagnrýni með þeim rökum að hún spilli gengi flokksins í skoðanakönnunum.

Var látið berast að Kristrún nyti ráðgjafar Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrv. forseta Íslands, sem sagði skilið við Alþýðubandalagið í rúst árið 1996 og skaust inn á Bessastaði þar sem hann sat við misjafnt gengi í 20 ár. Hann snerist harkalega gegn „nýju stjórnarskránni“ og Jóhönnu Sigurðardóttur eftir að hafa gert hana að forsætisráðherra.

Jafnframt var Össur Skarphéðinsson, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, sagður sérlegur ráðgjafi Kristrúnar. Hann var utanríkisráðherra í stjórn Jóhönnu sem sótti um aðild að ESB. Þegar Össur sá hvert stefndi í aðildarviðræðunum setti hann þær á ís í janúar 2013 og hefur ekki talað fyrir ESB-aðild síðan. Össur hefur lýst Kristrúnu sem „óslípuðum demanti“.

Ráðgjöf þessara manna ræður miklu um að Kristrún vill hvorki ræða „nýja stjórnarskrá“ né aðild að ESB. Þungavigtarmennirnir að baki þeirri ákvörðun hennar voru einfaldlega kynntir til sögunnar til að fæla fylgismenn „nýju stjórnarskrárinnar“ og ESB-aðildar frá því að mótmæla stefnubreytingunni.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, rauf í september 2023 loforð sitt við kjósendur frá 2021 um að sitja fjögur ár á þingi. Við brottför Helgu Völu varð Jóhann Páll Jóhannsson oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hann náði þar kjöri sem uppbótarþingmaður fyrir tveimur árum.

Frá því var skýrt á sínum tíma að Kristrún Frostadóttir hefði ákveðið að hlaupa inn í tómarúmið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður árið 2021 að hvatningu Jóhanns Páls. Þau hafa síðan staðið saman í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar. Þau styrktu stöðu sína með því að víkja Helgu Völu úr formennsku þingflokksins og setja Loga Einarsson í hennar stað. Nú hafa þau náð undirtökunum í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.

Screenshot-2023-12-15-at-09.49.05

Oddný Harðardóttir í Suðurkjördæmi og Þórunn Sveinbjarnardóttir í Suðvesturkjördæmi halda í gömlu stefnumálin. Oddný er fyrrverandi fjármálaráðherra og finnst henni Kristrún og Jóhann Páll grípa fram fyrir hendur sér í tali þeirra um ríkisfjármálin. Þórunn er fyrrverandi umhverfisráðherra og í dag (15. des.) snýst hún opinberlega gegn Jóhanni Páli á forsíðu Morgunblaðsins vegna afstöðu sem hann boðaði í orkumálum og sagt var frá hér.

„Hann [Jóhann Páll] fer fram og lýsir sínum skoðunum. Ég byggi mína afstöðu á stefnu Samfylkingarinnar,“ segir Þórunn í dag.

Hér birtist í fyrsta sinn opinber klofningur innan Samfylkingarinnar og þingflokks hennar vegna stefnu þeirra Jóhanns Páls og Kristrúnar. Að það gerist vegna orkumála sýnir að Jóhann Páll hefur ekki sama fælingarmátt og Ólafur Ragnar og Össur innan Samfylkingarinnar. Nöfn þeirra hafa til þessa dugað til að halda aftur af fylgismönnum „nýju stjórnarskrárinnar“ og ESB-aðildar.

(Framhald...)