Vörður takmarkar lýðræði
Þeir sem stóðu að tillögunni um leiðtogaprófkjör og samþykktu hana hafa ekki fært nein rök fyrir afstöðu sinni opinberlega. Þeir komast hins vegar ekki undan því.
Öllum að óvörum ákvað meirihluti stjórnar Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, að kvöldi miðvikudags 15. desember að ekki yrði haldið opið, almennt prófkjör um skipan framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna 14. maí 2022. Vill meirihluti stjórnar Varðar að kosið verði um efsta sæti á listanum í prófkjöri, það er að efnt verði til svonefnds leiðtogaprófkjörs eins og gert var fyrir kosningarnar 2018.
Samkvæmt fréttaskýringu Andrésar Magnússonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag (17. des.) höfðu umræður í stjórn Varðar á fyrri fundi hnigið til þeirrar áttar að efnt yrði til almenns prófkjörs 26. febrúar 2022. Andrés segir stjórnarfundinn 15. desember ekki hafa verið „ákaflega vel“ sóttan og í fundarboði hafi ekki komið fram að lögð yrði fram tillaga um leiðtogaprófkjör. Tillagan muni „hafa komið formanninum Jóni Karli Ólafssyni í opna skjöldu“. Þrátt fyrir fortölur hans og fleiri hafi tillagan verið samþykkt með 11 atkvæðum gegn 7 í stjórninni.
Óvænt uppgjör um ákvörðun framboðslistans fór greinilega fram innan stjórnar Varðar á þessum fundi. Þeir sem stóðu að tillögunni um leiðtogaprófkjör og samþykktu hana hafa ekki fært nein rök fyrir afstöðu sinni opinberlega. Þeir komast hins vegar ekki undan því. Tillaga þeirra nær ekki fram að ganga nema tveir þriðju fundarmanna á fundi fulltrúaráðsins samþykki það.
Þegar ákvörðunin var tekin í stjórn Varðar lá fyrir að Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi og Eyþór Arnalds borgarfulltrúi vildu skipa efsta sæti á D-listanum í vor og gert yrði út um það í prófkjöri. Hvorugt þeirra óttast leiðtogaprófkjör en bæði vilja almennt prófkjör eins og fram kemur í ummælum þeirra um ákvörðun meirihluta Varðar-stjórnarinnar.
Þegar stjórnarformaður Varðar og þau sem þegar hafa lýst áhuga á að leiða sjálfstæðismenn til sigurs í borginni í vor vilja öll almennt prófkjör er óhjákvæmilegt að þeir sem eru annarra skoðunar skýri mál sitt og rökstyðji.
Vandræðagangur Samfylkingarinnar í Reykjavík við ákvarðanir hennar um framboðslista vegna þingkosninganna nú í september ætti að verða öllum flokkum víti til að varast. Þá var kynnt að hér ætti að fara að prófkjörsreglum sænskra jafnaðarmanna og allt fór svo í handaskolum miðað við reiði og úrsagnir úr flokknum af þessum sökum.
Tilraunastarfsemi við val á framboðslista í Reykjavík á skjön við almennar prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins er aðeins til marks um að þeim séu mislagðar hendur sem það vilja. Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa einfaldlega ekki efni á innan flokks deilum um hvort fylgja eigi opnum lýðræðislegum leikreglum eða ekki.
Í fyrrnefndri fréttaskýringu í Morgunblaðinu segir að eftir standi spurningin um hverjum tillagan um leiðtogaframboð komi til góða með óyggjandi hætti. Við blasi að það henti helst óbreyttum borgarfulltrúum sem síður kæri sig um að þurfa að spyrja almenna sjálfstæðismenn um erindi sitt á lista og inn í borgarstjórnarsal Ráðhússins.
Sé þetta svo hljóta þessir „óbreyttu borgarfulltrúar“ að láta til sín heyra. Einhver telur sig væntanlega hafa hag af því að loka á almennt prófkjör. Eitt er víst að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík þarf á öðru að halda en þessu klúðri undir forystu Varðar við núverandi aðstæður.