4.8.2018 15:33

Á vit Wagners - söguleg björgun

Á leiðinni í lestinni var ánægjulegt að lesa um vel heppnað sex og hálf tíma sjúkraflug þyrlu landhelgisgæslunnar (LHG).

Ferðin um Bæjaraland hélt áfram í 32 stiga hita í dag. Að þessu sinni með hraðlest til Nürnberg og þaðan með héraðslest til Bayreuth þar sem nú er efnt árlegrar óperuhátíðar í Festspielhaus sem Richard Wagner reisti til flutnings á óperum sínum. Í Bayreuth vorum við síðast um miðjan ágúst árið 2006 eins og lesa má hér og næstu daga í kring í dagbókinni.


Á leiðinni í lestinni var ánægjulegt að lesa um vel heppnað sex og hálf tíma sjúkraflug þyrlu landhelgisgæslunnar (LHG) eftir sjúkri konu um borð í frönsku skemmtiferðaskipi um 650 km frá Reykjavíkurflugvelli.  Var skipið á leið til Svalbarða.

1064329 TF - LÍF kem­ur úr löngu sjúkra­flugi á sjó. Áhöfn þyrlunn­ar frá vinstri: Hreggviður Sím­on­ar­son sigmaður, Andri Jó­hann­es­son flugmaður, Hlyn­ur Þor­steins­son lækn­ir, Jón Tóm­as Vil­hjáms­son spilmaður og Sig­urður Ásgeirs­son flug­stjóri. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Um árabil hafa þyrluáhafnir LHG æft töku eldsneytis frá varðskipum á hafi úti en í þessu tilviki var þessi búnaður í fyrsta sinn notaður þegar í raun þurfti á honum að halda í útkalli. Í frétt mbl.is  segir:

„Sigurður Ásgeirsson var flugstjóri á TF-LÍF í útkallinu. „Við vorum í sex og hálfan tíma í loftinu án lendingar. Við tókum olíu á skipinu bæði á útleið og heimleið,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is en varðskipið Týr var staðsett í beinni flugleið frá Reykjavík að skemmtiferðaskipinu.

Alls var flugið um 1.330 kílómetrar í gær, eða 700 sjómílur. „Yfirleitt förum við ekki lengra en 200 sjómílur frá eldsneytistökustað, kannski 250 sjómílur ef skilyrði eru mjög góð. Þetta er vel út fyrir það,“ segir Sigurður.

Búnaðurinn sem gerir þyrlunni kleift að taka olíu á ferð kallast HIFR og segir Sigurður hann búinn að vera í öllum íslensku varðskipunum um nokkurt skeið en þetta sé í fyrsta sinn sem búnaðurinn hafi verið notaður í útkalli. „Við notuðum björgunarspilið til að hífa upp slöngu [úr varðskipinu Tý] sem er tengd á vélina,“ segir Sigurður en alls brenndi TF-LÍF þremur tonnum af olíu í fluginu í gær, sem samsvarar 19 fullum olíutunnum.“

Önnur þyrla gæslunnar TF-GNÁ var í viðbragðsstöðu en áhöfnin flaug henni á Langanes. Þetta er vinnuregla hjá LHG þegar farið er í slíkt langflug á haf út.

Siglingar skemmtiferðaskipa í norðurhöfum verða sífellt meiri og alvarlegri áskorun fyrir þá sem gæta öryggis sjófarenda á þessum slóðum. Gífurlega mikið er í húfi fyrir skipafélögin að geta sýnt og sannað að allt sé gert þeim til bjargar sem þurfa aðstoð úr landi. Í þessu efni gegnir LHG lykilhlutverki.

Nú þegar unnið er að endurnýjun þyrlukosts LHG má ekki í neinu tilliti slaka á öryggiskröfum. Við brottför varnarliðsins fyrir 12 árum var lagt upp með að LHG þyrfti að ráða yfir 4 öflugum þyrlum til að tryggja 98 til 99% öryggi. Síðan var gefið eftir varðandi þessa kröfu og markið sett á þrjár þyrlur. Þróunin sýnir að full ástæða er til að setja markið á fjórar þyrlur að nýju.