24.4.2019 20:12

Yfirgnæfandi stuðningur við kjarasamninga

Niðurstöðum samninganna og í atkvæðagreiðslunum ber að fagna. Þær sýna margt. Eitt af því er að láta hrakspámenn ekki setja þjóðfélagið út af sporinu.

Hér verður það ekki gert og kannski verður það hvergi gert að rifja upp stóru orðin sem féllu í aðdraganda kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum um þá vá sem væri fyrir dyrum og rekja mætti til ákvarðana kjararáðs um laun þeirra sem undir það falla. Aldrei yrði unnt að' semja nema gripið yrði til einhverra óskilgreindra aðgerða til að eyðileggja þá niðurstöðu. Þvert á móti yrði aðgerða- og sambandsleysi ráðherra og alþingismanna til þess að stjórnin félli vegna átakanna sem við blöstu.

Þeir sem þannig töluðu fögnuðu því sérstaklega að til valda hefðu komist í Eflingu og VR fólk sem léti ekki segjast fyrr en í fulla hnefana. Forystufólkið sjálft talaði einnig á þann veg að nú yrði tækifærið notað til að umbylta samfélaginu.

36AFD182263AEC31C35FA5AAC39261533C7C041B414F0F2B580E1DBE5708B49B_713x0Þessi skýringamynd á úrslitum atkvæðagreiðslna um kjarasamningana birtist á Stöð 2.

Auðvitað var samið og meira að segja staðið þannig að kynningu samninganna að hún fór fram í Ráðherrabústaðnum sem undirstrikaði betur en oft hefur gerst áður hve ríkan þátt ríkisstjórnin átti í árangrinum sem náðist.

Þetta ferli allt varð til að styrkja ríkisstjórnina í sessi.

Í dag (24. apríl) voru niðurstöður atkvæðagreiðslna um samningana kynntar. Í frétt á visir.is segir:

„Kjarasamningar alls þorra launafólks á almenna vinnumarkaðnum voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.[...]

Þannig samþykktu um 88 prósent félagsmanna VR samninga við Samtök atvinnulífsins annars vegar og Félag atvinnurekenda hins vegar þar sem þátttaka var frá um 21 prósenti til rúmlega 26 prósenta.

Rétt rúmlega 77 prósent þeirra sem greiddu atkvæði um samninga Eflingar samþykktu þá en þar var þátttakan rétt rúmlega tíu prósent. Þátttaka hjá öðrum félögum Starfsgreinasambandsins var að meðaltali 12,8% sem samþykktu samningana með yfir 70% atkvæða.“

Dræm þátttaka í atkvæðagreiðslunum er í samræmi við hve fáir virkir félagar standa að baki þeim sem veita t.d. Eflíngu og VR forystu. Félagslega lægðin er mikil og í ósamræmi við stóryrði formanna félaganna.

Niðurstöðum samninganna og í atkvæðagreiðslunum ber að fagna. Þær sýna margt. Eitt af því er að láta hrakspámenn ekki setja þjóðfélagið út af sporinu. Nú fara þeir mikinn vegna þriðja orkupakkans og þykjast tala í nafni alls þorra þjóðarinnar eins og þeir gerðu fyrir gerð kjarasamninganna.