Alið á ótta við EES
Vegna fyrirspurnar Hjartar J. Guðmundssonar í Morgunblaðinu 4. nóvember, um lagafrumvarp sem nú liggur fyrir alþingi um breytingu á EES-lögunum frá 1993, svaraði ég í grein í blaðinu 6. nóvember. Taldi ég það sjálfsagða kurteisi við fyrirspyrjandann.
Viðbrögð hans í Morgunblaðinu 11. nóvember sýna hins vegar að hann hafði ekki málefnalega umræðu í huga. Svar mitt varð tilefni til þess að hann reiddist og beitti vísvitandi rangtúlkun, bæði á frumvarpinu sem liggur fyrir alþingi og þeim sjónarmiðum sem ég hef lýst.
Hjörtur virðist annaðhvort misskilja eða lýsir vísvitandi á rangan hátt hlutverki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Hann heldur því ítrekað fram að ESA hafi ákæruvald gagnvart Íslandi og að með frumvarpinu um breytingu á EES-lögunum sé verið að „gefast upp fyrir fram fyrir ákæruvaldinu í málinu“. Þetta er blekking og með öllu röng mynd af hlutverki ESA í EES-kerfinu.
ESA hefur ekki ákæruvald, hvorki gagnvart ríkjum né einstaklingum. Stofnunin er ekki dómstóll, ekki saksóknari og ekki valdastofnun sem beitir þvingunum. ESA hefur eftirlitshlutverk samkvæmt samningi sem Ísland sjálft hefur gert og fylgist með því að EFTA-ríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum.
Ef ESA telur að ríki hafi ekki uppfyllt skuldbindingar sínar sendir hún fyrst formlegt áminningarbréf og rökstudda álitsgerð. Aðeins ef ríkið bregst ekki við getur hún vísað málinu til EFTA-dómstólsins, sem hefur dómsvaldið. Það er því dómstóllinn, ekki ESA, sem kveður upp úrskurð.

Með því að líkja þessu ferli við málsókn ákæruvalds er alið á ótta við „erlent vald“ í annarlegum tilgangi. ESA starfar samkvæmt reglum sem fulltrúar Íslands tóku þátt í að móta frá upphafi. Að virða þær reglur er ekki uppgjöf heldur ábyrg framkvæmd alþjóðasamnings sem tryggir íslenskum borgurum jafnræði og rétt á sameiginlega evrópska markaðnum.
Í hverju máli sem upp kemur vegna athugasemda og álitsgerða ESA ræðst af mati á málavöxtum hvaða afstöðu íslenska ríkið telur skynsamlegt að taka og hvort tekið sé tillit til athugasemdarinnar eða látið reyna á réttmæti hennar fyrir EFTA-dómstólnum.
Það er með öllu ástæðulaust að nefna Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseta hæstaréttar, í þessu samhengi. Tilvitnun Hjartar í skrif hans er úr samhengi og varðar allt annað efni. Þessi tilvísun bætir engu við málstað hans.
Frumvarpið um breytingu á EES-lögunum felur ekki í sér uppgjöf heldur leiðréttingu á íslenskum lögum sem dómstólar hafa túlkað þannig að Íslendingar njóta ekki fullra réttinda samkvæmt EES-samningnum. Að tryggja íslenskum borgurum sama rétt og öðrum á sameiginlega markaðnum er ekki framsal valds, heldur eðlileg réttarbót.
Um EES-samninginn gilda lög sem alþingi setti og nú er lagt til að þingið breyti þeim lögum. Í því felst réttarbót en ekki aðför að fullveldinu.