10.12.2017 10:45

Hátíðarstund á Skriðuklaustri

Í gær laugardaginn 9. desember var þess minnst með athöfn í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri í Fljótsdal að 20 ár voru liðin frá  því að Gunnarsstofnun sem þar starfar var formlega stofnuð.

Í gær laugardaginn 9. desember var þess minnst með athöfn í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri í Fljótsdal að 20 ár voru liðin frá  því að Gunnarsstofnun sem þar starfar var formlega stofnuð. Við athöfnina lék Sóley Þrastardóttur á flautu. Ávörp fluttu Sigríður Sigmundsdóttir, sem setið hefur í stjórn stofnunarinnar frá upphafi, og Gunnar Björn Gunnarsson, formaður stjórnar stofnunarinnar og barnabarnabarn Gunnars skálds Gunnarssonar sem gaf ríkinu Skriðuklaustur árið 1948.

Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur sem á sæti í stjórn Gunnarsstofnunar las úr nýrri skáldsögu sinni Undirferli og Steinunn J. Kristjánsdóttir prófessor las úr nýrri bók sinni Leitinni að klaustrunum sem má rekja til rannsókna Steinunnar á Skriðuklaustri á fyrsta áratug aldarinnar.

Úr stofunni á Skriðuklaustri.

Þá ræddi Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, um stofnunina og framtíðaráform. Er enginn vafi á að stofnunin og starfið í Gunnarshúsi hefur þróast og þroskast einstaklega vel undir forystu Skúla Björns og annarra stjórnenda hennar.

Þau hjónin Elísabet og Skúli Björn hafa frá fyrsta degi lagt áherslu á að gestum og gangandi byðist að njóta veitinga í Gunnarshúsi og er kaffihlaðborð Elísabetar og veitingasala hennar landskunn.

Hlaðborðið á Skriðuklaustri er landsfrægt.

Hér má lesa ávarp sem ég flutti við athöfnina.

Gunnarsstofnun fer með höfundarrétt á verkum Gunnars Gunnarssonar og hefur sérstök áhersla verið lögð á að kynna Aðventu sem kom fyrst út 1936 í Leipzig í útgáfuröðinni undir heitinu Advent im Hochgebirge. Haustið 1937 kom sagan út á dönsku og hefur nú verið gefin út á fjölda tungumála um víða veröld og hvarvetna selst vel. Stærsta upplagið var prentað í Bandaríkjunum þegar hún var gjafabók í Book of the Month Club 1941 og fór í mörg hundruð þúsundum eintökum. Þá er hún enn gefin út á nokkurra ára fresti hjá Reclam í Þýskalandi og hafa frá styrjaldarlokum selst yfir 400.000 eintök af henni þar í landi. Það má því leiða líkum að því að Aðventa hafi selst í yfir milljón eintökum frá því hún kom út fyrir tæpum 70 árum segir á vefsíðunni Skriðuklaustur. Síðan var opnuð í nýjum, glæsilegum búningi laugardaginn 9. desember af Franzisku, dóttur Gunnars Björns stjórnarformanns. Kemur hún í loftið á morgun, mánudag 11. desember. 

Í dag, sunnudaginn 10. desember verður Aðventa Gunnar Gunnarssonar lesin á mörgum tungumálum á Skriðuklaustri í tilefni 20 ára afmælis Gunnarsstofnunar.

Fyrr laugardaginn 9. desember eftir komuna með morgunfluginu frá Reykjavík fórum við í ljóðagöngu í Hallormsstaðarskógi með Andra Snæ Magnasyni rithöfundi og ljóðelsku fólki. Var það eftirminnileg ferð um skóginn í snjó og frosti. Hér má sjá mynd sem ég tók á einum áningarstaðnum. 

IMG_4748Andri Snær Magnason les í ljóðagöngu í Hallormsstaðarskógi 9. desember 2017.