21.5.2019 13:31

Engin þörf fyrir umskipunarhöfn?

Andspænis fullyrðingum af þessu tagi sem studdar eru haldgóðum rökum vaknar spurning um hvað í raun vaki fyrir þeim sem standa að Finnafjarðarhöfninni

Fyrir nokkrum dögum birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu sem lesa má hér. Þar er tekið mið af yfirlýsingum forráðamanna kínverska skipafélagsins COSCO um siglingar í Norður-Íshafi fyrir norðan Rússland og umræðum um að (1) hafnarbærinn Kirkenes í Norður-Noregi tengist Finnlandi með járnbraut og (2) ráðist verði í gerð risahafnar í Finnafirði, norður undir Langanesi.

Þegar um þetta er rætt liggur beinast við að álykta að bæði í Kirkenes og Finnafirði séu menn að búa sig undir gerð umskipunarhafna vegna siglinga á norðurslóðum og að baki búi áhugi Kínverja eins og hann birtist í orðum stjórnenda COSCO.

Vegna greinarinnar hafa tveir menn sérfróðir um skipaflutninga haft samband við mig til að benda á að allt tal um umskipunarhafnir í tengslum við siglingar milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland sé reist á óskhyggju. Það verði engin þörf fyrir slíkar hafnir næstu áratugi. Siglingarnar eigi ekki eftir að þróast eins og COSCO spái heldur sé danska risa-skipafélagið Mærsk með fingurinn á púlsinum eftir tilraunasiglingu skips á þess vegum. Innan Mærsk ætli menn að halda að sér höndum í þessu efni og veðja áfram á skipaskurðina sem kenndir eru við Súez og Panama.

Finnafjordur-undirskriftRitað undir þróunarsamning um Finnafjörð 11. apríl 2019 - af vefsíðu EFLU.

Andspænis fullyrðingum af þessu tagi sem studdar eru haldgóðum rökum vaknar spurning um hvað í raun vaki fyrir þeim sem standa að Finnafjarðarhöfninni. Varla er aðeins um að ræða verkfræðilega æfingu fyrir Bremenports, ráðgjafar og nýsköpunarfyrirtæki hafnaryfirvalda í Bremenhaven, og EFLU, verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið.

Á vefsíðu EFLU er í færslu frá 11. apríl 2019 vitnað í forráðamenn fyrirtækjanna. Þar stendur:

„Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri Viðskiptaþróunar hjá EFLU: „Undirbúningur að þessum áfanga hefur staðið lengi yfir enda er stórskipahöfnin í Finnafirði risavaxið verkefni og mun uppbygging hennar standa yfir í áratugi. Við rannsóknir okkar á svæðinu á síðustu árum hefur komið í ljós að aðstæður til uppbyggingar hafnar eru einstakar á landsvísu og þó víðar væri leitað við Norður Atlantshafið. Ég vona að þetta verkefni auki velferð svæðisins í heild og þá einnig landeigenda við Finnafjörð.“

Robert Howe, forstjóri Bremenports: „Staðsetning hafnarinnar í Finnafirði mun breyta alþjóðasiglingum til frambúðar og getur leitt til verulegs umhverfisábáta þar sem þetta mun minnka útblástur. Við leggjum mikið upp úr umhverfismálum og mun höfnin byggjast upp á forsendum greenport aðferðafræðinnar. Við erum virkilega spennt fyrir framhaldinu og ánægð að hafa náð þessum áfanga í dag með undirritun samstarfssamninganna.““

Þarna stendur: „breyta alþjóðasiglingum til frambúðar“ – hvað felst í þessum orðum? Hvers vegna hefur þróunarfyrirtæki Bremenhaven áhuga á að stofna til slíkrar breytingar með framkvæmdum hér á landi? Á hvaða siglingar er veðjað?

Samhliða því sem verkfræðingar leggjast yfir þetta verkefni er ástæða til að ræða það frá öðrum sjónarhornum. Reikningsdæmin ein duga ekki í stórmáli sem þessu.