Flokki lýst sem formannsmöppu
Ef ekkert er flokksstarfið til hvaða hluta renna þá opinberu fjármunirnir? Þessari spurningu ætti formaður Flokks fólksins að svara.
Hér var á dögunum vikið að umræðum um tímasetningu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Þær urðu mjög heitar í fréttaleysi milli jóla og nýárs. Einn lesandi síðunnar sagði að menn gætu eins deilt um hvað einn metri væri langur og þetta. Landsfundur yrði haldinn í ár og líklega væri skynsamlegast að gera það í vor þegar stefna ríkisstjórnarinnar hefði skýrst betur en um mánaðamótin febrúar/mars.
Í pistlinum um landsfundi var vikið að einum ríkisstjórnarflokkanna, Flokki fólksins, og sagt að hann hefði ekki efnt til landsfundar síðan það var gert aukalega árið 2019 til að uppfæra samþykktir frá stofnfundi árið 2018. Af þessu tilefni gerði Ólafur Ísleifsson, fyrrv. þingmaður Flokks fólksins, síðar Miðflokksins, þessa athugasemd á Facebook:
„Fl. f. [Flokkur fólksins] er mappa utan um persónulega hagsmuni formanns. Engar málefnanefndir, engin kjördæmaráð, engar uppstillingarnefndir. Altóm. Flokksmenn eiga engan aðgang. Björn ætti að athuga að síðasti landsfundur var haldinn í september 2018. Fundur með flokksstjórn 2019 getur engan veginn kallast landsfundur. Björn á ekki að ljá máls á slíkum blekkingum. Flokkurinn er ekki flokkur í neinum skilningi. Hann er mappa. Þið vitið um hvað.“
Þarna er Flokki fólksins lýst á skorinorðan hátt. Hér hefur flokknum stundum verið lýst sem kennitölu sem Inga Sæland, stofnandi flokksins og leiðtogi, varðveiti. Ólafur telur að orðið mappa lýsi flokknum betur, í möppunni séu persónulegir hagsmunir Ingu Sæland.
Það er sérkennileg gloppa í lögum að ekki skuli gerð krafa til þess að þeir stjórnmálaflokkar sem þiggja fé úr ríkissjóði til starfsemi sinnar fullnægi lágmarksskilyrðum um lýðræðislegt innra skipulag og stjórnarhætti. Augljóst er að samþykktirnar um Flokk fólksins sem voru uppfærðar á fundinum 2019 eru aðeins orð á blaði og skipta engu í flokksstarfinu.
Það ætti að falla að hugmyndum ríkisstjórnarinnar um hagsýni í ríkisrekstri að setja lágmarksskilyrði um skipulag og starfshætti stjórnmálaflokka svo þeir séu hæfir til að sækja um ríkisstyrk til starfsemi sinnar. Ef ekkert er flokksstarfið til hvaða hluta renna þá opinberu fjármunirnir? Þessari spurningu ætti formaður Flokks fólksins að svara.
Af FB-síðu Flokks fólksins 23. júní 2024: Eyjólfur Ármansson og Inga Sæland.
Eyjólfur Ármannsson er einn þriggja ráðherra Flokks fólksins og fer með samgöngu- og sveitarstjórnarmál. Á leið til stjórnmálaframa nýtti Eyjólfur sér deilurnar um þriðja orkupakkann og boðaði andstöðu við hann og skyldur samkvæmt EES-samningnum. Óvild Eyjólfs í garð samningsins gat síðan af sér andstöðu hans við bókun 35 við samninginn. Taldi hann þessa bókun, sem hefur bundið íslenska ríkið þjóðréttarlega í 32 ár, stjórnarskrárbrot. Þetta breyttist allt þegar hann varð ráðherra.
Ráðherradómur Eyjólfs breytir ekki stjórnarskránni heldur skipti hann einfaldlega um skoðun. Það er forystumönnum í Flokki fólksins auðvelt vegna skorts á lýðræðislegu aðhaldi. Þar fer hver sínu fram innan ramma Ingu Sæland. Hún hefur úrskurðað að kosningaloforð Flokks fólksins séu ekki annað en viljayfirlýsingar hennar sjálfrar. Flottari verða stjórnmál ekki!