WSJ: Er Grænlandsmálið MAGA-skemmtun?
Athygli vekur hve mikla vitleysu Trump segir þegar hann rökstyður rétta skoðun sína á strategísku gildi Grænlands fyrir Bandaríkin. Gerir hann það til að höfða til MAGA-stuðningsmanna sinna?
Nú eru fréttir um yfirlýsingar Donalds Trump og liðsmanna hans um Grænland á forsíðum blaða um allan heim og setja sterkan lit á frásagnir af fundi leiðtoga rikjanna sem hittust í París þriðjudaginn 6. janúar til að árétta stuðning sinn við Úkraínu.
Ráðagerðir um að Bretar og Frakkar komi sér upp bækistöðvum fyrir heri sína í Úkraínu til að styðja við friðarsamkomulag, verði það gert, falla í skuggann af því að í París sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, að Trump stefndi NATO í voða með hugsanlegri valdbeitingu gegn Grænlandi. Framtíð NATO hefur aldrei verið talin í húfi þótt NATO-ríkin hafi ekki verið samstiga til varnar Úkraínu.
Á sama tíma og þessi orð danska forsætisráðherrans féllu í París lagði danski utanríkisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, sig fram um að lægja öldurnar á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn. Það ætti ekki að tala um krísu heldur úrlausnarefni sem leyst yrði í viðræðum. Svipaðan tón sló formaður grænlensku landstjórnarinnar.
Kom fram að fulltrúar Dana og Grænlendinga myndu hitta Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Að morgni miðvikudagsins 7. janúar hafði franski utanríkisráðherrann eftir Rubio að ekki yrði beitt hervaldi vegna Grænlands.

Athygli vekur hve mikla vitleysu Trump segir þegar hann rökstyður rétta skoðun sína á strategísku gildi Grænlands fyrir Bandaríkin. Gerir hann það til að höfða til MAGA-stuðningsmanna sinna eða af algjörri vanþekkingu? Í leiðara The Wall Street Journal (WSJ) í dag (7. janúar) segir að Trump eyðileggi sjálfur eigin málstað með yfirgangi sínum.
Blaðið segir að Stephen Miller, náinn samstarfsmaður Trumps og ráðgjafi, hafi ekki útilokað hernaðaraðgerðir vegna Grænlands. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu þriðjudaginn 6. janúar hafi auk þess komið fram að Trump forseti væri að íhuga nokkra möguleika, þar á meðal beitingu hersins. Þá segir blaðið:
„Talið um innrás er líklega bara grobb í Trump til að þrýsta á um samningaviðræður um kaup á eyjunni eða til að auka einhverja viðveru Bandaríkjanna þar. Það eitt að minnst sé á valdbeitingu skaðar hins vegar hagsmuni Bandaríkjanna við Atlantshaf, og handan þess.“
Minnt er á ummæli Mette Frederiksen í París. Sönn ummæli hennar um „endalok alls“ kæmi til bandarískrar árásar á annað NATO-ríki valdi því að ekki sé unnt að taka ummæli um hernað af hálfu Trumps alvarlega.
Blaðið segir ekkert útiloka að Trump takist að styrkja stöðu Bandaríkjanna á Grænlandi. Bandarískir þingmenn úr báðum flokkum hefðu þriðjudaginn 6. janúar birt yfirlýsingu um að Danir hefðu samþykkt „allar beiðnir um að auka hernaðarlega viðveru okkar á eyjunni.“
Undir lokin segir WSJ að Grænlandsdeilan kunni að hverfa úr fréttum vegna þess að Trump eigi fullt í fangi með önnur mál. Vinstrisinnar grípi til fáránlegra samlíkinga til að saka Trump um að hafa brotið alþjóðalög í Venesúela þegar slík lög gildi aðeins á meðan siðmenntaðar þjóðir séu til. Ekkert komi í stað vestræns hervalds.
Það sé þó ekki til marks um farsæld forseta Bandaríkjanna að þeir beiti þessu valdi aðeins af því að þeir geti það. Með því vegi þeir að hlutverki Bandaríkjanna í heiminum. Kannski sé Grænlandsmálið nú aðeins MAGA-skemmtun á netinu. Trump myndi hins vegar styrkja málstað sinn hvarvetna með því að sleppa rútínu-atriðinu „ráðumst inn í Grænland“.