19.5.2019

Kirkenes og Finnafjörður - tveir fyrir umskipunarhöfn

Morgunblaðið 18. maí 2019

Hringborð norðursins (Arctic Circle) undir forsæti Ólafs Ragnars Grímssonar stóð fyrir ráðstefnu í Shanghai í Kína fyrir viku. Þar ræddu talsmenn kínverska risaskipafélagsins COSCO um áform sín í íshafssiglingum.

Chen Feng, markaðs- og sölustjóri COSCO, sagði félagið fylgja stefnu sem félli að Pól-silkileiðinni, alþjóðaviðskiptaleið milli Norður-Atlantshafssvæðisins og ríkjanna lengst í austri. Hann nefndi ekki fjölda ferða COSCO-skipa eftir leiðinni fyrir norðan Rússland, Norðurleiðinni, en þær yrðu nokkrar í austur og vestur. Veður og ís réðu miklu um það fyrir utan áhuga viðskiptavina.

Tíminn skiptir okkur mestu, sagði Chen Feng: „Það má spara tíu daga í flutningum milli Asíu og Evrópu með því að velja Norðurleiðina og í því felst einnig fjárhagslegur sparnaður.“ Að nota styttri siglingaleiðir sparaði eldsneyti og minnkaði þar með álag á umhverfið vegna útblásturs auk þess sem ekki væri nein hætta af sjóræningjum í Norður-Íshafi eins og við Súez-skurð,

Undanfarin fimm ár hefur ríkisfyrirtækið COSCO verið fremst skipafélaga í ferðum fyrir norðan Rússland. Fyrstu tvær ferðirnar voru farnar 2013 og árið 2018 voru ferðirnar átta – undanfarin fimm ár hafa skip COSCO flutt varning eftir Norðurleiðinni í 22 skipti.

Þessar tölur sýna að hér er ekki um neina stórumferð að ræða. Hugur forráðamanna skipafélagsins stendur hins vegar til þess að þóknast stjórnvöldum og sýna að til hafi orðið Pól-silkileið sem sé hluti mikla kínverska fjárfestinga heimsverkefnisins sem kennt er við belti og braut. Fyrir nokkrum dögum tóku rússnesk yfirvöld af skarið og segjast líta á Norðurleiðina sem hluta þessarar myndar.

Finnafjörður


Vegna þessa vaxandi áhuga Kínverja og samstarfs þeirra og Rússa um Norðurleiðina vakna nú meiri umræður en áður um hvaða höfn verði umskipunarhöfn á vesturenda Norðurleiðarinnar. Hefur athygli meðal annars beinst að höfnum eða hafnarstæðum á norðaustur horni Íslands eða annars staðar á Austurlandi.

Fulltrúar Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, þýska hafnarfélagsins bremenports og verkfræðistofunnar EFLU undirrituðu 11. apríl 2019 samstarfssamninga um þróun og uppbyggingu hafnarstarfsemi í Finnafirði, lítt byggðum firði milli Bakkafjarðar og Þórshafnar. Meðal stórra landeigenda er íslenska ríkið.

Við undirritunina varð til þróunarfélagið FFPD. Félagið ætlar að afla sérleyfis til að hefja starfsemi innan svæðisins. Um er að ræða um 1.300 ha svæði. Við stofnun á bremenports 66% hlut í félaginu. Aðrir eigendur eru EFLA með 26% og sveitarfélögin Vopnafjörður og Langanesbyggð saman með 8%. Viðræður eru sagðar í gangi um aðkomu erlends fjárfestingarsjóðs að félaginu síðar á árinu.

Markmið félagsins er að vinna að uppbyggingu alþjóðlegrar stórskipahafnar og iðnaðar- og þjónustusvæðis. „Svæðið tengir saman Asíu við austurströnd Bandaríkjanna og Evrópu. Staðsetning hafnarinnar í Finnafirði mun stytta alþjóðlegar siglingaleiðir verulega og í kjölfarið minnka útblástur í flutningum,“ segir á vefsíðu EFLU um þetta stórverkefni.

Það er samhljómur í því sem EFLA segir og markaðs- og sölustjóri COSCO. Markmið beggja er að stytta siglingatíma og minnka útblástur.

bremenports er sjálfstætt ráðgjafar- og verkfræðifyrirtæki í eigu hafnarinnar í Bremen, einu sambandslandi Þýskalands. Fyrirtækið hefur leitað fyrir sér með alþjóðleg verkefni sem tengjast hafnargerð. Hér aflar það sér reynslu og þekkingar sem nýtist víðar á norðurslóðum eða í norðlægum löndum.

3e7cca8cb3740a1f4a963e3502eba7e5ee08143a2e5425dd52e9acbc94f8d7b0Höfnin í Kirkenes í Noregi.

Kirkenes


Finnska fyrirtækið FinEst Bay Area Development tilkynnti fimmtudaginn 9. maí að það hefði áform um að leggja járnbraut milli norðurhluta Finnlands og hafnarbæjarins Kirkenes nyrst í Noregi, við rússnesku landamærin. Ætlunin er að járnbrautarlestir flytji varning úr skipum sem sigla Norðurleiðina suður í Evrópu fyrir vestan Rússland.

Í nóvember 2017 kynntu Kínverjar áhuga sinn á að leggja braut fyrir flutningalestir alla leið til Finnlands – Kouvola-Xi brautina sem hluta af risaáætluninni sem kennd er við belti og braut. Í fyrra lýstu Kínverjar áhuga á að tengja brautina við Svíþjóð og Noreg.

Um langt árabil hafa verið ráðagerðir um að gera göng undir flóann milli Helsinki, höfuðborgar Finnlands, og Tallinn, höfuðborgar Eistlands. Í mars 2019 lofaði kínverska einkafyrirtækið Touchstone Capital Partners að leggja 15 milljarða evra til FinEst Bay þróunarfyrirtækisins sem er í eigu hóps undir forystu finnska frumkvöðulsins Peters Vesterbäcka. Fyrirtækið var stofnað til að grafa um 100 km löng göngin undir flóann.

Peter Vesterbäcka segir að hann geti ráðist í framkvæmdina án þátttöku opinberra aðila og lokið henni árið 2024. Hingað til hafa ákvarðanir um göngin oltið á fjárhagslegu framlagi frá ESB sem stendur að gerð járnbrautakerfisins Rail Baltica sem tengir lykilborgir í Eistlandi, Lettlandi og Litháen við Varsjá í Póllandi og þaðan til Hamborgar og Rotterdam.

Nú hefur Kustaa Valtonen, forstjóri FinEst Bay, ritaði undir samkomulag við félagið Sør-Varanger Utvikling í Noregi um að kanna hvernig best verði staðið að því að leggja 350 km járnbraut til Kirkenes og hver yrðu áhrif framkvæmdarinnar á umhverfi, mannlíf og efnahag á þessum slóðum.

Í augum stjórnenda FinEst Bay er lagning járnbrautar milli Rovaniemi til Kirkenes barnaleikur miðað við göngin og kostnaðurinn „aðeins“ þrír til fimm milljarðar evra.

Belti og braut til Íslands


Fleiri þættir en verkfræðilegir og fjárhagslegir koma til álita við ákvarðanir um stórframkvæmdir. Þetta á ekki síst við þegar Kínverjar eiga í hlut. Vissulega kunna Kínverjar á einn eða annan hátt að standa að baki áformunum um umskipunarhöfn í Finnafirði.

Davíð Stefánsson heftur gert nokkra þætti um Ísland og umheiminn og sýnt á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Nú í vikunni má þar sjá samtal við Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi. Meginboðskapur sendiherrans er að verkefnið belti og braut gefi einstakt tækifæri til að efla samskipti ríkjanna gerist íslenska ríkisstjórnin aðili að því.

Undir þeim hatti gætu Íslendingar átt sameiginlega aðild að þróun Pól-silkileiðarinnar. Sé meginmarkmið hennar hins vegar að stytta siglingatíma COSCO-skipa með varning til Norður-Atlantshafssvæðisins sýnist höfn í Kirkenes skynsamlegri kostur fyrir Kínverja til umskipunar en höfn í Finnafirði. Sigling þangað gæti orðið þremur sólarhringum lengri fyrir COSCO-skipin en til Kirkenes.

Kínverjar heimta að ríkt tillit sé tekið til þeirra á vettvangi Norðurskautsráðsins, þeir séu nágrannar norðurslóða. Fyrir fund ráðsins í Rovaniemi á dögunum sagði Mike Pompeo þetta ótrúverðugan málflutning, annað hvort ættu ríki aðild að Norðurskautsráðinu eða ekki. Nyrsti oddi Kína sé í 900 mílna (1.450 km) fjarlægð frá norðurskautinu. Kínverjar hefðu ekkert til síns máls með kröfu um sérmeðferð.

Á hringborðsfundinum í Shanghai tók Ólafur Ragnar Grímsson upp hanskann fyrir Kínverja, þeir hefðu réttmæta ástæðu til afskipta af norðurskautinu, loftslagsbreytingar þar gætu til dæmis leitt til flóða í Shanghai.