Yfirgangur í „Mekka frjálslyndis“
Píratinn kennir sjálfa sig og störf sín á höfuðborgarsvæðinu við „Mekka frjálslyndis“.
Fyrir nokkrum dögum var fyrsta skóflustunga tekin á svonefndum Sjómannaskólareit, vestan Sjómannaskólans og norðan Háteigskirkju. Reiturinn hefur einnig verið kenndur við saltfisk en þarna var hann þurrkaður á sínum tíma á vegum togarafélagsins Kveldúlfs. Er þetta talinn síðasti heili fiskreiturinn í borginni og var honum beðið griða meðal annars af Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi til minja um einn „merkasta þáttinn í atvinnusögu“ Reykjavíkur.
Fremst á myndinni er gamli saltfiskreiturinn sem fellur nú fyrir þéttingu byggðar. Vinir reitsins settu myndina inn á netið.
Blásið var á þessi rök og öll sjónarmið nágranna reitsins en rætt er við fulltrúa þeirra, Agnar Hansson, í Morgunblaðinu í dag (22. mars). Hann segir:
„Að mínu mati snýst þetta um hvernig fólk fer með það vald sem það hefur. Þarna er staðan sú að borgarstjóri er búinn að ákveða að hann ætlar að útrýma grænum svæðum og þétta byggð. Svo finnur hann hérna svæði og þá skiptir engu máli hvað eitthvert fólk úti í bæ er að kvabba. Hann er bara búinn að ákveða þetta.
Upplýsingar eru villandi, koma ekki fram eða koma daginn eftir að það er haldinn einhver fundur. Það er algjörlega blásið á allt sem menn reyna að segja.
Síðan eru þeir að reyna með fagurgala að slá sig til riddara með að það hafi nú verið haldnir samráðsfundir og þetta hafi allt verið gert í mesta bróðerni en þetta er ekki þannig, þetta er bara hreinn yfirgangur.“
Þessi lýsing Agnars kemur heim og saman við það sem fjöldi fólks hefur sagt og má þar til dæmis nefna Lárus Guðmundsson, veitingamann á Laugavegi til 15 ára, sem sagði í Morgunblaðinu 6. mars 2021:
„Allt blómstrar nema Laugavegurinn, enda er ekki, og hefur aldrei verið, hlustað á rekstraraðila en afgerandi meirihluti rekstraraðila er á móti götulokunum sem hafa skaðað allan rekstur síðastliðin átta ár og valdið miklum fyrirtækjaflótta.
Vandi Laugavegarins og alls miðbæjarins er ekki Covid heldur aðgerðir óhæfs borgarstjóra og meirihluta.“
Píratinn Sigurborg Ósk Haraldsdóttir er formaður skipulagsráðs höfuðborgarsvæðisins. Hún skrifar enn eina montgreinina í anda borgarstjórnarmeirihlutans í Morgunblaðið í dag og kennir sjálfa sig og störf sín á höfuðborgarsvæðinu við „Mekka frjálslyndis“. Hún notar sjálfstæðismenn utan Reykjavíkur til að niðurlægja flokksystkini þeirra í Reykjavík.
Grein Sigurborgar Óskar vekur spurninguna: Hvernig er unnt að vinna með svona fólki? Í grein Lárusar Guðmundssonar stóð:
„Við höfum sem betur fer ekki bæjarfulltrúa [í Garðabæ] sem hvetur til þess að fólk „lykli“ bílana okkar eins og einn borgarfulltrúi í Reykjavík gerði. Ekki hefur enn heyrst orð frá borgarstjóra um fordæmingu á þessu annars ógeðfellda framferði borgarfulltrúans.“
Þarna vísar Lárus til þess að Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, sagði á Twitter 17. nóvember 2020:
„Fleiri sem fantasera í leyni um að lykla bíla sem lagt hefur verið ólöglega uppi á gangstétt? Spyr fyrir vin.“
Fyrir þá sem ekki vita þá þýðir „að lykla bíl“ að ganga með hlið bíls og rispa lakkið á honum með lykli – þetta gerist í „Mekka frjálslyndis“.