21.1.2018

Stórvirki um hlut klaustranna í Íslandssögunni

Umsögn í IV. hefti Þjóðmála 2017.

Steinunn Kristjánsdóttir: Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Sögufélag í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands Reykjavík 2017. 599 bls.

Steinunn Kristjánsdóttir lauk doktorsprófi í fornleifafræði við Gautaborgar-háskóla árið 2004, hún er nú prófessor í sameiginlegri stöðu í fornleifafræði við Þjóðminjasafn Íslands og Háskóla Íslands. Steinunn stjórnaði samhliða kennslu fornleifarannsóknum á miðaldaklaustrinu að Skriðu í Fljótsdal til ársins 2012. Bók um rannsóknina, Sagan af klaustrinu á Skriðu, kom út á vegum Sögufélags árið 2012. Nú hefur Sögufélag í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands gefið út aðra bók eftir Steinunni: Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir.

Kveikjan að því að Steinunn og samstarfsmenn hennar lögðu land undir fót eftir árið 2012 og leituðu að miðaldaklaustrum á Íslandi var vitneskjan sem Steinunn  aflaði við rannsóknina miklu á Skriðuklaustri. Skammt frá húsinu mikla sem Gunnar Gunnarsson skáld reisti á Skriðuklaustri má sjá klaustursvæðið og átta sig á að þar var ekki um neina smásmíði að ræða heldur einskonar héraðs- og samfélagsmiðstöð.

Leitin að klaustrunum hefur að geyma greinargóða lýsingu á 14 klaustrum sem Steinunn kannaði í þessum leiðangri. Bókin er reist á fræðilegum rannsóknum en textinn er saminn með það í huga að hann sé aðgengilegur fyrir hvern þann sem hefur áhuga á að kynna sér sögu klaustranna. Sagan spannar fimm aldir og í henni er lýst kirkjulegum, stjórnmálalegum og samfélagslegum breytingum sem verða á þessum árum.

Sem fornleifafræðingur nálgast Steinunn viðfangsefnið á þeim fræðilega grundvelli. Ekkert skref við uppgröft hefur hún stigið án leyfis frá Minjastofnun. Frásögnin sýnir að stofnunin fylgist náið með rannsókninni, stundum beinlínis með eftirlitsmönnum á vettvangi. Í rannsóknir á Þingeyrum var til dæmis ekki ráðist fyrr en að loknum samningaviðræðum við fulltrúa Minjastofnunar. Spurning vaknar hvort Steinunni hafi verið settar of þröngar skorður og hvers vegna.

Steinunn segir:

„Fyrsta skrefið við leitina var – ótrúlegt en satt – að finna út hversu mörg íslensku klaustrin urðu áður en kaþólskum tíma lauk við siðaskiptin um miðja sextándu öld, hvenær þau voru rekin og hvar. Oftast hefur verið talað um að tíu, hugsanlega ellefu, klaustur hafi þá verið rekin hér á landi en stundum bara átta. Við nánari leit kom í ljós að klausturstaðirnir voru að minnsta kosti fjórtán. Skýringin er sú að þau klaustur sem voru rekin í skamman tíma eru sjaldnast talin með en öll skipta þau – hvert á sinn hátt – miklu máli fyrir klaustursöguna.“ (Bls. 31.)

Þarna má segja að tónninn sé gefinn. Bókin snýst um leit sem ber þess stundum merki að notið sé ókunnrar leiðsagnar frekar en tilviljanir ráði. Örnefni, ábendingar heimafólks og það sem lifir minningunni mann fram af manni eru mikilvægar vörður á leiðinni. Úrslitum ræður reynsla, þolinmæði, nákvæm undirbúningsvinna, ályktunarhæfni og góð leitartæki.

Við lýsingu á hverju klaustranna er fylgt sömu formúlu, ef svo má segja. Rannsókn Steinunnar snýr ekki aðeins að því sem jörðin geymir heldur einnig öllu sem hún hefur fundið af fróðleik um viðkomandi klaustur. Sum voru af reglu Ágústínusar önnur af reglu Benediktína. Alla karlmenn í klaustrum erum við Íslendingar vön að kalla munka en við nánari athugun ber að greina á milli munka af reglu Benediktína og kanúka af reglu Ágústína.

Kanúka má kalla menntamenn meðal munka, þeir voru prestlærðir og lögðu sig fram um fræðistörf. Benediktínar lögðu rækt við rit- og bókmenntastörf. Öllu er þessu gerð góð skil í bókinni og einnig nunnuklaustrunum í Kirkjubæ í Skaftafellssýslu og á Reynistað í Skagafirði.

Steinunn reifar hvernig íslenskir fræðimenn hafa fjallað um klaustrin í kirkjulegum og sagnfræðilegum ritum. Segir hún að það gæti ríkrar tilhneigingar til að ætla „klaustrunum æ minni hlut í sögunni“. Magnús Jónsson, lærifaðir heillar kynslóðar presta, taldi til dæmis að alþjóðleg gerð klausturlífs hefði ekki fallið að skapgerð Íslendinga. Hlutur klaustra hér hefði því verið minni en í nálægum löndum og þau þjóðlegri en víðast hvar annars staðar.

Steinunn lýsir klaustrunum hins vegar á þennan veg:

„Þau voru opin öllum sem skjól þurftu í neyð, auk þess að vera menningarstofnanir, lærdómssetur, sjúkrahús, elliheimili og vinnustaðir fyrir ríka sem fátæka sem vildu leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið. Þáttur þeirra varð þannig stór og mikilvægur í þróun og vexti íslensks samfélags á miðöldum en ekki aðeins hinnar kirkjulegu yfirstéttar, líkt og rakið verður í þessari bók. Ekkert dæmi fannst við leitina um að fólk hafi verið þvingað til að vinna fyrir klaustrin.“ (Bls. 46.)

Hafi verið viðtekin skoðun að klaustur á Íslandi hafi verið þjóðlegar afdalastofnanir er henni hrundið með skýrum rökum í bók Steinunnar. Rannsóknir hennar teygja sig frá fornleifafræðinni inn á svið sagnfræðinnar þegar hún ræðir um átök kirkjulegra og veraldlegra höfðingja.

Páfi kynnti á kirkjuþingi í Lateran árið 1059 að hann ætlaði að skilja að veraldlegt og andlegt vald í kristnum samfélögum Evrópu. Andleg málefni yrðu framvegis í höndum kirkjunnar: hjúskapur, refsingar, kirkjulegar embættisveitingar og rekstur biskupsstóla, klaustra og kirkna.

Þorlákur helgi Þórhallsson, eini dýrlingur Íslendinga, varð prestur aðeins 19 ára eftir að margir kirkjuhöfðingjar og prestar fórust í eldsvoða þegar eldingu laust niður í klaustur í Hítardal. Hann var sendur til náms erlendis áður en hann gerðist biskup í Skálholti. Í utanferð sinni kynntist hann boðskapnum frá Lateran. Þorlákur krafðist árið 1178 forræðis yfir klaustrum og kirkjustöðum á Íslandi auk þess sem hann vildi innleiða kirkjuvaldsstefnu páfa í lög, þar með banna fjölkvæni, frilluhald og líkamlegar refsingar. Þetta leiddi til harkalegra átaka í landinu. Lauk deilunum ekki fyrr en rúmri öld síðar, 1297, með sættargerð og sigri páfa.

Deilurnar vegna stefnu og krafna Þorláks, staðamálin, urðu harkalegar. Höfðingjar vildu ekki beygja sig undir kröfur páfa og þar er hlutur Oddaverjans Jóns Loftssonar ekki síst merkur. Steinunn segir hann hafa stofnað einkaklaustur að Keldum á Rangárvöllum til að mótmæla yfirgangi og ofríki páfa, innrás erlends valds inn í íslenskt samfélag. Jón stofnaði klaustrið árið 1193, sama ár og Þorlákur helgi andaðist og sonur Jóns, Páll, varð biskup í Skálholti.

Klaustrinu á Keldum tengist kenning Steinunnar, sem vakið hefur verulega athygli, um Valþjófsstaðarhurðina, einn mesta dýrgrip í Þjóðminjasafni Íslands. Kenningin sýnir hvernig nýta má rannsóknir til að varpa nýju ljósi á minjar og sögu þeirra. Hún sýnir einnig gildi þess að fræðimenn hafi þrek til að fara ótroðnar slóðir við kynningu á því sem þeir afla með rannsóknum sínum.

Klaustrið í Viðey var eins og Keldnaklaustur höfðingjaklaustur í upphafi, stofnað árið 1226 af Snorra Sturlusyni og Þorvaldi Gissurarsyni, föður Gissurar jarls. Snorri var þá lögsögumaður og Þorvaldur goðorðsmaður.

Viðeyjarklaustur gekk höfðingjunum úr greipum eftir að konungi tókst að koma sínum manni á biskupsstól í Skálholti árið 1238. „Þá hafði hann alfarið tekið fyrir að kjör biskupa væri í höndum höfðingja og gekk svo langt að skipa erlenda biskupa í stað innlendra um tíma,“ segir Steinunn og einnig:

„Þingeyraklaustur og Þykkvabæjarklaustur komust reyndar aldrei beinlínis undir vald höfðingja og héldu svo til óáreitt áfram að starfa fyrir Rómarkirkju. Þau voru enn fremur meðal þeirra vopna sem páfi beitti fyrir sig í valdabaráttunni á Íslandi. Frá Þykkvabæjarklaustri komu alla tíð margir mikilsvirtir klerkar, sem síðar leiddu kirkjuvaldsstefnuna í landslög, og frá Þingeyraklaustri streymdu helgiritin.“ (Bls. 519.)

Steinunn víkur þarna að ritstörfunum sem stunduð voru í Þingeyraklaustri og að þeim var haldið áfram þrátt fyrir þrengingar í klaustrum annar staðar vegna ágreinings milli kirkjulegra og veraldlegra höfðingja. Á öðrum stað segir hún:

„Það kann nefnilega að hafa komið sér vel fyrir höfðingja að halda starfsemi þess [klaustursins] óbreyttri áfram af því að þá gátu þeir fært sér í nyt bókmenntalega iðju munkanna þar til framleiðslu efnis – í eigin þágu. Töfin sem varð á framgangi staðamála [þ.e. deilu kirkju og höfðingja] á þrettándu öld virðist að minnsta kosti hafa orðið til þess að Þingeyramunkar hófu að skrifa rit á íslensku, líklega til þess eins að koma boðskap andstæðinga alþjóðlegrar kirkju til ólærðra manna innanlands. Þingeyramunkar héldu að minnsta kosti uppi fullri framleiðslu á áróðri á meðan á staðamálunum stóð – og það á íslensku.“ (Bls. 462.)

Þetta er forvitnileg kenning: að rekja megi sögu íslenskunnar sem ritmáls til þess að höfðingjar fengu munkana á Þingeyrum til að skrifa fyrir sig áróðursrit gegn latneskum textum kirkjunnar. Tilgangurinn var að höfða til íslenskra fylgismanna höfðingjanna og ná til almennings í landinu.

Allt ber þetta að sama brunni. Niðurstöður rannsóknanna sem kynntar eru í bók Steinunnar sýna að klaustrin skiptu miklu í valdabaráttu kirkju og veraldlegra höfðingja. Þau voru þjóðfélagslegt valdatæki en ekki griðastaður utan samfélagsins.

Þessi þráður hlýtur að verða rakinn áfram. Nauðsynlegt er að rannsaka til hlítar eitt af stóru klaustrunum og þar liggur beint við að beina augum að Þingeyrum þar sem klaustur stóð lengst á Íslandi og umsvifin voru mikil á öllum sviðum.

Lagður hefur verið grunnur að víðtækum rannsóknum á Þingeyrum, svonefndu Þingeyraverkefni sem Steinunn tengist ásamt Snorrastofu í Reykholti. Fáist fé til að ráðast í rannsóknir undir merkjum verkefnisins yrði athygli ekki aðeins beint að innviðum klaustursins með uppgreftri heldur einnig starfi munkanna, ekki síst ritstörfum og bókmenntaiðju.

Bókin Leitin að klaustrunum sýnir eftir hve miklu er slægjast við að skýra og segja fimm alda miðaldasögu þjóðarinnar með því að rannsaka sögu klaustranna enn nánar.

Eins og sagði í upphafi er bók Steinunnar í senn skráð af ríku tilliti til fræðilegra krafna og á þann veg að hún er aðgengileg almennum lesendum.

Skýringartextar eru góðir meðal annars með glósum í upphafi. Að loknu meginmáli á bls. 486 er birt heimildaskrá, útdráttur á íslensku og ensku, atriði til minnis við lesturinn, myndaskrá, skrá yfir hús, skrá yfir varðveitta gripi, nafnaskrá og atriðisorðaskrá.

Allt ber þetta auk mynda, skýringa við þær, korta og vandaðs frágangs bókarinnar vott um mikla alúð við gerð hennar. Ég rakst á eina villu þar sem sagt er að hellir vestan Staðaraxlar í Skagafirði sé í heiðinni austan við Reynistaðarklaustur. Staðaröxlin er vestan við Reynistað.

Þeir sem vilja kynnast Íslandssögunni frá nýjum sjónarhóli verða ekki fyrir vonbrigðum lesi þeir fróðlega og vandaða bók Steinunnar Kristjánsdóttur.