19.3.2023 10:34

Wizz Air sætir gagnrýni

Í fréttinni er vísað til könnunar sem neytendasamtökin Which? létu gera og var nær helmingur dómkrafna á hendur Wizz Air.

Senda varð fulltrúa fógeta til Luton-flugvallar við London til að innheimta kröfu fyrir farþega Wizz Air vegna þess hve hrikalega langur biðlisti hafði myndast hjá flugfélaginu vegna óuppgerðra bótakrafna viðskiptavina.

Í fyrra aflýsti Wizz Air með þremur tímum fyrir brottför flugi sem maður að nafni Russel Quirk hafði bókað og var lagt til við hann að bóka nýtt flug sem hann fengi endurgreitt. Breytingin kostaði Quirk og fjölskyldu hans 2.500 pund (430.000 ISK).

Þótt Wizz Air hafði skuldbundið sig til endurgreiða nýja flugfargjaldið þurfti Quirk að fara með málið fyrir dómstóla og fékk kröfu sína ekki greidda fyrr en fulltrúar fógeta fóru út á Luton-flugvöll. Voru honum loks greidd 4.500 pund (770.000 ISK) í desember 2022, sjö mánuðum eftir að ferðin var farin.

Frá þessu atviki var sagt laugardaginn 18. mars á vefsíðunni Telegraph sem fjallar um mál gegn flugfélögum vegna seinkana, aflýstra fluga og annars. Þeim fjölgi stöðugt sem verði að leita til dómstóla til að ná fram augljósum og umsömdum rétti sínum.

Í fréttinni er vísað til könnunar sem neytendasamtökin Which? létu gera og var nær helmingur dómkrafna á hendur Wizz Air, þótt farþegafjöldi félagsins væri lægri en keppinauta þess. Á hendur Wizz Air voru mál viðskiptavina 1.600, á hendur EasyJet 884 og 840 á hendur Ryanair.

Í fréttinni er vitnað í talsmann Wizz Air sem segir að félagið líti þessa stöðu mjög alvarlegum augum, bent er á viðskiptavinir geti haft beint samband við félagið í gegnum vefsíðu þess.

06-19-Wizz-Air

Rocio Concha hjá Which? sagði að núverandi skipan þessara mála væri á þann veg að flugfélögin nytu betri stöðu en viðskiptavinir þeirra og þess vegna hirtu félögin ekki um að virða lagalegar skuldbindingar sínar. Flugmálayfirvöld ættu að huga að því að svipta félögin sem stæðu sig verst rekstrarleyfi eða setja þeim skýra kosti. Þá yrði að huga að breytingum sem stuðluðu að því að réttur farþegans yrði settur ofar en réttur flugfélagsins.

Wizz Air og EasyJet eru með áætlunarflug hingað til lands. Hér eru Neytendasamtökin með sérstaka vefsíðu Flug - Neytendasamtökin (ns.is) þar sem unnt er að fá leiðbeiningar um rétt flugfarþega og hvar þeir geta leitað sér ókeypis aðstoðar. Þá er einnig unnt að finna leiðbeiningar hjá Flug | Samgöngustofa (samgongustofa.is).

Ávallt er ráðlagt að reyna fyrst að ná sambandi við flugfélagið sem á hlut að máli en vandinn getur verið að við kaup á miða hafi farmiða- og ferðaseljandi verið milliliður, jafnvel á vegum viðkomandi flugfélags. Þegar eitthvað fer úrskeiðis taka farmiðasalinn og flugfélagið til við að vísa hvor á annan og rugla viðskiptavininn í ríminu. Þetta gerist til dæmis í samskiptum við Kiwi.com vegna farseðla Wizz Air.

Eins og fram kom í frétt Telegraph segist Wizz Air vera með vefsíðu til að auðvelda viðskiptavinum beint samband við sig. Að komast inn fyrir múrana þar er ekki endilega heiglum hent auk þess sem öll samskipti eru á þann löturhæga veg sem lýst er hér að ofan.