13.3.2021

Orðaforði ný-stjórnmála

Morgunblaðið, laugardagur, 13. mars 2021

Í umræðum um þjóðfé­lags­mál á ís­lensku er óhjá­kvæmi­legt að huga að nýyrðasmíð, einkum úr ensku vegna þess hve umræður hér taka mikið mið af því sem ger­ist í Banda­ríkj­un­um og Bretlandi.
Oft ber woke cult­ure á góma. Hug­takið á upp­runa í Banda­ríkj­un­um og lýs­ir næmri til­finn­ingu fyr­ir mál­um sem snerta fé­lags­legt rétt­læti eða kynþátta­rétt­læti. Til­finn­ing­in brýst oft út með aðfinnsl­um eða kvört­un­um og hef­ur orðið volmenn­ing verið notað á ís­lensku til að lýsa fyr­ir­bær­inu. Þeir sem áður báru harm sinn í hljóði hrópa nú á torg­um til að draga að sér at­hygli.

5f11985cf126c50c9c381930_wokecultureFB_5d59082dca7fedb2db925beec8eb79a8_1000Woke culture er íslenskað með orðinu volmenningu – í stað þess að bera harm sinn í hljóði er hrópað á torgum. Spruning hvort íslenska eigi upphrópunina: I am woke! með orðunum: Ég væli!

Með hug­tak­inu cancel cult­ure (eða call-out cult­ure) er lýst út­legðardómi, ein­hverj­um er þröngvað úr fé­lags­skap eða starfs­stétt, í net­sam­skipt­um, á sam­fé­lags­miðli eða í hefðbundn­um sam­skipt­um manna. Þessi nei­kvæða afstaða til ein­stak­lings birt­ist oft í umræðum um mál­frelsi og rit­skoðun.

Orðið slauf­un­ar­menn­ing hef­ur verið notað á ís­lensku um cancel cult­ure . Þá hef­ur orðið aft­ur­köll­un­ar­fár einnig verið notað. Spurn­ing er hvort ekki sé ein­fald­ast að tala um út­skúf­un eða út­legð þegar rætt er um ein­stak­ling.

Í þessu sam­bandi er einnig rétt að nefna identity politics , sam­semd­ar­stjórn­mál, sem setja mik­inn svip á stjórn­mál þar sem fram­bjóðend­ur höfða til sér­stakra hópa: blökku­manna, spænsku­mæl­andi eða gyðinga. Bent var á að Don­ald Trump hefði tek­ist að brjóta upp hefðbund­in sam­semd­ar­stjórn­mál í Banda­ríkj­un­um með því að gera efna­hags­mál og eig­in af­komu að höfuðkosn­inga­máli. Tals­menn sam­semd­ar­stjórn­mála hafa gjarn­an horn í síðu gam­al­gró­inna póli­tískra deilu­mála um hag­vöxt, at­vinnu­líf, kaup og kjör.

Í skjóli ein­stefnu vinst­ris­inna í banda­rísku há­skóla­sam­fé­lagi hef­ur rót­tæk­um aðgerðar­sinn­um meðal kenn­ara og nem­enda liðist að ganga á frelsi minni­hluta­hópa íhalds­manna eða femín­ista sem skil­greina á kon­ur með vís­an til líf­fræði (þess­um femín­ist­um er hafnað sem gend­er-critical eða kyn-gagn­rýn­um). Aðgerðir rót­tæk­ling­anna eru rök­studd­ar með kröfu um að þeir fái að njóta til­finn­inga­legs ör­ygg­is eða fé­lags­legs rétt­læt­is.

Eric Kauf­mann, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Uni­versity of London, hef­ur rann­sakað af­stöðu kenn­ara og nem­enda í há­skóla­sam­fé­lag­inu á sviðum sem snerta hug­tök­in sem hér hafa verið nefnd. Hann birti á dög­un­um grein í The Wall Street Journal um hnign­un aka­demísks frels­is.

Kauf­mann seg­ir merk­in um póli­tíska mis­mun­un aug­ljós. Um 40% banda­rískra há­skóla­manna gáfu í fyrra­sum­ar til kynna að þeir mundu ekki ráða yf­ir­lýst­an stuðnings­mann Don­alds Trumps í starf. Í Kan­ada er þetta hlut­fall 45% gegn Trump­ist­um. Í Bretlandi mundi einn af hverj­um þrem­ur há­skóla­mönn­um ekki ráða stuðnings­mann úr­sagn­ar Bret­lands úr ESB, brex­it-sinna, til starfa.

Milli fimmt­ungs og helm­ings há­skóla­manna og meist­ara­nema finnst í lagi að mis­muna gegn hægri­sinnuðum styrk­umsókn­um, fram­lögðum grein­um til birt­ing­ar og við fram­gangs­ákv­arðanir. Í fjög­urra manna hæfn­is­nefnd eða ritrýni­hópi þýðir þetta í raun að íhaldsmaður nýt­ur ekki jafn­rétt­is.

Aðeins 28% banda­rískra há­skóla­manna segja að þeim sé ekki mis­boðið með því að snæða há­deg­is­verð með kyn-gagn­rýn­um fræðimanni, fleiri, eða 41%, treysta sér hins veg­ar til að sitja til borðs með kjós­anda Trumps úr hópi sam­starfs­manna.

Allt að 70% íhalds­samra banda­rískra há­skóla­manna segj­ast beita sig sjálfs­rit­skoðun við kennslu, rann­sókn­ir og í fræðileg­um umræðum. Þeir forðast að spyrja spurn­inga sem ganga gegn vinstri viðhorf­um af ótta við að stofna starfi sínu í hættu. Þessi andi rík­ir einnig meðal íhalds­manna eða miðju­manna í hópi náms­manna sem hef­ur síðan áhrif á hverj­ir fara í meist­ara­nám og þaðan í kenn­ara­stöður.

Andstaða við þessa þróun vex, að minnsta kosti utan há­skóla­sam­fé­lag­anna. Ný­lega sagði frá því að Nig­el Fara­ge sem barðist manna mest og lengst gegn aðild Breta að ESB hafi slíðrað Brex­it-sverðið. Hann ætl­ar þó ekki að setj­ast í helg­an stein held­ur að helga krafta sína bar­áttu í tveim­ur mála­flokk­um: (1) gegn óeðli­lega mikl­um áhrif­um kín­verska komm­ún­ista­flokks­ins á dag­legt líf Breta og (2) gegn því sem hann kall­ar woke ag­enda og lýs­ir sér sem inn­ræt­ingu allt frá leik­skóla til há­skóla­gráðu sem miði að því að túlka sög­una á nýj­an, óverðugan hátt. Hann seg­ir styrk sinn á sam­fé­lags­miðlum um­tals­verðan og hon­um ætli hann að beita til að hafa áhrif á umræðurn­ar, þeim ætli hann að breyta. Hann geti gert það án fram­boðs í kosn­ing­um.

Dæm­in um til­raun­ir til að út­skúfa mönn­um vegna skoðana þeirra, einkum upp­log­inna, eru allt í kring­um okk­ur. Þær setja vax­andi svip á þjóðfé­lagsum­ræður hér og ann­ars staðar.

Jóni Stein­ari Gunn­laugs­syni, hrl., fyrr­ver­andi hæsta­rétt­ar­dóm­ara, voru hik­laust gerðar upp skoðanir eft­ir að frétt birt­ist um að dóms­málaráðherra hefði leitað til hans sem ráðgjafa um réttar­fars­leg mál­efni. Tvær vinst­ris­innaðar kon­ur á þingi vildu út­skúfa hon­um.

Ein­ar Kára­son rit­höf­und­ur lenti í hremm­ing­um þegar hann lýsti undr­un yfir þætti á rás 1 þar sem sagt var frá út­skúf­un rit­höf­und­ar­ins J. K. Rowl­ing. Ein­ar sagði:

„Það var núna áðan í Lest­inni á Rás 1 verið að tala, af velþókn­un heyrðist mér, um bar­áttu fyr­ir „slauf­un“ á verk­um J.K. Rowl­ing (höf. Harry Potter), vegna „hat­urs“ henn­ar og „her­ferðar“ gegn trans­fólki. Mig minn­ir að þetta bygg­ist á því að hún hafi sagst aðspurð telja að kyn­in væru bara tvö. Get­ur verið að heim­ur­inn sé orðinn svona gal­inn?“

Ekki nema von að Ein­ar spyrji.