26.11.2025 11:36

IISS gefur álit á varnarstefnu Íslands

Nýr þátttakandi í umræðum um utanríkis- og öryggismál Varða - vettvangur um viðnámsþrótt sendi inn umsögn sem unnin er af viðurkenndu bresku hugveitunni International Institute for Strategic Studies (IISS) 

Utanríkismálanefnd alþingis hefur fengið umsagnir um tillögu utanríkisráðherra um stefnuna í varnar- og öryggismálum. Að ósk nefndarinnar sendi ég inn umsögn og má lesa hana hér.

Það vekur sérstaka athygli að nýr þátttakandi í umræðum um utanríkis- og öryggismál Varða - vettvangur um viðnámsþrótt sendi inn umsögn sem unnin er af viðurkenndu bresku hugveitunni International Institute for Strategic Studies (IISS) sem nefnd hefur verið Alþjóðahermálastofnunin í London hér á landi og oft var vitnað til á árum áður.

International_Institute_for_Strategic_Studies

Til fróðleiks eru hér lauslega íslenskuð fimm lykilatriði í úttekt stofnunarinnar:

Ógnarumhverfi Íslands hefur tekið grundvallarbreytingum. Óhefðbundinn hernaður Rússa í Evrópu, viðvarandi netárásir og markviss efnahagslegur þrýstingur rekast nú á þá miklu hagsmuni sem Íslendingar hafa af öryggi stafrænna tenginga, mikilvægra innviða og nánum samskiptum við bandalagsríki.

• Íslendingar hafa burði til að bregðast hratt við með því að nýta sér kosti samfélags sem reist er á miklu trausti, sterk bandalög og ríki með stafræna burði. Á næstu 12 mánuðum ætti ríkisstjórnin að einbeita sér að þremur til fimm fastmótuðum forgangsatriðum sem breyta strategískum ásetningi í mælanlegt áfallaþol, þar sem litið er á einkafyrirtæki sem kjarnaþátt í öryggismálum.

• Ríkisstjórnin hefur tækifæri til að hraða heildstæðri endurskoðun á löggjöf um varnar- og öryggismál, þar á meðal að innleiða lögboðna skimun á erlendum fjárfestingum og skýra lagalega skilgreiningu og vernd mikilvægra innviða og skyldur rekstraraðila.

• Ríkisstjórnin getur nýtt velgengni CERT-IS og eflt stafrænt fullveldi og netviðbúnað með því að uppfæra getu stofnunarinnar og koma á fót öryggis- og viðbragðsteymi á sólarhringsvakt (e. 24/7 Security Operations Centre (SOC) ) til að finna ógnir, efla greiningu og viðbragðstíma. Öryggis- og viðbragðsteymið gæti verið samstarfsverkefni hins opinbera og einkaaðila, þar sem rekstraraðilar mikilvægra innviða og tæknifyrirtæki deila gögnum, sérfræðiþekkingu og kostnaði.

• Ríkisstjórnin ætti formlega að leggja grunn að gerð íslenskrar framtíðar- og framsýnisáætlunar (e. Icelandic Futures and Foresight Programme (IFFP)) sem yrði farvegur fyrir kerfisbundna rýni inn í framtíðina, sviðsmyndagreiningu og spár um þjóðaröryggisáhættu og leið til að nýta þessa þekkingu við töku ákvarðana um hagnýtar viðnámsaðgerðir með upplýsingaskiptum og sameiginlegum æfingum hins opinbera og einkaaðila.

• Ríkisstjórnin getur nýtt fyrirliggjandi vinnu til að tryggja fyrirsjáanlegar, langtíma fjárveitingar til langs tíma með því að kynna grunnútgjöld til almannavarna og áætlun til nokkurra ára til að ná viðmiðum NATO um áfallaþol, með sérstakri áherslu á þjálfun sérhæfðs mannafla og ráðningarsamninga til langs tíma.

Í úttekt IISS er nánar farið í saumana á þessum atriðum. Úttektina má nálgast hér.

Í því felast ákveðin þáttaskil í umræðum um íslensk öryggismál að innlend hugveita eða vettvangur hafi burði til að kosta slíka úttekt mikils metinnar alþjóðlegrar hugveitu og rannsóknarstofnunar. Það er ekki aðeins markvert framlag til umræðna hér á landi heldur einnig leið til að beina athygli alþjóða fræðasamfélagsins að Íslandi.