16.11.2025 10:34

Vitvélar tala íslensku

Þegar dagur íslenskrar tungu (16. nóv.) er haldinn í 29. skipti á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar er rétt að minnast þess að risamálheild Árnastofnunar sem gerir vitvélunum kleift að nýta tunguna er á svipuðum aldri og dagur íslenskunnar.

Við sátum þrír og ræddum landsins gagn og nauðsynjar á veitingastað. Maður gengur að borðinu og heilsar okkur vingjarnlega. Við skiptumst á orðum og hann vék að því að við værum alltaf að skrifa. Og notið líklega gervigreind? spurði hann og erfitt var að átta sig á hvort hann teldi það okkur til ámælis eða ágætis.

Samtöl í þessum dúr minna mig á orð sem féllu fyrir 30 árum þegar þessi vefsíða sá dagsins ljós og ég átti stundum erfitt með að átta mig á hvort viðmælendur teldu framtakið jákvætt eða neikvætt. Það dró þó ekki úr áhuganum á að nýta mér þessa tækni til samskipta, samhliða póstforritum og öðru sem internetið hafði þá að bjóða.

Umræður um áhrif og notkun vitvélanna (gervigreindarinnar) eru jafnvel enn dramatískari en um innleiðingu netsins. Innreið vitvélanna er líkt við upphaf rafvæðingar á sínum tíma eða jafnvel uppgötvun eldsins.

Í breska blaðinu The Guardian var laugardaginn 15. nóvember vitnað í orð sem Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, lét falla áður en hún kom fram á Iceland Noir bókmenntahátíðinni í liðinni viku um að á aðeins einni kynslóð kynni íslenskunni að verða útrýmt „vegna mikillar aukningar gervigreindar og vaxandi yfirráða enskunnar“.

Þá er haft eftir Katrínu að í stjórnartíð hennar hafi þau séð „ógnir og hættur gervigreindar“ og mikilvægi þess að tryggja að íslenskir ​​textar og bækur yrðu notaðar til að þjálfa hana.

Nnn

Myndin er frá Árnastofnun

Þegar dagur íslenskrar tungu (16. nóv.) er haldinn í 29. skipti á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar er rétt að minnast þess að risamálheild Árnastofnunar sem gerir vitvélunum kleift að nýta tunguna er á svipuðum aldri og dagur íslenskunnar.

Í grein í Morgunblaðinu 15. nóvember segir Halldór Benjamín Þorbergsson, stjórnarformaður Almannaróms, miðstöð mátækni, að miðstöðin beiti sér nú fyrir átakinu Þín íslenska er málið þar sem leitað verði „til fyrirtækja í því augnamiði að safna heimildum um þeirra tungutak“. Þýðingarélar standi sig langverst þegar þær þurfi að glíma við texta með sértækum orðaforða.

Þessi tímabæra heimildasöfnun hefur að markmiði að stækka enn risamálheild Árnastofnunar sem síðan er „notuð til að þjálfa ýmsa tækni á íslensku. Skýrslur, tilkynningar, minnisblöð, vörulýsingar. Jafnvel þó innihald þeirra sé úrelt og margra ára gamalt. Allt á þetta heima inni í átakinu, svo lengi sem texti þeirra er á íslensku,“ segir Halldór.

Í tilvitnuðum orðum Katrínar og Halldórs Benjamíns birtast tvö ólík sjónarmið: Katrín óttast, Halldór Benjamín sér tækifæri.

Ég hallast því að vitvélarnar skapi íslenskunni ný tækifæri. Sífellt fleiri átta sig á getu vélanna til að miðla erlendum textum á íslensku og munu nýta sér þann kost til að stækka sjóndeildarhring sinn.

Þeir sem vinna með íslenskt mál hafa nú við fingurgómana hjálpartæki sem er ávallt á vakt, kvartar ekki undan álagi og svarar á nokkrum sekúndum flóknustu spurningum á íslensku eða snarar íslenskum texta á hvaða mál sem er. Ég hika ekki við að nýta mér vitvélarnar og gera það á íslensku.