Landsfundur hér og þar
Til landsfundar Flokks fólksins hefur ekki verið boðað síðan 2019 þegar hann var kallaður saman aukalega til að uppfæra flokkssamþykktir frá stofnlandsfundi flokksins 2018.
Miðað við mikinn áhuga á dagsetningu landsfundar sjálfstæðismanna á næsta ári er undarlegt að fjölmiðlamenn og stjórnmálafræðingar velti ekki fyrir sér hvenær einn stjórnarflokkanna, Flokkur fólksins, ætlar að halda landsfund. Til hans hefur ekki verið boðað síðan 2019 þegar hann var kallaður saman aukalega til að uppfæra flokkssamþykktir frá stofnlandsfundi flokksins 2018.
Með löngum fyrirvara hafði verið boðað að landsfundur Sjálfstæðisflokksins yrði í lok febrúar 2025 til að móta stefnu flokksins og taka ákvarðanir um forystu hans í ljósi þess að kjörtímabili þings lyki á árinu og gengið yrði til kosninga.
Eftir að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu um miðjan október og boðað var til kosninga 30. nóvember brustu þessar málefnalegu forsendur landsfundarins. Um þetta var rætt þegar forystumenn málefnanefnda flokksins komu saman á dögunum en þeirra hlutverk er að gera tillögur um efni landsfundarályktana.
Óljós vitneskja um hvað í raun vakir fyrir þeim sem leiða ríkisstjórnina er vísbending um að lítið gerist á stjórnarheimilinu fyrstu vikurnar, til dæmis á ekki að breyta skipan ráðuneyta fyrr en 1. mars.
Þá er leiðtogi eins stjórnarflokkanna, Inga Sæland, Flokki fólksins, ekki enn komin niður á jörðina ef marka má grein hennar í Morgunblaðinu í dag (30. des.) þegar hún segir „brennandi hugsjónir“ hafa leitt flokksleiðtogana þrjá „áfram í stjórnarmyndunarviðræðunum“ og það sem sameinaði þær hafi verið „svo miklum mun stærra en það sem greindi“ þær að.
Ingu finnst ástæða til að taka fram að hér ríki „ekki einræði heldur lýðræði þótt það vilji brenna við að einhverjir átti sig ekki á því“. Hún skýrir þessi orð ekki nánar en vill koma þessari skoðun á framfæri til að draga athygli frá þeirri staðreynd að hún leiðir stjórnmálaflokk sem skortir öll flokksfélög og hefur ekki haldið landsfund síðan 2019. Í grein sinni slær Inga síðan þennan varnagla: „Hin svokölluðu kosningaloforð eru viljayfirlýsingar þeirra sem leggja þau fram.“ Loforð Ingu urðu einfaldlega að engu á báli „brennandi hugsjónanna“ sem leiddu til stjórnarmyndunarinnar.
Hún segir að Flokkur fólksins sé „blessaður í nýrri ríkisstjórn sem einhuga [sé] sú verkstjórn sem þjóðin [hafi] kallað eftir um árabil“.
Við hlið þessarar greinar Ingu er í forystugrein Morgunblaðsins vakin athygli á hvernig „blessaður“ Flokkur fólksins hefur strax gengið á bak loforða flokksformannsins vegna hættunnar af ESB-aðild.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn á næsta ári og ákvarðanir um tímasetningu hans eru í höndum miðstjórnar flokksins en ekki þeirra sem hrópa hæst utan hennar og minna helst á Ingu Sæland sem forðast hefur landsfundi.
Eftir að þingkosningar höfðu verið boðaðar á liðnu hausti birtist allt í einu ódagsett tilkynning á vefsíðu Flokks fólksins um að stjórn flokksins (!) hefði komið saman í vikunni og ákveðið að fresta landsfundi sem hefði átt að fara fram 2. nóvember 2024; þess í stað væri stefnt að landsfundi „stuttu eftir kosningar“.
Er sú dagsetning ekki fréttaefni?