„Yfirgengilegt ofbeldi“ pírata
Stjórnarhættir Sigurborgar Óskar Halldórsdóttur, formanns skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur og borgarfulltrúa Pírata, sæta margvíslegri gagnrýni.
Stjórnarhættir Sigurborgar Óskar Halldórsdóttur, formanns skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur og borgarfulltrúa Pírata, sæta margvíslegri gagnrýni og á hún ríkan þátt í að skapa reiði meðal þeirra sem eiga samskipti við borgaryfirvöld.
Hún er ekki eini píratinn í borgarstjórn sem leggur sig fram um að skapa illindi með framkomu sinni. Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir leggur henni lið eins og birtist í grein hennar í Fréttablaðinu 12. maí sl. en 12 athafnakonur í miðborg Reykjavíkur svara Dóru Björt í Morgunblaðinu 4. júní og segja meðal annars:
„Við höfum það eitt til „saka unnið“ í hennar huga að berjast fyrir lífi fyrirtækja okkar og verja þar með störf og mannlíf í miðbænum. Þetta kallar Dóra Björt „fortíðarskvaldur“ og segir okkur klappstýrur afturhaldsins með „sveittar krumlur fortíðar“! Dóra Björt, ásamt borgarstjóra og fleiri borgarfulltrúum, hefur kosið að standa í stríði við okkur fyrir það eitt að við höfum barist gegn lokunum gatna í miðbænum.“
Sigurborg Ósk lét orð falla á dögunum um að vegfarendur yrðu að sætta sig við að umferð um Geirsgötu yrði heft með biðstöð strætisvagna við götuna. Það ætti að kenna mönnum að vera ekki á einkabíl var inntak boðskaparins. Píratar leggja einkabílinn að jöfnu við verslunareigendur í miðborginni, þeir verða að sætta sig við að viðskiptavinum fækki með fækkun einkabíla á götum miðborgarinnar.
Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis. (Mynd mbl.is/Eggert.)
Flugfélaginu Erni var tilkynnt á fundi með fulltrúum Reykjavíkurborgar 30. apríl 2020 að rífa yrði flugskýli fyrirtækisins við Reykjavíkurflugvöll, bótalaust, vegna nýs skipulags. Borgin áformaði að leggja veg fyrir efnisflutninga í gegnum húsið. Ákvörðunin um veginn gekk gegn samkomulagi sem ríkið og Reykjavíkurborg höfðu gert um svæðið og sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í tilefni af fréttum um þetta:
„Áform um að leggja veg í gegnum friðað hús eru fráleit og engin sómakær sveitarfélög taka heldur eignir bótalaust af íbúum sínum. Allra síst aðilum sem hafa þjónað sjúkraflugi og líffæraflutningum fyrir landsmenn í áratugi. Þannig hagar sér enginn.“
Í Morgunblaðinu í dag (8. júní) segir frá því að hætt sé við að leggja veg í gegnum skýli Ernis. Hörður Guðmundsson, forstjóri flugskýlisins, segir að framkoman sem Sigurborg Ósk og starfsmenn hennar hafi sýnt sér og fyrirtæki sínu sé einfaldlega „yfirgengilegt ofbeldi“. Þegar borgarfulltrúinn er spurð hvort hún ætli að biðja Hörð afsökunar svarar hún:
„Við verðum að setjast niður og tala saman. Við viljum ekki að fólk upplifi stöðuna þannig að það bíði upp á von og óvon með sína starfsemi.“
Hún sér ekki ástæðu til að afsaka eitt eða neitt heldur gefur til kynna að Hörður hafi „upplifað“ eitthvað! Staðreyndin er hins vegar að meira en mánuður leið frá fundinum 30. apríl og niðurstöðu hans áður en Hörður frétti að ákvörðuninni á fundinum hefði verið gjörbreytt.