Ragnar Þór í ASÍ-skuggaboxi
Skuggabox er stundað í ýmsum tilgangi. Innan ASÍ er það nú gert til að grafa undan forystu hreyfingarinnar án þess að öll sagan sé sögð.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lítur greinilega á stjórnarkjör í Eflingu – stéttarfélagi sem lið í harðri valdabaráttu innan Alþýðusambands Íslands. Hann ritaði grein á visir.is 10. febrúar þar sem hann ber lof á Vilhjálm Birgisson, verkalýðsforingja á Akranesi, en varar við Halldóru Sveinsdóttur, formanni Bárunnar á Selfossi, sem hann segir stefna að framboði til formennsku í Starfsgreinasambandinu, valdamikilli stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar.
Ragnar Þór dregur taum Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem nú berst fyrir formannskjöri í Eflingu eftir að hafa hrökklast þaðan sökuð um mannvonsku haustið 2021. Er óvenjulegt að formaður eins verkalýðsfélags blandi sér þannig í stjórnarkjör í öðru félagi. Fyrir Ragnari Þór vakir greinilega að þríeykið, hann, Vilhjálmur og Sólveig Anna nái undirtökunum innan ASÍ.
Ragnar Þór er einn varaforseta ASÍ en í greininni á visir.is lýsir hann andrúmslofti og starfsháttum innan sambandsins á næsta ógnvekjandi hátt þegar hann segir „bullandi“ og „óðgeðslega“ pólitík innan verkalýðshreyfingarinnar. Hún hafi verið „ógeðsleg þau 13 ár“ sem hann hafi starfað á þessum vettvangi.
Ógeðslega pólitíkin, falinn rógburður og baktjaldamakk sé að mestu stundað af fólki „sem fæstir vita hverjir eru, sumir eru þó vel þekktir en fara fínt með það,“ segir Ragnar Þór og bætir við að yfirleitt sé þetta fólk sem leggi ekki mannorð sitt að veði á opinberum vettvangi eða taki slaginn við sérhagsmunaöflin. Það láti að sér kveða með „like“ á samfélagsmiðlum, deili níðskrifum þar og taki undir þau þegar rætt sé um þá sem ógna þeim eins og Sólveigu Önnu.
Ragnar Þór segist sjálfur hafa „upplifað þessa
grímulausu heift á opnum og lokuðum fundum og þingum hreyfingarinnar, oftar en
ekki í vitna viðurvist“. Hann segir árásir
á sig þó barnaleik miðað við árásir á aðra.
Í grein sinni lætur Ragnar Þór með öðrum orðum stór orð falla en undir rós. Aðeins þeir sem eru innvígðir í verkalýðshreyfinguna átta sig líklega á til hverra hann vísar. Af viðtali við Drífu Snædal, forseta ASÍ, í ríkisútvarpinu sem sagt er frá á ruv.is 12. febrúar má þó ráða að hún viti ekki einu sinni að hverjum Ragnar Þór víkur með ásökunum sínum.
„Ég átta mig ekki alveg á hinum málefnalega ágreiningi.,“ segir Drífa. Hún hafi „styrkt mjög samtalið og samvinnuna á milli forseta og varaforseta“ og þar með við Ragnar Þór. Þau hittist „mjög títt“ og tali saman þess á milli: „Og ég festi ekki alveg fingur á málefnalegan ágreining,“ segir forseti ASÍ.
Ragnar Þór nefnir grein sína: Skuggahliðar verkalýðshreyfingarinnar. Daginn eftir að grein hans birtist skrifaði Vilhjálmur Birgisson grein á visir.is undir fyrirsögninni: Sögufölsun skuggastjórnenda verkalýðshreyfingarinnar. Þar segir Vilhjálmur meðal annars:
„Það er rétt hjá félaga Ragnari Þór að hatrið og níðið í garð þeirra sem hafa gagnrýnt stefnur og markmið ASÍ á liðnum árum og áratugum er grímulaust.“
Skuggabox er stundað í ýmsum tilgangi. Innan ASÍ er það nú gert til að grafa undan forystu hreyfingarinnar án þess að öll sagan sé sögð.