19.4.2020 11:20

Vorboðar

Vorboðarnir birtast nú hver af öðrum, hvort sem litið er til náttúrunnar eða mannlífsins.

Vorboðarnir birtast nú hver af öðrum. Gæsir í túnum og nú í morgun var tjaldparið í fyrsta sinn í ár hér við hlaðið.

Fimm hrafnar svífa yfir einhverju æti í túninu utan við gluggann. Þeir eiga laupa hér fyrir ofan og á ólíklegustu stöðum langt frá golfvöllum má finna kúlur sem þeir hafa tekið og flogið með upp í landið. Hvort þeir halda sig hafa náð í egg eða eitthvað til að skreyta með vita kannski fuglafræðingar.

IMG_0678Þessi mynd var tekin af hrossunum í ársbyrjun. Þarna er dauft yfir þeim miðað við það sem nú er.

Þrátt fyrir snjóþyngsli, rok og rigningu koma hrossin vel undan vetri enda hafa þau fengið heyrúllurnar sínar reglulega.

Það er sérstakt rannsóknarefni að sjá viðbrögð hestanna þegar þeir fá brauð eða vítamínmola. Stundum reka tveir þeirra saman afturendana og ýlfra af reiði áður en þeir vinda snögglega upp á hálsinn og reyna að bíta í þann sem stofnað hefur til keppni um molana. Séu þeir úti í haga nægir að blístra til að þeir komi þangað sem þeir vita um góðgæti. Nú eru þeir teknir til við að kljást þegar þeir spretta úr spori sem segir að þeir séu síður en svo illa haldnir eftir veturinn.

*

Eitt af því sem er hluti vorkomunnar er útgáfa nemenda í Verzlunarskóla Íslands (Verzló) á Verzlunarskólablaðinu sem nú er gefið út í 1.100 eintökum og var útgáfudagur 20. mars 2020 segir aftan á titilblaði. Um þessar mundir er dreifing hafin. Blaðið er einfaldlega nefnt Tímarit V 86 sem segir að þetta sé 86. árgangur þess. Hér er um að ræða ríkulega myndskreyttar 302 bls., allt einstaklega vel gert í stóru broti, prentað í Prentmiðlun.

IMG_1131Handtökin hafa verið ófá við að ganga frá öllum myndunum og textum með þeim fyrir utan listræn tök við ljósmyndun og umbrot. Líklega eru fá prentverk flóknari í allri gerð en þetta hér á landi. Kápan er silfurgrá, í raun spegill, ekki er unnt að taka mynd af henni án þess að síminn speglist, þess vegna er hér mynd af titilsíðunni. Þegar bókin er opnuð dettur manni í hug að gleymst hafi að líma kjölinn – svo er ekki, þetta er hluti þess að prentgripurinn er einstakur.

Efnið er fjölbreytt og frjálslegt, spegill af lífi í skólanum sem tók á sig nýjan svip fyrir um tveimur mánuðum vegna COVID-19. Þegar fram líða stundir og menn skoða þetta eintak af Verzlunarskólablaðinu á örugglega eftir að segja þeim tvisvar að það hafi komið út og verið dreift í skugga veirunnar og heimsfaraldursins.