7.11.2025

Réttur íslenskra borgara tryggður

Morgunblaðið, föstudagur 7. nóvember 2025.

Í grein Hjartar J. Guðmundssonar um bókun 35 og EES-samninginn hér í blaðinu 4. nóvember er eðli frumvarps um breytingu á EES-lögunum frá 1993, sem nú liggur fyrir alþingi, rangt túlkað. Hann rammar rök sín inn sem fullveldismál fremur en sem spurningu um framkvæmd samnings og skuldbindingu samkvæmt honum. Fyrirsögn greinarinnar er: ESA eða EFTA-dómstóllinn, Björn? – og er spurningunni beint til mín.

Hjörtur heldur því fram að með frumvarpinu sé verið að „gefast upp fyrir ESA“ og láta erlenda stofnun segja okkur fyrir verkum. Þetta er röng forsenda. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, er ekki valdastofnun sem stjórnvöld lúta, heldur eftirlitsaðili sem tryggir að Ísland standi við skuldbindingar sem alþingi samþykkti með EES-lögunum nr. 2/1993. ESA getur aðeins höfðað mál ef hún telur að ríki hafi brotið samninginn en hún hefur ekki vald til að fyrirskipa neitt. Þetta er samningsbundið eftirlit með þátttöku fulltrúa Íslands sem EFTA-ríkin samþykktu sameiginlega árið 1992.

Downloadesa

Það er einnig misskilningur að val sé á milli ESA og EFTA-dómstólsins. Hann er hluti sama eftirlitskerfis. Ef ekki tekst samkomulag fer mál fyrir dómstólinn að frumkvæði ESA, þar sem niðurstaðan gæti haft víðtækari og afdrifaríkari áhrif en sú leið sem frumvarpið tryggir. Aðgerðaleysi íslenska ríkisins hefði vafalaust leitt til þess að ESA legði málið í hendur EFTA-dómstólsins. Með frumvarpinu hefur íslenska ríkið hins vegar þegar viðurkennt að breyta eigi lögum í samræmi við aðfinnslur ESA.

Frumvarpið er lagfæring á íslenskum lögum til að tryggja jafnræði íslenskra borgara á evrópska efnahagssvæðinu. Vegna túlkunar hæstaréttar á 3. gr. EES-laganna hafa Íslendingar í reynd ekki notið alls þess réttar sem aðildin að EES og sameiginlega markaðnum átti að tryggja. ESA hefur bent á að þessi framkvæmd skapi óvissu og jafnvel mismunun milli EFTA- og ESB-ríkja.

Lögskýringarreglan frá 1993 var málamiðlun, ekki undanþága. Að bæta við skýrara lagaákvæði nú felur ekki í sér nýtt valdaframsal heldur staðfestingu á fyrri skuldbindingu Íslands.

Svar mitt við spurningu Hjartar er því það sama og íslensk stjórnvöld hafa þegar gefið: þau völdu sjálf að fara með þetta mál fyrir alþingi í stað þess að gera það eftir málaferli fyrir EFTA-dómstólnum að frumkvæði ESA. Í frumvarpinu felst engin uppgjöf heldur leiðrétting sem tryggir að íslenskir dómstólar beiti EES-reglum til verndar borgurum, fyrirtækjum og jafnræði Íslands innan sameiginlega markaðarins.