30.6.2011

Fimmtudagur 30. 06. 11.

Í dag kom út veftímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla . Útgefandi þess er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Hún er rannsóknar- og þjónustustofnun stjórnmálafræðideildar og hennar samstarfsaðila og starfar sem sjálfstæður aðili í tengslum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Ásta Möller, fyrrverandi alþingismaður, stjórnar stofnuninni.

Að þessu sinni skrifa ég grein í tímaritið undir fyrirsögninni: Þegar Rumsfeld lokaði Keflavíkurstöðinni og lýsi ég þar aðdraganda þess að bandaríska varnarliðið hvarf héðan af landi brott 30. september 2006. Upphaf greinarinnar er á þessa leið:

„Nýlega birtist vefsíða með gögnum Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna frá 20. janúar 2001 til 18. desember 2006 Gögnin á síðunni staðfestu þá skoðun mína að Rumsfeld hefði ráðið úrslitum um lokun Keflavíkurstöðvarinnar.

Rumsfeld segir í ævisögu sinni Known and Unknown sem kom út í febrúar 2011: „Iceland was a wake-up call for me. If it was that hard to change our posture there changes elsewhere in the world would even be more difficult (bls. 304).“ Af þessum orðum má draga þá ályktun að reynsla Rumsfelds af því að loka Keflavíkurstöðinni hafi ráðið miklu um framgöngu hans annars staðar.

Sagan um brottför varnarliðsins er öðrum þræði lýsing á stjórnarháttum í Washington. Hvað eftir annað erum við minnt á að stóru ríkin ráða að lokum. Viðfangsefni stjórnenda annarra ríkja er að laga sig að aðstæðum án þess að fórna megin hagsmunum
þjóða sinna.

Þegar Ásta Möller mæltist til þess að ég ritaði þessa grein óskaði hún þess sér staklega að ég lýsti þætti mínum í umræðum um varnarmálin undanfarin 20 ár. Í greininni leitast ég við að verða við þeirri ósk.“

Greinina má lesa hér.

Í þessu sama hefti af Stjórnmálum og stjórnsýslu birtist ritdómur eftir Ólaf Ísleifsson, hagfræðing og lektor við Háskólann í Reykjavík, um bók mína Rosabaug yfir Íslandi og má lesa hann hér.