18.2.2022 9:26

Heiftin og virðing Sólveigar Önnu

Nú er það ekki aðeins starfandi stjórn Eflingar og starfsfólk sem á að sitja og standa eins og sæmir virðingu Sólveigar Önnu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, var kjörinn formaður verkalýðsfélagsins á ný í kosningu sem lauk þriðjudaginn 15. febrúar 2022.

B-listinn, sem Sólveig fór fyrir, Baráttulistinn, hlaut alls 2.042 atkvæði eða 52,49 prósent greiddra atkvæða. Alls voru 25.841 á kjörskrá og 3.900 manns greiddu atkvæði, eða 15,09 prósent.

Sólveig Anna er því með stuðning um 8% félagsmanna í Eflingu eins og eftir kosningarnar 2018 þegar hún bauð sig fyrst fram til forystu í félaginu. Hún hrökklaðist úr formannssætinu haustið 2021 af því að hún þoldi ekki gagnrýni starfsfólks á skrifstofu Eflingar sem lýsti megnri óánægju með starfsanda og framkvæmd húsbóndavalds af hálfu Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra og Sólveigar Önnu. Hafa nokkrir fyrrverandi starfsmenn stefnt félaginu vegna þess hvernig staðið var að starfslokum þeirra. Nú segir Sólveig Anna að það sé ekki sitt vandamál heldur starfsfólksins hvað um það verður úr því að hún hafi fengið umboð til að stjórna félaginu að nýju.

Ríkti þessi kuldi nýrra forráðamanna í garð starfsfólks á almennum vinnumarkaði eða innan opinberra stofnana er líklegt að verkalýðsforingjar yrðu knúnir til að láta í sér heyra, gerðu þeir það ekki að sjálfsdáðum. Annað viðhorf ríkir þegar verkalýðsforingjarnir eiga sjálfir í hlut eins og öll saga Sólveigar Önnu sýnir. Hún krefst hlýðni og virðingar gagnvart sér eins og sönnum sósíalískum leiðtoga sæmir. Eftir að tekist hefur að ná völdum skal þeim beitt, af miskunnarleysi og mannvonsku, sé það nauðsynlegt.

VimagesSólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson (mynd:vlfa.is).

Meira hangir á sigri Sólveigar Önnu eins og hér var rakið á dögunum þegar sagt var frá reiðilestri Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í garð forystu ASÍ. Hann ásamt Vilhjálmi Birgissyni, verkalýðsleiðtoga á Akranesi, studdi Sólveigu Önnu eindregið í þeirri vissu að þar fengju þeir bandamann til að sækja gegn Drífu Snædal, forseta ASÍ, og fylgismönnum hennar.

Vilhjálmur krefst þess í löngum pistli 17. febrúar á Facebook-síðu sinni að boðað verði tafarlaust til aukaaðalfundar í Eflingu til að Sólveig Anna komist þar til valda. Sitjandi stjórn er því ósammála og stefnir að aðalfundi um miðjan apríl. Segir Vilhjálmur rökin fyrir því „rakalaust þvaður“. Hann vill að Sólveig Anna komist til valda fyrir þing Starfsgreinasambandsins (SGS) 23. til 25 mars. Efling á 60 af 135 þingfulltrúum SGS eða 44,4% og skipta þeir miklu við kjör formanns, varaformanns og framkvæmdastjórnar.

Vilhjálmur segist hafa verið nógu lengi í verkalýðshreyfingunni til að finna „„skítalyktina“ af þessu máli langar leiðir“. Hann viti að Sólveig Anna og hennar fólk láti þessa „skítataktík“ ekki slá sig út af laginu. Hún verði strax að byrja á þeim „umbótarverkefnum“ sem hún telji nauðsynlegar. Eitt af þeim sé að skipta „um æðstu forystu innan SGS sem og ASÍ!“. Orðaval Vilhjálms sýni vel heiftina sem ríkir í deilunum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Nú er það ekki aðeins starfandi stjórn Eflingar og starfsfólk sem á að sitja og standa eins og sæmir virðingu Sólveigar Önnu heldur allur skarinn í stjórnkerfi Starfsgreinasambandsins og Alþýðusambandsins. Byltingin er rétt að byrja!