2.7.2021 9:43

Katrín hittir Macron

Af myndum sem birtust vegna komu Katrínar í Elysée-höllina sést að vel fór á með henni og forsetanum.

Það er síður en svo á hverjum degi sem forsætisráðherra Íslands hittir Frakklandsforseta á einkafundi í Elysée-höll í París. Þar til í gær (1. júlí 2021) hafði það ekki gerst síðan Davíð Oddsson forsætisráðherra hitti Jacques Chirac í apríl 2001, eða í 20 ár.

Þau Katrín Jakobsdóttir og Emmanuel Macron Frakklandsforseti funduðu að morgni fimmtudags 1. júlí en ráðherrann var í París og kynnti skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í átaksverkefni UN Women Kynslóð jafnréttis á ráðstefnu franskra stjórnvalda í París sama dag.

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins um fundinn með Macron segir að þau Katrín hafi rætt tvíhliða samskipti Íslands og Frakklands og möguleika aukins samstarfs landanna, ekki hvað síst á sviði loftslagsmála, nýsköpunar og grænna lausna og jafnréttismála. Þá fóru þau yfir stöðu mála hvað varðar COVID-19 og baráttuna gegn faraldrinum í heiminum.

Fr_20210701_162118Emmanuel Macron og Katrín Jakobsdóttir í Elysée-höll í París 1. júlí 2021.

Af myndum sem birtust vegna komu Katrínar í Elysée-höllina sést að vel fór á með henni og forsetanum. Þetta myndband frá AP-fréttastofunni birtist 1. júlí á vefsíðunni visir.is.

Fyrirsögn fréttar Vísis sem Snorri Másson skrifar var þessi: Macron gerði sig líklegan til að grípa Katrínu þegar henni skrikaði fótur. Þar segir meðal annars:

„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er stödd í Frakklandi, þar sem hún fundaði með Emmanuel Macron Frakklandsforseta í morgun. Það er tímanna tákn að fullbólusettur forsætisráðherra hafi getað faðmað fullbólusettan forseta þegar þau kvöddust við dyraþrepið hjá honum.

Á myndbandi frá AP má sjá að Katrínu skrikaði fótur er hún var á leið út úr höllinni, og Macron brást allur hinn herramannslegasti við. Forsetinn gerði sig líklegan til að grípa hana og rétti henni hjálparhönd sem hún afþakkaði auðmjúklega. Þau föðmuðust í kveðjuskyni og Katrín hélt sína leið.“

Þar sem Katrín var í París til að ræða jafnréttismál leitar hugurinn til þeirra þegar ofangreindur texti er lesinn: Macron er „allur hinn herramannlegasti“ en Katrín afþakkar hjálparhönd hans „auðmjúklega“. Er þetta comme il faut?

Athygli vekur að í frétt forsætisráðuneytisins um fundinn segir að forsætisráðherra Íslands hafi ekki hitt Frakklandsforseta á einkafundi síðan 1999 en ég segi að Davíð og Chirac hafi hist í París í apríl 2001 en þá var Davíð á leið til fundar við forráðamenn ESB í Brussel eins og sjá má með aðstoð Google.

Í Morgunblaðinu í morgun minnist Andrés Magnússon ritstjórnarfulltrúi Donalds Rumsfelds sem var varnarmálaráðherra Bandaríkjanna þegar bandaríska varnarliðið hvarf úr varnarstöðinni 30. september 2006. Árið 2011 birti ég langa grein í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla undir fyrirsögninni: Þegar Rumsfeld lokaði Keflavíkurstöðinni - sjá hér .

Með frásögn sinni birtir Andrés Magnússon mynd sem tekin var á tröppum Pentagon, byggingar bandaríska varnarmálaráðuneytisins í Washington, þar sem sjá má Rumsfeld og Geir Haarde forsætisráðherra auk mín. Andrés segir myndina tekna fyrir brottför varnarliðsins 30. september 2006. Rétt er hins vegar að myndin var tekin 11. október 2006 þegar við Geir ásamt Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra fórum til Washington til að binda lausa enda vegna brottfarar Bandaríkjahers héðan.