4.8.2017 14:45

Washington: Rússa-rannsókn og uppstokkun í Hvíta húsinu

Mikið er í húfi, sjálft forsetaembættið, fari allt á versta veg fyrir Trump. Þess vegna verður hart barist og í byrjun vikunnar fékk forsetinn fyrrverandi fjögurra stjörnu hershöfðingja úr landgönguliði hersins sem liðsstjóra sinn.

Rússa-rannsóknin í Washington er komin á nýtt stig eftir að sérstaki saksóknarinn Robert Mueller hefur nýtt sér grand jury það er kviðdóm sem starfar á bakvið luktar dyr. Kviðdómurinn þjónar þeim tilgangi að frammi fyrir honum er unnt með leynd að kalla menn til yfirheyrslu eða krefjast gagna og dýpka þannig rannsóknina sem fram fer.

Mueller og rannsóknarhópur hans kannar hvort einhverjir samstarfsmenn Donalds Trumps hafi átt í leynimakki við útsendara rússneskra stjórnvalda í því skyni að trufla forsetakosningabaráttuna og kosningarnar á árinu 2016.

Nú liggur fyrir að fyrir nokkrum vikum tók Mueller að stefna mönnum og safna skjölum með því að nota grand jury í Washington. Nokkrir slíkir kviðdómar starfa með leynd þar.

Hlutverk kviðdómendanna er ekki að fjalla um sekt eða sakleysi þeirra sem fyrir þá koma heldur að leggja grunn að hvaða stefnu rannsókn tekur og hvort hún leiði til ákæru og sakamáls.

Annars vegar berast fréttir um aukinn þunga í rannsókn þessara mála frá Washington og hins vegar heldur Donald Trump fast við þá skoðun að Rússa-málið sé uppspuni frá rótum. Um sé að ræða málatilbúnað andstæðinga sinna sem sætti sig ekki við að Hillary Clinton tapaði kosningunum.

Mikið er í húfi, sjálft forsetaembættið, fari allt á versta veg fyrir Trump. Þess vegna verður hart barist og í byrjun vikunnar fékk forsetinn fyrrverandi fjögurra stjörnu hershöfðingja úr landgönguliði hersins, John Kelly, til að verða liðsstjóra sinn í Hvíta húsinu.

Leon Panetta var liðsstjóri hjá Bill Clinton forseta 1994 til 1997. Hann skrifaði grein í The Washington Post fimmtudaginn 3. ágúst með ráðleggingum til Kellys. Hann sagði að Kelly yrði eins lengi í embættinu og hann gæti átt gott samstarf við yfirmann sinn, forsetann. Panetta lagði áherslu á að fimm grunnþættir yrðu að vera í lagi:

1. Traust milli forsetans og liðsstjórans. 2. Einn liðsstjóri. Allir starfsmenn forsetans yrðu að virða vald liðsstjórans og vera ábyrgir á sínu starfssviði gagnvart honum. 3. Skýr fyrirmælaröð. Allir verða að vita hvers fyrirmælum þeim ber að fylgja. 4. Skýrar og vel skipulagðar leiðir við töku ákvarðana. Tryggja verði að forsetinn sendi aðeins Twitter-boð sem falla að ferli liðsstjórans við töku ákvarðana. 5. Að segja forsetanum sannleikann. Innan Hvíta hússins verði að vera einn maður sem geti horfst í augu við forsetann og sagt honum sannleikann, hvenær hann gerir mistök eða hefur rangt fyrir sér. Þetta sé hlutverk liðsstjórans.

Panetta segir að vilji Trumps til að laga sig að þessum einföldu og í raun sígildu grunnreglum um farsæla stjórnarhætti ráði ekki aðeins hve lengi John Kelly verði liðsstjóri hans heldur einnig hvort Trump takist yfirleitt að gegna háu embætti sínu.

 

 

 

 

 

Every chief of staff, past and present, has faced these challenges. But success or failure is not just dependent on the chief of staff; it also hinges on the willingness and support of the president. Clinton was willing to make the changes necessary to establish effective White House operations, and he was reelected in 1996. Whether President Trump is willing to make these changes will in large measure determine not just how long Kelly survives as chief of staff, but also the ultimate success or failure of Trump's administration.