13.12.2023 9:29

Kúvending í orkustefnu

Jóhann Páll ryðst fram og boðar nýja Samfylkingarstefnu í orkumálum án þess að spyrja annan en Kristrúnu – hafi hann þá gert það.

Innan Samfylkingarinnar fer fram uppgjör við gamla stefnu sem nýir þingmenn telja að haldið hafi flokknum utan ríkisstjórnar í 10 ár og eldri þingmanna sem vilja halda í ESB-aðildarstefnuna og hollustu við „nýju stjórnarskrána“ svo að tvö mál séu nefnd.

Hér var á dögunum vakið máls á tilraun Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, til að kenna Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, þáv. ferðamálaráðherra, um að stefna Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um bann við gistiíbúðum í fjölbýlishúsum hefði ekki náð fram að ganga. Áður hafði þó Dagur B. Eggertsson sagt að ákvörðun Hjálmars hefði verið reist á þekkingarleysi síðan hefði borgin breytt um vinnulag.

Kristrún ætlaði að reyna að koma Samfylkingunni undan ábyrgð Dags B. og félaga á húsnæðisskortinum í Reykjavík. Tilraun flokksformannsins mistókst.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður sex manna þingflokks Samfylkingarinnar, birti þriðjudaginn 12. desember grein í Morgunblaðinu þar sem hún mælti með afgreiðslu frumvarps atvinnuveganefndar alþingis um heimild til orkuskömmtunar í þágu heimila og smærri orkunotenda kæmi til orkuskorts. Greininni lauk á þessum orðum:

„Það er auðvelt að gagnrýna aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málum um árabil en það er ódýr pólitík að setja sig upp á móti tillögum um að raforkuöryggi heimilanna verði tryggt. Stjórnvöldum ber skylda til að tryggja raforkuöryggi almennings.“

Hvergi í grein sinni minnist Þórunn á nauðsyn þess að einfalda regluverk til að auðvelda framgang virkjanaáforma. Af lestri greinar hennar má ráða að hún telji það falla undir „ódýra pólitík“.

Screenshot-2023-12-13-at-09.28.11

Í Morgunblaðinu í dag (13. des.) birtist forsíðusamtal við flokksbróður Þórunnar, Jóhann Pál Jóhannsson, samherja og hugmyndafræðing Kristrúnar í þingflokki Samfylkingarinnar. Þar kveður við annan tón en hjá Þórunni.

Jóhann Páll fer auðveldu leiðina í gagnrýni á ríkisstjórnina fyrir aðgerðarleysi, finnur að boðaðri skömmtunarleið og segir að Samfylkingin muni „styðja það að einfalda leyfisveitingarferlið [vegna virkjana] og að mál verði unnin innan viðunandi tímafrests“. Jóhann Páll vill ekki þunglamalegt og óskilvirkt leyfisveitingarferli þegar kemur að virkjunum, segir í forsíðufréttinni.

Það er merkilegt að Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem á sinn þátt í öllu regluverkinu vegna nýtingar á endurnýjanlegum orkugjöfum skuli ekki hafa vakið máls á því í grein sinni 12. desember að þingflokkur Samfylkingarinnar vildi einfalda þetta regluverk til að auka orkuvinnslu og minnka líkur á skömmtunum.

Líklegasta skýringin á þögn Þórunnar er að um þetta sé engin samstaða í Samfylkingunni. Jóhann Páll ryðst fram og boðar nýja Samfylkingarstefnu í orkumálum án þess að spyrja annan en Kristrúnu – hafi hann þá gert það.

Þau Kristrún þagga niður í öllum gagnrýnisröddum innan Samfylkingarinnar með vísan til góðs gengis í skoðanakönnunum. Þeir sem andmæli þeim gangi í raun erinda flokksandstæðinga.