Vopnahlésdagsins minnst í París
Þjóðernishyggja er andstæða föðurlandsástar, segir Emmanuel Macron
Þegar þetta er ritað má í sjónvarpi sjá hóp fyrirmenna alls staðar úr heiminum ganga upp að Sigurboganum í París til að minnast þess við hátíðlega athöfn að 100 ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Veðrið er verra í París en í Reykjavík. Þar er rok og rigning, regnhlíf forseta Litháens fýkur til dæmis upp. Fyrir um 70 manna hópi ríkisoddvita fara Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel Þýskalandskanslari fremst.
Um síðir kemur Trump í eigin bílalest en öðrum á hátíðarpallinum var ekið í rútum frá Elysée-forsetahöllinni að Sigurboganum. Trump stillir sér upp við hliðina á Merkel og þau skiptast á nokkrum orðum. Allra síðastur er svo Vladimir Pútín Rússlandsforseti sem stendur við hlið frönsku forsetafrúarinnar.
Fyrirmenni við Sigurbogann í París.
Strax eftir komu Pútíns gengur Macron ásamt franska forsætisráðherranum og varnarmálaráðherranum að heiðursverði hermanna, franski þjóðsöngurinn er leikinn, forsetinn skoðar heiðursvörðinn. Forsetinn er þaulæfður í að ganga fram hjá hermönnum án þess að líta annað en til hliðar. Minningarstund um látna hermenn og karlakór syngur þjóðsönginn. Forsetinn heiðrar hóp uppgjafarhermanna og gengur síðan með upphafinn svip í haustrigningunni til sætis að nýju.
Þá leikur heimskunni sellóleikarinn Yo-Yo Ma úr svítu eftir Bach fyrir fram gröf óþekkta hermannsins þar sem eldur logar jafnan undir sjálfum Sigurboganum. Ungt fólk úr menntaskólanum Seine-Saint-Denis gengur fram undir boganum og les á ólíkum tungumálum úr bréfum hermanna. Þá kemur fiðluleikarinn Renaud Capuçon og þeir Yo-Yo Ma leika saman. Angélique Kidjo söngkona frá Benin kemur fram með hljómsveit.
Þegar Donald Trump var ekið að Sigurboganum stökk þessi berbrjósta kona fram til mótmæla.
Emmanuel Macron flytur ræðu. Hljóðneminn á púltinu er bilaður og forsetinn fær hljóðnema í hægri hönd. Franskir stjórnmálamenn og sjónvarpsgestir eru ekki óvanir því að halda á hljóðnemum og þetta gengur vel hjá Macron. Undir ræðu forsetans sýnir France 2 sjónvarpsstöðin myndir úr stríðinu við hlið mynd af forsetanum við púltið.
Ræða forsetans er löng og upphafin eins og hæfir tilefninu. Þjóðernishyggja er andstæða föðurlandsástar, segir forsetinn. Macron á undir högg að sækja vegna óvinsælda heima fyrir. Álitsgjafar sögðu að hann ætlaði að nýta sér áhugann á þessum viðburði til að bæta stöðu sína. Ef til vill gerist það en fámenni er á götum Parísar í rigningunni.
Ungsinfónía ESB flytur að lokum Boléro eftir franska tónskáldið Maurice Ravel. Það er ekki auðvelt að leika á viðkvæm strengjahljóðfæri í rigningu og kulda. Þegar horft er á sjónvarpið má heyra regndropana falla!