8.5.2021 10:37

Flokkur í hers höndum

Þó er nóg vitað um fylgishrun Verkamannaflokksins til að hafin séu hjaðningavíg innan flokksins.

Breski Verkamannaflokkurinn galt afhroð í sveitarstjórnakosningum fimmtudaginn 6. maí og tapaði í fyrsta sinn í aukakosningum í Hartlepool-kjördæmi á Norður-Englandi þar sem þingframbjóðandi Íhaldsflokksins sigraði með glæsibrag.

Endanleg úrslit eru ekki kunn alls staðar í Bretlandi, til dæmis ekki í Skotlandi, þegar þetta er skrifað að morgni laugardags 8. maí. Þó er nóg vitað um fylgishrun Verkamannaflokksins til að hafin séu hjaðningavíg innan flokksins. Hart verður vegið að Sir Keir Starmer flokksleiðtoga sem játaði að flokkurinn hefði „tapað sambandi“ við kjósendur og sagðist ekki skorast undan ábyrgð á „sárum vonbrigðum“ vegna niðurstöðu kosninganna.

Khalid Mahmood sagði af sér sem varnarmálaráðherra í skuggaráðuneyti Sir Keirs og sakað leiðtogann um að færa flokkinn í hendur á London-based bourgeoisie – borgarastéttinni í London – hér er sambærilegur hópur áhrifafólks til vinstri kennt við 101 Reykjavík. Mahmood nefndi einnig til sögunnar brigades of woke social media warrior – fylkingar vælandi vígamanna á samfélagsmiðlum – sem skaðað hefðu flokkinn.

Þá sagði Khalid Mahmood að obsession – þráhyggja – flokksins vegna identity politics – samsemdarstjórnmála – leiddi til þess að hann ætti meira sameiginlegt með Californian high society – fína fólkinu í Kaliforníu – en kjósendum í Hartlepool. Flokkurinn yrði að leggja rækt við kjósendur á heimaslóð þeirra og það ætlaði hann að gera sem óbreyttur þingmaður.

293180791.gallerySir Keir Starmer

Í ljós kemur hvernig Sir Keir Starmer vinnur úr þessum vanda Verkamannaflokksins eða hvort honum verði almennt treyst til þess af flokksmönnum.

Á dögunum birti ég grein í Morgunblaðinu þar sem ég vék að orðaforða ný-stjórnmála og nefndi einmitt til sögunnar orðin sem Khalid Mahmood notaði til að lýsa ástæðunum fyrir tapi Verkamannaflokksins. Í upphafi greinar minnar sagði:

„Í umræðum um þjóðfélagsmál á íslensku er óhjákvæmilegt að huga að nýyrðasmíð, einkum úr ensku vegna þess hve umræður hér taka mikið mið af því sem gerist í Bandaríkjunum og Bretlandi.“

Innan Samfylkingarinnar hafa jafnan starfað stjórnmálamenn sem líta mjög til breska Verkamannaflokksins sem fyrirmyndar, þeir hafa meðal annars hreykt sér af þátttöku í starfi flokksins.

Flest af því sem Khalid Mahmood finnur Sir Keir Starmer og starfi flokksins til foráttu á vel við um það sem gerst hefur innan Samfylkingarinnar:

Þar er valdakjarni úr meirihluta í Reykjavík sem starfar í 101-anda og stendur fastan vörð um hagsmuni sína. Á alþingi ráða vælustefna og samsemdarstjórnmál sem birtast best hjá Helgu Völu Helgadóttur sem tekur einkum mið af fréttaþáttum ríkisútvarpsins. Þessi stjórnmálabarátta kallaði á Rósu Björk Brynjólfsdóttur úr VG í flokkinn. Logi Einarsson heldur formennskunni á meðan fína fólkið leyfir, Hallgrímur Helgason og félagar.