19.1.2025 10:34

Vopnahlé á Gasa

Vopnahlé gekk í gildi klukkan 09.15 að íslenskum tíma sunnudaginn 19. janúar og á að gilda í 42 daga, gildistakan tafðist frá klukkan 06.30 vegna þess að Hamas afhenti Ísraelum ekki lista með nöfnum þriggja gísla sem sleppa á við gildistökuna.

Einum sorglegasta kafla í sögu samskipta Ísraela og Palestínumanna lýkur í dag, 19. janúar. Nú eru 468 dagar liðnir frá því að hernaðarátök hófust eftir að hryðjuverkamenn Hamas-samtakanna fóru út af yfirráðasvæði sínu á Gasa-ströndinni og réðust á almenna borgara á heimilum þeirra og á tónlistarhátíð. Um 1.200 voru myrtir og um 250 teknir í gíslingu, 7. október 2023.

Ísraelar svöruðu með hervaldi og gerðu tafarlaust loftárásir á Gasa og sendu síðan landher inn á Gasa-svæðið 27. október 2023. Síðan hafa verið gerðar stöðugar árásir á það úr lofti, á landi og af sjó. Hamas beitti flugskeytum gegn Ísrael.

Heilbrigðisráðuneytið á Gasa sem lotið hefur stjórn Hamas segir að meira en 46.700 manns, flestir almennir borgarar, hafi fallið í árásum Ísraela.

Vopnahlé gekk í gildi klukkan 09.15 að íslenskum tíma sunnudaginn 19. janúar og á að gilda í 42 daga, gildistakan tafðist frá klukkan 06.30 vegna þess að Hamas afhenti Ísraelum ekki lista með nöfnum þriggja gísla sem sleppa á við gildistökuna.

Screenshot-2025-01-19-at-10.30.24Reuters birti þessa mynd Dawouds Abu Alkas af Gasa-búum á leið til heimkynna sinna eftir að vopnahléð gekk í gildi.

Um vopnahléð var samið fyrir milligöngu stjórnar Qatars með aðstoð Bandaríkjamanna og Egypta. Ísraelar segja um vopnahlé til bráðabirgða að ræða og áskilja sér rétt til að hefja stríðsaðgerðir að nýju með aðstoð Bandaríkjamanna ef nauðsyn krefst eins og Benjamin Netanyahou forsætisráðherra orðaði það.

Samkvæmt samkomulaginu verður hernaðarátökum hætt og á fyrsta sex vikna áfanga samkomulagsins á Hamas að sleppa 33 ísraelskum gíslum úr haldi. Ísraelar eiga á sama tíma að láta 737 palestínska fanga lausa að sögn ísraelska dómsmálaráðuneytisins. Yfirvöld í Egyptalandi segja hins vegar að í þessum fyrsta áfanga verði „meira en 1890 palestínskir fangar“ látnir lausir.

Itamar Ben-Gvir öryggismálaráðherra Ísraels stóð við hótun sína um að segja af sér vegna samkomulagsins við Hamas. Hann hætti í ríkisstjórninni sunnudaginn 19. janúar vegna þess að samkomulagið gerði ráð fyrir að „hundruð morðóðra hryðjuverkamanna“ fengju frelsi og þúsundir hryðjuverkamanna myndu snúa aftur til norðurhluta Gasa-spildunnar.

Vegna ákvörðunar ráðherrans missir ríkisstjórnin stuðning sex þingmanna. Meirihluti hennar er naumur en þessi fækkun dugar ekki til að fella Benjamin Netanyahu og stjórn hans. Ben-Gvir segir að flokkur sinn geti gengið aftur inn í stjórnina hefjist stríð við Hamas að nýju.

Þótt fleiri ráðherrar eða flokkir hverfi frá stjórninni fellur hún ekki því að forystumenn stjórnarandstöðunnar hafa heitið Netanyahu „öryggisneti“ á meðan unnið sé að því að festa vopnahléð í sessi. Það kann að taka marga mánuði að sögn fréttaskýrenda.

Stríðið undanfarna 468 daga hefur gjörbreytt stöðunni í Mið-Austurlöndum – Hezbollah-hryðjuverkasamtökin hafa hrakist frá völdum í Líbanon, Bashar al-Assad harðstjóri í Sýrlandi er pólitískur flóttamaður í Moskvu. Línur hafa skýrst milli Ísraels og Írans og bein átök milli landanna eru ekki óhugsandi.