Yfirklór RÚV vegna Júróvisjón
Fréttastjóri RÚV stóð að ákvörðuninni, samt lét hann ljúga því að hlustendum hádegisfrétta miðvikudaginn 10. desember að langar og spennandi umræður yrðu á stjórnarfundi RÚV.
Yfirlætislegur hneykslunartónn samfylkingarfólks í garð gagnrýnenda þingforseta fyrir orðbragð hennar breytir engu um að Þórunn Sveinbjarnardóttir varð sér rækilega til skammar. Vörnum fyrir hana er fyrst og síðast ætlað að lægja öldur innan Samfylkingarinnar.
Yfirlætið til varnar þingforsetanum er í ætt við yfirklórið við afgreiðslu stjórnenda ríkisútvarpsins (RÚV) á Júróvisjón. RÚV birti opinbera tilkynningu miðvikudaginn 10. desember á íslensku og ensku þar sem sagði undir fyrirsögninni Ríkisútvarpið hefur ákveðið að taka ekki þátt í Eurovision 2026:
„Söngvakeppnin og Eurovision hafa ávallt haft það markmið að sameina íslensku þjóðina en nú er ljóst að því markmiði verður ekki náð og á þeim dagskrárlegu forsendum er þessi ákvörðun tekin.“
Bandaríska blaðið The Wall Street Journal (WSJ) birti laugardaginn 6. desember leiðara undir fyrirsögninni: Sing a Eurosong of Antisemitism – Syngið Júrólag um gyðingahatur. Þá höfðu ríkismiðlar Írlands, Spánar, Hollands og Slóveníu tilkynnt að þeir myndu sniðganga Júrvisjón árið 2026. Leiðara WSJ lýkur á þessum orðum:
„Söngvakeppnin á að vera meinlaus skemmtun, og er það að mestu leyti óháð tónlistarsmekk. Það er neyðarlegt fyrir írsku, hollensku, spænsku og slóvensku ríkisstjórnirnar að þeim sé meira annt um að útvarpa gyðingahatri sínu en að útvarpa vinsælli tónlistarkeppni.“
Nú hefur ríkisstjórn Íslands bæst í þennan hóp. Menningarmálaráðherra hennar, Logi Einarsson, gaf framkvæmdastjórn RÚV sitt persónulega græna ljós þriðjudaginn 9. desember. Framkvæmdastjórnin afgreiddi málið sama dag.
Á „dagskrárlegum forsendum“ skyldi hætt í Júróvisjón 2026.
Fréttastjóri RÚV stóð að ákvörðuninni, samt lét hann ljúga því að hlustendum hádegisfrétta miðvikudaginn 10. desember að langar og spennandi umræður yrðu á stjórnarfundi RÚV síðdegis þann sama um þátttökuna í Júróvisjón þar sem úrslit málsins myndu ráðast.

Allt var þetta leikaraskapur. Á „dagskrárlegum forsendum“ hafði glæpnum verið stolið af Stefáni Jóni Hafstein, stjórnarformanni RÚV, sem sungið hafði Júrólagið um gyðingahatur vikum saman. Fyrir utan höfuðstöðvarnar í Efstaleiti stóðu stuðningsmenn ákvörðunarinnar með fána Palestínu og í kvöldfréttum sjónvarpsins hellti Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari í beinni útsendingu frá útvarpshúsinu úr skálum reiði sinnar yfir Ísraela en bar lof á stjórnendur RÚV.
Utanríkisráðherrann Þorgerður Katrín fékk hvergi að láta ljós sitt skína eða verja aðild Íslands að þessum fimm ríkja hópi. Ekkert þeirra studdi málstað Íslands á vettvangi ESB þegar þar voru greidd atkvæði um ESB-verndartolla sem bitnuðu á Elkem á Grundartanga.
Af hálfu framkvæmdastjórnar RÚV liggur fyrir að með ákvörðun sinni vill hún sameina þjóðina í stað þess að sundra henni með þátttöku í Júróvisjón. Þetta er dapurlegt feilspor í þá átt þótt fréttaflutningi verði áfram hagað þannig um málið að staðreyndir séu sniðgengnar. Ákvörðunin er friðþæging fyrir þá sem verja blótsyrði forseta alþingis. Fólkið sem lítur á aðra sem pakk og boðar útilokun.