Einstakt gildi menningararfsins
Á vegum Miðaldastofu verður íslenski menningararfurinn ljóslifandi fyrir augum og eyrum áheyrenda. Þessi arfur er uppspretta margvíslegra rannsókna og athugana.
Hér hefur áður verið minnst á ritverkið Líftaug landsins um utanlandsverslun Íslands frá 900 til 2010 og málþing sem efnt var til í Háskóla Íslands með höfundum verksins og sérfræðingum þar sem rætt var um efni verksins. Málþingið stóð í tvær klukkustundir í stofu 101 í Odda. Aðsóknin var góð miðað við veður og aðstæður allar. Hún var þó alls ekki eins mikil og á fyrirlestra á sem Miðaldastofa Háskóla Íslands skipuleggur.
Á vegum Miðaldastofu verður íslenski menningararfurinn ljóslifandi fyrir augum og eyrum áheyrenda. Þessi arfur er uppspretta margvíslegra rannsókna og athugana.
Fimmtudaginn 18. janúar flutti til dæmis Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands fyrirlestur sem bar heitið: Rafurlogar og vafurlogar – Um norðurljós í íslenskum heimildum. Í kynningu sagði að Aðalheiður hefði í rannsóknum sínum einkum fengist við miðaldabókmenntir með áherslu á fornaldarsögur Norðurlanda og tengingu þeirra við samevrópska sagnamenningu, munnlega hefð, rímur og fornminjar. Miðaldastofa segir einnig:
„Fyrir Íslendingum eru norðurljósin hluti af hinum hversdagslega reynsluheimi en fyrir erlendum ferðamönnum sem falla í stafi og jafnvel bresta í grát við það eitt að sjá norðurljós í fyrsta skipti — þegar sá áralangi draumur rætist — eru þau ný og ævintýraleg upplifun; þau eru töfrum gædd. En þótt e.t.v. megi segja að erlendir ferðamenn hafi beint athygli Íslendinga að norðurljósunum hin síðari ár, er ekki þar með sagt að þau hafi ekki verið okkur hugleikin hingað til. Með þessum aukna áhuga ferðamanna vakna þó eðlilega spurningar. Hversu algeng voru norðurljósin hér áður fyrr? Tóku Íslendingar eitthvað frekar eftir norðurljósunum við aðrar aðstæður en nú, þegar áreitið var minna og myrkrið dýpra? Skildu þeir eftir sig sögur um norðurljós og bera slíkar sögur þá e.t.v. vott um hjátrú sem tengjast þeim?[...]
Í fyrirlestrinum verður því haldið fram að norðurljósasögur og trúarhugmyndir þeim tengdar hljóti að teljast hefðbundnar á Íslandi, þótt heimildir séu eðlilega fleiri eftir því sem nær dregur nútímanum. Ýmiss konar hjátrú tengist norðurljósunum sérstaklega, og vera má að þau hafi verið innblástur goðsagna og tengd guðunum jafnt sem yfirnáttúrlegum öflum. Um elstu heimildirnar verður ekki fullyrt, en víst er að erlendir ferðamenn líkja þeim enn þann dag í dag við töfra og töfraheima, og að með þeim hætti tengjast gamlar hugmyndir og nýjar.“
Nú veit ég ekki hve margir sóttu þennan fyrirlestur en kynningarorðin sýna hve mikils virði er að setja menningarsöguna í samhengi við nútímann, samfélag þar sem ferðamenn verða til þess að benda okkur á gildi fornra heimilda um náttúrufyrirbrigði sem í okkar augum eru næsta hversdagsleg.
Í morgun (21. janúar) sagði Halla Kjartansdóttir, íslenskukennari og þýðandi, frá því í útvarpssamtali að meira að segja fyrir bókmenntanemendur við Háskóla Íslands hefði verið erfitt að komast inn í helg handritavé Árnastofnunar sem voru og eru enn á lokuðum gangi í Árnagarði.
Viðhorfið hefur breyst og vonandi er þess ekki langt að bíða að hafist verði handa við að reisa langþráða byggingu yfir Árnastofnun og þannig um hnúta búið að sýna megi handritin á þann veg sem sæmir. Þau draga að sér athygli ekki síður en norðurljósin. Handritasýninguna á að þróa með því hugarfari að tenging sé við ritunarstaðina eins og Reykholt í Borgarfirði, Þingeyrar í Húnaþingi, Helgafell á Snæfellsnesi og menningarstaði á borð við Odda á Rangárvöllum.
Rannsóknir á klaustrum á Íslandi hafa kveikt áhuga margra á menningararfinum eins og sést á góðum viðtökum sem bók Steinunnar Kristjánsdóttur, Leitin að klaustrunum, hefur fengið. Ég skrifaði umsögn um bókina í nýjasta hefti Þjóðmála og má lesa hana hér,