WSJ tekur Trump á beinið
Síðan hæðist blaðið að Trump. Reagan hafi vitað að tollar væru skattar en Trump láti eins og þeir séu greiddir af útlendingum.
Furðulegt er að sjá hve Donald Trump Bandaríkjaforseti verður reiður þegar ríkisstjórn Ontario í Kanada gerist svo djörf að kaupa auglýsingatíma í sjónvarpi til að sýna bút úr ræðu forseta repúblikana, Ronalds Reagan, frá 1987 þar sem hann varaði við hættum af tollum og verndarstefnu.
Donald Trump fyrir framan málverk af Ronald Reagan.
Vegna auglýsingarinnar tók Trump kast á samfélagsmiðlum fimmtudaginn 23. október og fullyrti að Ontario hefði „sviksamlega notað auglýsingu, sem er FÖLSUN, þar sem Ronald Reagan talar neikvætt um tolla.“ Taldi hann að með þessu reyndi fylkisstjórn í Kanada að hafa áhrif á Hæstarétt Bandaríkjanna sem fjallar nú um mál sem snýst um hvort Bandaríkjaforseta sé frjálst að ákveða tolla eins og honum sýnist.
Trump lýsti því strax yfir við birtingu auglýsingarinnar að viðskiptaviðræðum við Kanada væri lokið en lagði svo um helgina 10% viðbótartoll á kanadískar vörur ofan á fyrri álögur hans á þær.
Wall Street Journal (WSJ) gagnrýnir Trump harðlega nú mánudaginn 27. október og segir ólíklegt að dómarar í hæstarétti láti stjórnast af öðru en lögunum „en reiðikast Trumps í garð Kanada [sé] góð röksemd fyrir dómara til að takmarka tollavald hans. Forsetinn reiðist út af sjónvarpsauglýsingu og leggur af duttlungum 10% skatt á Bandaríkjamenn sem kaupa vörur frá norðlægum nágrönnum sínum. Trump heldur því fram að hann sé ekki „konungur“ en þegar kemur að tollum hagar hann sér eins og slíkur, og án viðeigandi framsals valds frá þinginu eins og stjórnarskráin krefst,“ segir í leiðara WSJ.
Blaðið undrast að Trump hafi svona miklar áhyggjur af því að vitnað sé í forseta sem hvarf frá völdum fyrir 37 árum. Kannski óttist hann að tapa tollamálinu, kannski viti hann líka hve tollar hans séu óvinsælir.
WSJ minnir á að Reagan hafi verið eindreginn talsmaður fríverslunar og andstæðingur tolla, hann hafi hins vegar verið raunsær stjórnmálamaður og mælt fyrir tillögu um verndartoll til að veita framleiðslu á bandarískum hálfleiðurum skjól í samkeppni við Japani þegar bandarískir stjórnmálamenn óttuðust að Japanir yrðu númer eitt sem efnahagsveldi.
„Tollar Reagans á hálfleiðara reyndust vera mistök. Intel Corp., sem barðist fyrir tollunum, tókst með nýsköpun og 386 og 486 örgjörvum sínum að fara fram úr þeim fjöldaframleiddu minniskubbum sem Japanir framleiddu, “ segir WSJ.
Þá segir blaðið „skammarlegt að sjá Reagan-stofnunina, af öllum stöðum, láta undan pirringi Trumps með yfirlýsingu sinni um að ræðan hafi verið tekin úr samhengi. Hver sem les alla ræðuna getur séð að [Reagan] var fylgjandi fríverslun, með sjaldgæfum undantekningum vegna pólitískrar raunsæishyggju og þjóðaröryggis. Reagan studdi einnig, löngu fyrir Nafta, fríverslunarsvæði í Norður-Ameríku“.
Síðan hæðist blaðið að Trump. Reagan hafi vitað að tollar væru skattar en Trump láti eins og þeir séu greiddir af útlendingum. Trump haldi að hann sé að gera bandarískan iðnað stórkostlegan á ný, þegar hann sé í raun að skaða bandaríska framleiðendur með því að íþyngja þeim með hærri kostnaði. Reagan hafi vitað að hvers kyns hindranir í verndarskyni ýti undir andvaraleysi vegna sjálfumgleði og grafi undan nýsköpun.
Þetta er tímabær kveðja frá áhrifablaði sem er hliðhollt repúblikönum þegar Trump ferðast um Asíu og sveiflar tollavopninu til hægri og vinstri.